Íhaldsmenn og aðrir varðhundar óbreytts ástands hafa í gegnum tíðina brugðist við kröfum fólks um breytingar í réttlætisátt með því að fullyrða að engra breytinga sé þörf því ekkert sé óréttlætið. Þetta er sú aðferð sem andstæðingar aðskilnaðar ríkis og kirkju nota óspart þegar þeir eru beðnir um að rökstyðja afstöðu sína.
Þegar þeir eru spurðir hvort ekki sé eðlilegt að ríki og kirkja séu aðskilin svo að hér á landi geti ríkt raunverulegt trúfrelsi þá er svar þeirra oftast það að slíkt sé algerlega óþarfi. Enda séu ríki og kirkja nú þegar aðskilin. Hér verður gerð tilraun til að útskýra hvers vegna hægt er að fullyrða að þessir menn hafa rangt fyrir sér.
1) Hin evangelíska lúterska kirkja nýtur sérstakrar verndar í stjórnarskrá Íslands.
Í 62. grein stjónarskrárinnar, 1. málsgrein stendur:
„Hin evangelíska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.“
Þessi málsgrein er bersýnilega í mótsögn við 1. málsgrein 65. greinar sömu stjórnarskrár þar sem segir að:
„Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“
Önnur greinin verður augljóslega að víkja.
2) Óeðlileg fjárhagsleg tengsl eru milli ríkisins og kirkjunnar annars vegar og ríkisins og trúarbragða almennt hins vegar.
a) Ríkið greiðir enn laun presta og annarra starfsmanna kirkjunnar.
b) Skattgreiðendur eru látnir borga hundruð milljóna króna í sérstaka ríkis-kristnihátíð. Enn fremur er skattgreiðendum sendur reikningurinn fyrir 60 milljón króna riti um sögu kristni á Íslandi.
c) Ríkið sér af einhverjum ástæðum um að rukka sóknargjöld fyrir trúfélög. Hver einn og einasti þegn landsins er rukkaður um 6000 krónur á ári sem renna beint í þá sókn eða það trúfélag sem viðkomandi er skráður í. Ef viðkomandi einstaklingur er ekki í skráðu trúfélagi eða er trúlaus ber honum samt að borga þennan 6000 kall sem rennur þá til Háskóla Íslands. Þeim sem standa utan trúfélaga er refsað fyrir það því þeim er gert að borga aukalega um 50 milljónir á ári til Háskólamenntunar.
3) Kristinfræðsla og stundum trúboð er stundað í opinberum skólum
Í námskrá Björns Bjarnasonar stendur m.a. að:
„Kristilegt siðgæði [eigi] að móta starfshætti skólans…“
og að nemendur eigi að gera sér:
„…grein fyrir því hvaða þýðingu krossdauði Jesú og upprisutrúin hefur fyrir kristna einstaklinga andspænis dauðanum og þá von sem henni tengist“.
Tilgangur kristin“fræðslunnar“ er svo að:
„[efla] trúarlegan… þroska [nemenda]“
Þessi einhliða boðskapur á svo að vera predikaður yfir öllum börnum nema að foreldrar og forráðamenn óski sérstaklega eftir því að börnum þeirra verði hlíft. Þetta veigra forráðamenn sér eðlilega við að gera því þá lenda börn þeirra jafnvel í því að þurfa að hanga ein fram á gangi á meðan kristinfræðslan á sér stað og þurfa að svara spurningum um það hvers vegna þau eru svona ólík öðrum.
Mörg dæmi eru um að heilu skóladögum sé eytt í að kenna börnum að semja og fara með kristnar bænir og stundum kemur fyrir að farið er með börn í messur á skólatíma og þá jafnvel án leyfis foreldra.
Enn kemur jafnframt fyrir að fermingarfræðslunni svokölluðu sé komið fyrir inn í miðri stundaskrá nemenda þannig að ferming lítur út fyrir að vera hluti af eðlilegu skólastarfi. (sjá nánar Aðskiljum skóla og kirkju)
4) Alþingi allra Íslendinga hefst með messu og bænagjörð
Það er ekki hlutverk alþingismanna að hlusta á predikanir um gildi kristninnar og fara með bænir. Alþingi á að vera veraldleg stofnun en ekki kirkjuleg. (sjá nánar Af hverju er setning Alþingis kirkjuleg athöfn?)
5) Almenningi er bannað samkvæmt lögum að vinna á helgidögum kristintrúarmanna
Vegna óeðlilegra tengsla ríkis og kirkju eru atvinnulífinu settar skorður af trúarlegum ástæðum. Einu sinni máttu menn ekki vinna á sunnudögum og enn mega menn ekki vinna á hinum ýmsu hátíðisdögum kristninnar. Hvenær fólk vinnur eða tekur sitt frí ætti að vera samningsatriði á milli launþega og atvinnuveitenda, ekki launþega og kirkjuyfirvalda. (sjá nánar Biskupinn og aðskilnaður ríkis og kirkju)
6) Börn eru skráð sjálfkrafa í trúfélag móður
Ríkið á ekki að hafa milligöngu í því að skrá ómálga börn í trúfélög frekar en önnur félög. Foreldrar ættu sjálfir að sjá um skrá börn sín í trúfélög ef þeim finnst eðlilegt að börn séu yfirleitt skráð í slík félög.
7) Grafreitir eru undir stjórn kirkjunnar
Eðlilegt er að grafreitir séu undir stjórn sveitarfélaga en ekki eins ákveðins trúsöfnuðar.
8) Guðfræðideild Háskóla Íslands
Óeðlilegt hlýtur að teljast að ríkisvaldið kosti og sjái um þjálfun prestastéttar eins trúfélags. Annað hvort þarf að fjölga trúfræðideildum við HÍ sem nemur þeim fjölda trúarbragða sem hér eru stunduð, eða það sem eðlilegra er, að leggja Guðfræðideild HÍ niður og leyfa kirkjunni sjálfri að reka sinn trúarbragðaskóla.
Að lokum
Þrátt fyrir ofangreind augljós tengsl ríkis og kirkju hér á landi halda hinir ýmsu prestar, og aðrir varðhundar óbreytts ástands, áfram að fullyrða að ríki og kirkja séu samt aðskilin.
Ég velti því stundum fyrir mér hvers vegna þessir menn tala svona og kemst ég bara að tveim mögulegum niðurstöðum. Annað hvort vita þeir í sakleysi sínu ekki um ofangreind tengsl ríkisvaldsins og kirkjunnar eða þá að þeir eru að brjóta 8. boðorðið og ljúga að almenningi í þeim tilgangi einum að vernda óbreytt ástand. Hvert rétt svar er þori ég ekki að fullyrða neitt um.
*Þessi grein var birt í Morgunblaðinu þann 29. desember 2001.
Sigurður Hólm Gunnarsson