Tvær fermingarathafnir fóru fram í Salnum í Kópavogi í dag sunnudaginn 27. apríl 2014. Hér fer ræða ræðumanns og nokkrar myndir.
—-
Kæru ungmenni, vinir og ættingjar.
Hjartanlegar hamingjuóskir á þessum fallega degi.
Þetta er dagurinn ykkar og munið svo líka að allir dagar eru ykkar dagar.
Hver dagur er nýtt upphaf og nýtt ævintýri.
Ég hef hlakkað mikið til þessa dags því fermingarathafnir Siðmenntar eru þekktar sem listahátíðir unga fólksins, menningarviðburður þeirra sem staðfesta kunnáttu í siðfræði, þjálfun í mannúð og kærleika og hafa lokið mannræktarnámskeiði sem er nesti í bakpokann fyrir lífið.
Ég er fermd, fyrir löngu síðan. Á köflóttum kjól og rauðum klossum á Álftanesi. Og ég hef fylgt þremur dætrum mínum í gegnum fermingarundirbúning, ekki borgaralegan.
Og við höfum þrasað dálítið um tilganginn með þessu öllu saman. Ég hef reynt að ýta að þeim borgaralegu fermingunni með þeirri ómetanlegu fræðslu sem hér er veitt en án árangurs. Þær fóru sínar eigin leiðir og við tókum þetta heimspekilega samtal um tilvistina, samtal sem er svo hollt að taka af og til.
En ykkur að segja hef ég oft spurt mig, sennilega af því að ég er svo gleymin.
– Hversvegna erum við að þessu? Hvað táknar tilstandið? Allt þetta umstang?
Einhverjir eru búnir að leigja sal, panta veitingar, eða baka, elda, marínera og smyrja.
Sumir eru búnir að vaka við matarstand eftir vinnu fram á nætur í marga daga.
Það er búið að þrífa svo nú má eta af gólfunum heima hjá einhverjum.
Svo er búið að pakka allskyns varningi í gull- og silfurpappír og víða liggja peningaumslög í veskjum og vösum og bíða þess að skipta um hendur.
– Afsakið, vinsamlegast gefið barninu mínu ekki peninga í fermingagjöf. Mér finnst það bara ekki viðeigandi, sagði ég þvermóðskufull og bannaði öllum að gefa elstu dóttur minni peninga.
– Þú skuldar mér, mamma, sagði hún örg þegar gestirnir voru farnir og hún sat eftir með örþunnt peningaumslag en staflana af fallegum bókum. Þar var kominn grunnurinn að hennar bókasafni fyrir lífið.
En, já, allir búnir að vera á haus. Samt hafa nú sennilega margir haldið haus í þessu öllu saman.
Og það er búið að kaupa kjóla og jakkaföt, blúndur og silki og allir svo fallegir og stroknir í dag.
En líklega eru einhversstaðar hérna úti í salnum konur og karlar sem eiga erfitt með að halda sér vakandi eftir allan undirbúninginn.
Sjálf bræddi ég bókstafi, laufblöð og rósir úr vaxi utan á túrkisblátt fermingarkerti klukkan fjögur um nótt. Það var fyrir elstu dótturina.
Ég hlóð hjartalaga sælgætisskál úr marsipanbitum og límdi saman með suðursúkkulaði klukkan þrjú um nótt. Það var fyrir miðdótturina.
Og ég handmálaði skíðaskó og lítil skíði og breytti skónum í blómavasa eftir miðnætti fyrir yngstu dótturina.
Mömmur, ömmur, frænkur, pabbar, afar, frændur, bræður og systur. Vinir og vinkonur. Allir eru með hlutverk í dag – hlutverk í kringum eina uppákomu fyrir unglinginn á heimilinu. Fyrir þennan sem sefur kannski lengst um helgar, ranghvolfir augunum yfir öllu sem maður segir og tekur alls ekki alltaf mikið mark á manni.
– Og til hvers erum við að þessu? spyr ég mig aftur og man þá svarið.
Það blasir við.
Það hrópar á mann þegar maður horfir á ykkur hér í dag.
Það er neonskilti yfir ykkur.
VIð erum auðvitað að þessu til að fagna sjálfu lífinu, fagna því að fá að ganga með ykkur, ungu og yndislegu manneskjur, sem eruð einmitt núna að bjástra við að vaxa upp úr fötunum ykkar, vaxa upp úr röddinni ykkar. Nef og fætur stækka og allt æðir áfram. Og stundum líður ykkur eins og þið séuð að springa úr gleði og hamingju og öskureiði og sorg – allt í senn. Hausinn er galopinn fyrir öllu nýju og þið lærið allt á methraða. Þið þurfið að borða endalaust til að næra vöxtinn mikla, sofa endalaust til að safna kröftum. Og ykkur veitir ekkert af því að safna kröftum því allt lífið ykkar er framundan og það kemur þjótandi á móti ykkur.
Við erum hér í dag til að fagna því að fá að fylgja sjálfstæðum og hugrökkum manneskjum. Við gleðjumst yfir því að fá að vera þessi sem þið takið ekki mark á þegar þið ákveðið að taka eigin ákvarðanir og fylgja eigin hyggjuviti. Við þökkum fyrir að fá að vera þessi sem þið ranghvolfið augunum yfir þegar þið ákveðið að fara ykkar eigin leiðir.
Þá veit allt þetta fólk sem að ykkur stendur að þvi hefur tekist vel upp. Að þið hafið lært að fylgja hjartanu. En því fylgir ábyrgð að fylgja hjartanu, ábyrgð gagnvart sjálfum sér og það eruð þið að læra smátt og smátt – að taka ábyrgð á sjálfum ykkur.
Í fornum menningarsamfélögum markaði fermingin einhverskonar endalok barnæskunnar. Þegar ég fermdist var sagt að nú væri maður kominn í fullorðinna manna tölu. Það má alveg deila um það eins og flest annað. Það er markmið í sjálfu sér, að fullorðnast og það gerum við alla ævi. Við erum einmitt komin saman til að minna okkur á að við þurfum á hvort öðru að halda. Við styðjum hvort annað, styrkjum og hvetjum til dáða alla daga. Hvort sem við erum fertug eða fjórtán ára.
Við trúum á okkur sjálf og hvort annað. Við ferðumst með vonina í brjósti og höfum kærleika og mannúð að leiðarljósi. Trú, von og kærleikur. Þessi þrenning er alheimsorka og sameign hvar svo sem við búum og hverju svo sem við trúum. Eða eins og Þorsteinn Erlingsson, skáld, sagði:
Trú og von og ást ég á,
eins og dæmin sýna.
Mér er vel við þessa þrjá
þrílembinga mína.
Og maður ræktar trúna á sjálfan sig. Maður elur vonina í brjósti og temur sér kærleiksríkar hugsanir. Það kemur ekki af sjálfu sér. Það er mannrækt – svona nokkurskonar líkamsrækt hugans. Við þurfum ekki kort í þá rækt, þurfum ekki handklæði og dýnu, aðeins stund með sjálfum okkur og hugsunum okkar. Það má samt segja að hugarræktin eigi sér höfuðstöðvar, ekki bara í okkar haus, heldur í hringnum okkar.
Það þarf þorp til að ala upp barn. Þannig getið þið í dag litið í kringum ykkur og þá sjáið þið þorpið ykkar. Þið sjáið fólkið sem að ykkur stendur og gefur af sér til ykkar í hjartasjóði alla daga.
Ætli mesti mannræktin fari ekki fram þar sem börn eru saman komin. Að minnsta kosti hefur mér alltaf fundist það. það eru jú börn sem eru oftast bjartsýnust á lífið, sjá í því allt það fallegasta og besta og eru full eftirvæntingar eftir því góða sem í vændum er.
Þegar öllu er á botninn hvolft þá hef ég komist að því að stundin í dag, aðdragandinn og hátíðin, er ekki aðeins skemmtileg tilbreyting í hversdeginum heldur lífsnauðsynlegur og mikilvægur áfangi fyrir okkur öll – fyrir fermingarbarnið og þorpið í kringum það.
„Það eru alltaf fleiri en einn möguleiki í stöðunni“
Þetta er það sem allt snýst um, góðra vina fundur til fagna því að ung manneskja er smátt og smátt að fullorðnast, minna hana á þorpið sitt og að enginn gengur einn, minna okkur öll á hamingjuna sem er í því fólgin að fanga allt hið góða í lífinu – ganga í birtunni af því að það er val.
Og niðurstaðan eftir allar þessar vangaveltur er sú að helst ættum við öll að fermast með vissu millibili. Helst ættum við öll að staðfesta að við ætlum að halda fast í fallegar hugsanir um ást, frið, bræðralag, systralag og vináttu, að við ætlum rækta þessar hugsanir í hugarræktinni og halda þessa heilsuræktarhátíð hugans reglulega.
Lítið í kringum ykkur í dag, kæru fermingarbörn, og virðið fyrir ykkur þorpið ykkar. Fólkið ykkar sem hefur vakað yfir veisluundirbúningi, vakað yfir ykkur litlum og mun alltaf vaka yfir ykkur. Í þorpinu ykkar eru fólgnar hinar eiginlegu gjafir sem þið takið með ykkur í gegnum allt lífið. Og allt sem þið setjið í pokann ykkar fyrir lífsins gönguför skulið þið gera að nesti en ekki byrði.
Þið sem hafið valið að fermast hér í dag farið ykkar eigin leiðir. Þið sýnið að þið spyrjið spurninga og ígrundið þau svör sem þið fáið.
Eins og til dæmis fjögurra ára stelpuskottið sem lék sér oft í höfuðborgarleik með mömmu sinni. Mamman sagði: Danmörk. Þá sagði stelpan Kaupmannahöfn. Svo sagði mamman Noregur og þá sagði hún Osló. Eitt sinn voru þær með ömmu í Hagkaupum og amma rambaði í burtu frá mæðgunum þar sem þær voru við ávaxtakælinn. Þá ætlaði mamman að tala við ömmuna, leit upp annars hugar og sagði: Hvar er Amman? Litla stýrið horfði á móður sína íbyggin og svaraði að bragði: Ertu að meina Amman í Jórdaníu eða amman sem er með okkur?
Og svona er þetta einmitt. Það eru alltaf fleiri en einn möguleiki í stöðunni.
Haldið áfram að spyrja spurninga. Hlustið á öll svörin.
Grípið daginn og alla daga, því hver dagur er nýtt tækifæri til að nýta einhvern af öllum þessum möguleikum.
Til hamingju, glæsilegi hópur.
Jóhann Björnsson, umsjónarkennari
Sævar Freyr Ingason, athafnarstjóri
Kristín Helga Gunnarsdóttir