Steinar Harðarson hefur náð þeim merka áfanga að hafa verið úthlutað eitt hundruðustu athöfn sinni sem athafnarstjóri Siðmenntar. Hann er því reynslumesti athafnarstjóri félagsins en 40 konur og karlar sinna þessu mikilvæga starfi. Á meðfylgjandi mynd er Steinar að stjórna giftingu sumarið 2016 við Hvaleyrarvatn.
Steinar var í hópi fyrstu félagsmanna Siðmenntar sem sóttu námskeið í athafnastjórnun síðla árs 2007. Hann hefur sinnt flestum nafngjöfum allra, verið öflugur við giftingar en einnig þjónustað flestar útfarir á vegum Siðmenntar. Það er mikilvægt fyrir Siðmennt að hafa slíkan dugnaðarfork á sínum snærum sem nýtur trausts og álits þeirra sem hann hefur þjónað.
Á tímabilinu frá 2007-2017 eru skráðar 838 athafnir sem Siðmennt hefur sinnt og hefur farið hratt fjölgandi. Það sem einkennir athafnirnar er að þær eru veraldlegar, persónulegar, fallegar og miðast við óskir þeirra sem til félagsins leita. Ekki er spurt um trú eða lífsskoðun, kynhneigð eða litarhátt heldur er verið þjónusta fólk.
Stjórn Siðmenntar óskar Steinari til hamingju.