Nei, trúarbrögð eru alls ekki forsenda siðferðis. Með því að fullyrða slíkt væri maður í raun að segja að menn gætu ekki verið siðprúðir án þess að vera trúaðir. Það er vitanlega ekki rétt. Siðferði er hins vegar óumdeilanlega tengd trúarbrögðum þar sem að í öllum trúarbrögðum (svo best sem ég veit) er að finna hugmyndir um það hvernig fólk á að haga sér gagnvart guði sínum, sjálfum sér og öðrum.
Það virðist þó vera algengur misskilningur meðal almennings að trú sé forsenda siðferðis. Flestir kannast líklegast við orðasamböndin ,,kristilegt siðgæði“ og ,,kristilegur kærleikur“ eða setningar á borð við ,,þetta var nú kristilegt af honum“ eða ,,það er nú varla við öðru af búast af þjóð sem ekki hefur verið alin upp í kristilegu umhverfi“ o.s.frv. Í Morgunblaðsgrein sem birtist laugardaginn 2. febrúar 2002 sagði prestur einn m.a.:
,,Og skyldi það vera tilviljun að þau lönd sem skora hæst á kvörðum sem mæla velmegun, þjóðfélagslegt réttlæti og öryggi, frið og farsæld eru Norðurlöndin þar sem sterkar þjóðkirkjur hafa mótað mannlífið um aldir? Löggjöf þjóðarinnar byggist að meginstofni til á kristnum gildum og ólíklegt má telja að meirihluti þjóðarinnar vilji breyta því í skjótræði og kasta siðferðilegum fjársjóði þjóðarinnar á glæ. Spyrja má um leið: Hvað vill fólk fá í staðinn?“
Ástæðan fyrir þessum misskilningi er líklegast fyrst og fremst sú að flestir eru fáfróðir um siðferðisboðskap trúarbragða. Á Íslandi þar sem langflestir telja sig vera kristintrúar veit nánast enginn hvað stendur í Biblíunni annað en það sem prestar þylja upp á hátíðisdögum og í fjölmiðlum. Fáir gætu sætt sig við ef það yrði kallað kristilegt athæfi að: eiga þræla, fara illa með konur, bannfæra samkynhneigða, hvetja til ofbeldis og stunda ofbeldi. Þó er ,,orð Guðs“ uppfullt af þessháttar siðleysu (sjá m.a. http://skepticsannotatedbible.com/ fyrir gagnrýna umræðu um Biblíuna og boðskap hennar).
,,Kristilegt siðgæði“ er því yfirleitt bara önnur aðferð manna til að segja ,,almennt siðgæði“. Prestar og aðrir þeir sem telja sig kristintrúar og eru fylgjandi lýðræði, kvenfrelsi, umburðarlyndi gagnvart samkynhneigðum, umburðarlyndi gagnvart fólki sem stundar önnur trúarbrögð eða aðhyllist aðrar lífsskoðanir en er jafnframt á móti ofbeldi. Þ.e. morðum, fjöldamorðum, mannránum, nauðgunum, barnamisþyrmingu og þrælahaldi. Þeir hafa því, rétt eins og fríþenkjarar, hafnað þeim siðferðisboðskap sem Biblían og guð þeirra m.a. boðar.
Í einföldu máli má segja að góðar siðareglur verða til vegna reynslu manna og skilnings þeirra á því hvernig best sé að koma fram við náungann. Guðlegar leiðbeiningar eru algerlega óþarfar (og oft til óþurftar eins og boðskapur Biblíunnar sannar). Flestir átta sig á því að það er skynsamlegt að koma fram við aðra eins og maður vill láta koma fram við sig. Rökhugsun og viljinn til að læra af reynslunni er allt sem þarf. Góðar siðareglur viðhalda eða auka lífsgæði manna en skerða þau ekki. Einnig má segja að góðar almennar siðareglur séu alþjóðlegar og eiga alls staðar jafn vel við, því þær eru byggðar á skynsemi en ekki kreddum.
Sigurður Hólm Gunnarsson