Stjórn Siðmenntar sendi þingmönnum eftirfarandi erindi 21. september 2015:
Ágætu þingmenn
Stjórn Siðmenntar vill senda ykkur, þingmönnum Lýðveldisins Íslands, óskir um velfarnað á komandi kjörtímabili. Eins og undanfarin ár fylgir hér listi mála sem Siðmennt telur brýnt að verði skoðuð og breytt á komandi þingi (sjá fyrri erindi: 2013 – 2014).
Stjórn Siðmenntar vill hrósa þingmönnum fyrir að hafa á síðasta þingi samþykkt að afnema ákvæði um guðlast úr almennum hegningarlögum. Eftir því hefur verið tekið víða um heim, bæði á meðal mannréttindasamtaka, alþjóðlegra stofnana og ekki síður hjá þjóðum sem búa við trúræði og stíf lög um guðlast sem í nokkrum löndum ganga svo langt að fólk er tekið af lífi fyrir að hafa aðra lífsskoðun. Áhrifin eiga eflaust eftir að verða meiri þegar fram líða stundir en auk Íslands þá afnam Noregur sambærileg lög á þessu ári.
- Aðskilnaður ríkis og kirkju er eitt mikilvægasta mál sem Alþingi ætti að vinna að. Siðmennt leggur til að þingið samþykki að skipa fjölskipaða nefnd sem fari yfir þau málefni sem aðskilnaður ríkis og kirkju mun óhjákvæmilega hafa áhrif á. Það er því mikilvægt að slík vinna eigi sér stað og að vinnuhópurinn leggi fram ítarlega skýrslu um þau áhrif. Siðmennt óskar eftir að taka þátt í slíkri vinnu. Í Svíþjóð varð aðskilnaður um síðustu aldamót og í Noregi hófst vinna árið 2005 sem hefur svipað markmið og hér er lýst.
Markmiðið er að ríkiskirkjufyrirkomulag verði afnumið og fullu trúfrelsi verði náð. Samfélag þar sem ein kirkjudeild hefur sérstöðu sem bundin er m.a. í stjórnarskrá er samfélag sem útilokar og mismunar öðrum lífsskoðunum, trúarlegum sem veraldlegum.
Gallup International framkvæmir kannanir á trú/trúleysi fólks í heiminum. Nýlegar niðurstöður sína að aðeins 51% Íslendinga telja sig trúaða (hér er átt við öll trúarbrögð), 30% telja sig ekki trúaða og til viðbótar eru 14% sem skilgreina sig sem trúleysingja.
Árið 1996 töldu 87% landsmanna sig „mjög eða nokkuð trúaða“ en aðeins 13% sögðust „ekki trúaðir“ eða „sannfærðir trúleysingjar“. Í könnun Gallup frá 2012 telja 57% Íslendinga sig „trúaða“, 31% eru „ekki trúaðir“ og 10% sem telja sig „trúleysingja“.
Frá árinu 1996 til 2015 hefur því „trúuðum“ á Íslandi fækkað úr 87% í 51%, þeir sem voru „ekki trúaðir“ eða „trúleysingjar“ voru 13% 1996 en nú eru „ekki trúaðir“ 30% og „trúleysingjar“ 14%. Það þýðir að í þessum tveim hópum hefur fjölgað um 238%.
Frá árinu 1994 hefur Capacent á Íslandi (og forveri þess) gert árlega könnun á afstöðu fólks til aðskilnaðar ríkis og kirkju. Stuðningur við aðskilnað hefur verið á bilinu 61-74% (að undanskildu einu ári).
Það er skylda þingmanna að endurskoða samband ríkis og kirkju. Ofangreindar upplýsingar hljóta að vera ágætur grunnur fyrir slíkri endurskoðun.
- Fyrirhuguð hækkun trúfélagaskatts verði afturkölluð. Í nýju fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir 9% hækkun á trúfélagaskatti (svokölluðum sóknargjöldum) á meðan verðbólga undanfarna 12 mánuði hefur aðeins verið 2.2%.
Umframhækkunin er réttlætt með því að skorin hafi verið niður framlög til þessa skatts síðan 2008 um sem nemur um 40%. Þjóðkirkjan hefur sótt það hart að fá aukið fjármagn úr ríkissjóði til þess að bæta fyrir tekjutap.
Hér þarf að íhuga tvö atriði:
Mikill flótti hefur verið úr kirkjunni og hefur fjöldi skráðra fækkað úr 245 þúsundum í 243 þúsund á milli áranna 1998-2015. Hins vegar hefur hlutfall þeirra sem eru í kirkjunni á sama tíma lækkað um yfir 16 prósentustig úr 89.91% í 73.76%. Á sama tíma hefur íbúum fjölgað um 57 þúsund eða um 21%. Færa má rök fyrir því að þetta hlutfall væri töluvert lægra ef ekki kæmi til sjálfkrafa skráning hvítvoðunga í trú- og lífsskoðunarfélög (sjá lið 4 hér að neðan). Að skrá börn á þennan hátt er andstætt hugmyndum um félagafrelsi.
Hitt er að til rökstuðnings fyrir hækkun trúfélagskattsins eru viðmiðin röng. Í gögnum nefndar á vegum Innanríkisráðuneytisins sem lagt hefur til hækkun á skattinum er að finna tölur um upphæð hans frá árinu 1988. Í röksemdum nefndarinnar fyrir hækkun segir eftirfarandi:
„Starfshópurinn telur að með þessum aðgerðum yrðu söfnuðir þjóðkirkjunnar jafnsettir hvað niðurskurð varðar og stofnanir innanríkisráðuneytisins. Telur hópurinn einnig að í skýrslu nefndar fyrrverandi innanríkisráðherra sem mat áhrif niðurskurðar fjárveitinga á starfsemi Þjóðkirkjunnar og skilaði skýrslu í apríl 2012 sé dregin upp raunsönn mynd af niðurskurði á sóknargjöldum. Hafi þau frá hruni 2008 numið um 25% umfram framlög til reksturs annarra stofnana sem heyrðu undir innanríkisráðuneytið“.
Þessi „raunsanna“ niðurstaða er frekar undarleg þegar skoðuð er þróun skattsins til lengri tíma en frá hrunárinu 2008. Rétt er að lækkun skattsins er dramatísk frá 2008–2014 eða um 40%. Hins vegar ef farið er lengra aftur, til ársins 1995 þá er verðgildi trúfélagaskattsins nánast það sama og árið 2014. Frá árinu 1988–2008 jókst verðgildi skattsins um 105% og ef borið er saman verðgildi á milli áranna 1988 – 2014 þá er hækkunin hvorki meira né minna en 24%.
Skatturinn (sóknargjöldin) hefur að auki hækkað verulega síðastliðin tvö ár. Árið 2014 voru greiddar 750 kr. á mánuði á hvern skráðan einstakling í trú- eða lífsskoðunarfélagi. Árið 2015 var upphæðin 810 kr. á mánuði en lagt er nú til að hún verði 898 kr. á mánuði. Hækkunin milli áranna 2014-16 er því 19.7% á meðan verðbólga hefur einungis hækkað um rúm 4% á tímabilinu.
Því er ljóst að viðmið nefndarinnar og ráðuneytisins eru afar villandi því auðvelt er að velja sér viðmið sem hentar. Á árunum 1988–2014 hefur trúfélagaskattur til kirkjunnar numið tæpum 74 milljörðum króna á verðgildi 2014. Gera verður kröfu til þess að litið sé á heildarmyndina þegar verið er að leggja til aukna skattlagningu sem nemur 410 milljónum króna.
Þessa þróun má glögglega sjá á meðfylgjandi mynd sem er byggð á gögnum Innanríkisráðuneytisins.
- Ríkið hætti skráningu trúar- og lífsskoðana með því skrá fólk hjá Þjóðskrá. Það er andstætt persónuvernd um upplýsingagjöf einstaklinga að þurfa að gefa upp lífsskoðanir sínar.
- Sjálfkrafa skráning barna í trú- og lífsskoðunarfélög verði afnumin. 2. mgr. 8 gr laga nr. 108/1999 verði endurskoðuð á þann veg að börn séu ekki skráð sjálfkrafa í trú- eða lífsskoðunarfélög við fæðingu. Það er andstætt hugmyndum um mannréttindi barnsins. Gerð var örlítil bragarbót með breytingu laganna árið 2013 í þá veru að ef foreldrar eru ekki í sama félaginu skal barnið skráð utan félaga. Annars skrást börn sjálfkrafa í trú- eða lífsskoðunarfélag foreldra. Slíkt fyrirkomulag býður ekki upp á upplýsta ákvörðun foreldra hvað þá barna um stöðu þess.
- Þeir sem skráðir eru utan trúar- og lífsskoðunarfélaga greiði ekki trúfélagaskatt (sóknargjald). Í 2. mgr. 64 stjórnarskrárinnar segir að þeir sem ekki eru skráðir í trúfélag skulu greiða sama skatt og aðrir (svokallað sóknargjald) en hann renni í ríkissjóð. Siðmennt telur að afnema eigi þessa kvöð svo þeir sem eru utan allra félaga greiði ekki skatt eingöngu fyrir það vera ekki í félagi – það er mismunun. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur gert athugasemd við að allir greiddu kirkjuskattinn óháð því hvort þeir væru skráðir í söfnuð eður ei.
- Kirkjujarðasamningnum frá 1997 (og útfærslu hans 1998) verði sagt upp. Við gerð samningsins var ekkert mat lagt á virði þeirra eigna sem yfir hann náðu. Hins vegar var ríkið skuldbundið til að að greiða milljarða á ári um ókomna framtíð þar sem engin endurskoðunarákvæði eru í honum. Þær tölur sem nefndar voru um virði eigna á þessum tíma eru aðeins nokkrir milljarðar og því ljóst að verið var að skuldbinda ríkissjóð á röngum forsendum.
- Skylda sveitarfélaga að leggja trúfélögum til ókeypis lóðir verði afnumin með breytingu á lögum nr. 35/1970. Það er ekki hlutverk sveitarfélaga að sjá trúfélögum fyrir slíkum ívilnunum. Það skal tekið fram að Siðmennt hefur ekki og mun ekki sækjast eftir að skattgreiðendur borgi lóðir undir starfssemi félagsins.
- Tryggja húsnæði fyrir athafnir óháð lífsskoðun. Við athafnir Siðmenntar, þó sérstaklega við útfarir, eiga aðstandendur erfitt með að fá tilhlýðilegt rými sem hentar öðrum lífsskoðunum en kristnum. Í dag er aðeins hægt að notast við Fossvogskirkju, sem skilgreind er fyrir öll trúar- og lífsskoðunarfélög. Þar trónir risastór kross fyrir altari sem lýsir ekki virðingu fyrir öðrum lífsskoðunum. Því er óskað eftir því við Alþingi að séð verði til þess að hér á landi sé til húsnæði sem henti athöfnum fólks með aðra lífsskoðun.
Biskup og prestar Þjóðkirkjunnar hafa marglýst því yfir að kirkjan „sé fyrir alla“ en staðreyndin er önnur. Í „Samþykktum um innri málefni þjóðkirkjunnar“ sem Þjóðkirkjan samþykkir á Kirkjuþingi, segir í 13. gr. í kafla 3:
„Ekki skal nota kirkju til annarra athafna en þeirra sem teljast samrýmast tilgangi hennar og stöðu sem vígðs helgidóms þjóðkirkjunnar, svo sem borgaralegra athafna eða athafna á vegum annarra trúfélaga en kristinna.“
Þessi stefna kirkjunnar er greinilega beint gegn athöfnum á vegum Siðmenntar og stangast á við það sem prestar og biskup hafa sagt, – að allir fái þjónustu í kirkjum óháð lífsskoðun. Fullyrðingarnar standast ekki því veraldlegir viðburðir eru nánast daglegt brauð í kirkjum landsins,s.s. tónleikar, fundahöld, skólasetningar og útskriftir skóla.
Siðmennt lýsir sig reiðubúið að eiga fundi með þingmönnum vegna ofangreindra mála sem og annarra sem ágætt væri að ræða.
Kær kveðja,
F.h. Siðmenntar
Bjarni Jónsson
Framkvæmdastjóri
_