Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Borgaralegt samfélag

Ávarp Ragnars Aðalsteinssonar flutt við afhendingu Húmanistaviðurkenningar Siðmenntar 5. október 2006

Heiðraða samkoma

Ég þakka þann heiður sem mér er sýndur með þessari viðurkenningu Siðmenntar, sem ég veiti viðtöku af auðmýkt.

Siðmennt er meðal margra frjálsra félagasamtaka hér á landi, sem hafa mikilvægu hlutverki að gegna í samfélaginu. Þessi frjálsu félagasamtök, sem eru óháð ríkisvaldinu og sækjast ekki eftir að fara með ríkisvald, standa varðstöðu um lýðræðið í landinu og aukinn þroska þess.


Það fulltrúalýðræði sem við búum við hefur ýmsa ókosti eins og það er framkvæmt hér. Þrátt fyrir að við búum við stjórnskipun sem er grundvölluð á þrískiptingu stjórnvaldsins, þá virkar sú regla ekki eins og henni er ætlað. Handhafar framkvæmdavalds, þ.e. ráðherrar í ríkisstjórn, ákveða hvaða mál koma fyrir Alþingi og fá þar afgreiðslu. Þá er skipan stjórnmálaflokka svo fyrir komið að þeir þingmenn sem tilheyra þeim þingflokkum, sem styðja ríkisstjórn á hverjum tíma, eru bundnir af ákvörðunum ráðherranna og flokkasagi kemur í veg fyrir að þeir geti með gagnrýnum og málefnalegum hætti fjallað um einstök þingmál. Þá eru þingmál ekki kynnt með þeim hætti, að auðvelt sé að fjalla um þau af þekkingu og skynsemi og á það bæði við um fjölmiðla og allan almenning. Rödd almennings og viðhorf berast því ekki þingmönnum, sem um þingmál fjalla. Í undirbúningsgögnum þingmála er nánast eingöngu að finna áróðurskenndar röksemdir sem mæla með samþykki málanna, sem stafa frá ríkisstjórn. Þessar starfsaðferðir eru ekki aðferðir lýðræðislegra stjórnarhátta.

En hvað er þá til ráða?

Ég tel ekki leika vafa á, að bæta mætti lýðræðislegar ákvarðanir í landinu með aukinni þátttöku alls almennings.

Er ég þá kominn að því sem nefnt er borgaralegt samfélag og einkum birtist í starfi frjálsra félagasamtaka. Í landinu eru fjölmörg félög sem starfa á hinum fjölbreyttustu sviðum mannlífsins. Í félögum þessi hefur safnast saman mikil þekking og reynsla, sem brýnt er að koma á framfæri þannig að nýtist samfélaginu. Þetta gerst með því að félög þessi halda fundi og ráðstefnur, gefa út tímarit og bækur og félagsmenn skrifa greinar í blöð og taka þátt í opinberum umræðum.

Spurningin er sú hvort borgaralegt samfélag á Íslandi sé nógu öflugt. Ég tel svo ekki vera og tek þá mið af því hvort og þá hversu mikil áhrif málaefnaleg rök hinna frjálsu félaga hafa á ákvarðanir sem teknar eru af ríkisstjórn, stjórnum sveitarfélaga og á Alþingi. Ég spyr mig hvort hinir lýðkjörnu fulltrúar leggi við hlustir og íhugi mikilvægi umræðunnar í landinu eða hvort þeir telji að hún skipti þá ekki máli eftir að kjöri er náð. Mér finnst oft eins og fulltrúar okkar á Alþingi og í sveitarstjórnum tali af lítilli virðingu um skoðanir borgaranna og skiptir þá ekki endilega máli hversu málefnalegar þær eru og hversu vel ígrundaðar þær eru. Mér finnst stundum eins og örli á valdhroka í samskiptum borganna og valdhafanna.

Þar sem gagnvegir milli borgaranna og valdhafanna eru torfærir er lýðræði á lágu stigi.

Sé það rétt hjá mér að þeir sem með völdin fari hlusti lítt á talsmenn frjálsra félagasamtaka og láti sig litlu varða hverjar skoðanir og sjónarmið koma þar fram, þá segir það okkur aðeins eitt, að hið borgaralega samfélag á Íslandi er veikt. Valdsmenn geta því aðeins sniðgengið það samfélag, að það sé svo veikt að engu skipti hvort tekið sé tillit til þess.

Því er nauðsynlegt að frjáls félagasamtök auki starfsemi sína, fái fleiri til að taka þátt, efli enn frekar þekkingu sína, verði sýnilegri og komi sjónarmiðum sínum hiklaust á framfæri opinberlega, hvert á sínu sviði. Slík félög verða að taka þátt í umræðum um stefnumótandi aðgerðir i samfélaginu og gagnrýna það sem er gagnrýnisvert með málefnalegum og rökstuddum hætti.

Vegna þess hversu lítt móttækilegir valdsmenn eru fyrir gagnrýnum rökum hins borgaralega samfélags verða samtök stundum að hrópa á torgum og hrópa hátt.

Ef viðurkenning sem sú sem ég hef hlotið í dag hjá Siðmennt verður til að vekja athygli á frjálsum félagasamtökum og gera þau nægilega öflug til að valdsmenn komist ekki hjá að hlusta á raddir þeirra og taka tillit til þeirra, þá hefur lýðræðisvitundin aukist í landinu.

Til baka í yfirlit