LESENDUR Morgunblaðsins eiga það skilið að fræðast nánar um hvað borgaraleg ferming er.
Borgaraleg ferming er undirbúningur þess að takast á við þá ábyrgð að verða fullorðin(n). Fræðslan sem er veitt hefur það markmið að unglingar sem taka þátt í fermingunni verði í senn heilsteyptir og víðsýnir. Tilgangur borgaralegrar fermingar er að efla heilbrigt og farsælt viðhorf unglinga til lífsins. Kenna þeim að bera virðingu fyrir manninum, menningu hans og umhverfi. Undirbúa þá undir að vera ábyrga borgara. Borgaraleg ferming snýst ekki um trúarbrögð og er ekkert kennt á námskeiðinu sem er andstætt kirkjunni.
Á námskeiði okkar leggjum við áherslu á siðfræði og ábyrgð einstaklingsins í nútímaþjóðfélagi. Siðfræðin er nú stærsti einstaki þátturinn í námskeiðinu. Námskeiðið tekur þrjá mánuði og er í formi vikulegra fyrirlestra og umræðna. Teknir verða fyrir þessir málaflokkar: Mannleg samskipti, siðfræði, efahyggja, friðarfræðsla, lífsskoðanir, forvarnir gegn vímuefnum, kynfræðsla, umhverfismál, mannréttindi, jafnrétti, réttur unglinga í þjóðfélaginu og missir og sorg. Fyrirlesarar okkar eru úr fremstu röð sérfræðinga á hverju sviði. Fyrirlesarar okkar þau 8 ár sem þessi valkostur hefur verið til á Íslandi, hafa verið heimspekingar, sálfræðingar, læknir, prestur, dómari, alþingismaður, hjúkrunarfærðingur, félagsráðgjafar og kennarar.
Athöfnin að loknu námskeiðinu einkennist af virkri þátttöku fermingarbarnanna sjálfra og foreldra þeirra. Unglingarnir flytja ljóð og ræða um þýðingu þessara tímamóta í lífi sínu. Auk þess er flutt tónlist og ræður eru haldnar. Að lokum er afhent skírteini sem staðfestir að unglingarnir hafa hlotið þessa fræðslu.
Ástæður fyrir þátttöku fólks í borgaralegri fermingu eru margvíslegar. Sumir unglingar, sem hafa fermst borgaralega, eru trúaðir en þeim finnst undirbúningur okkar áhugaverðari en kirkjunnar. Aðrir fella sig ekki við prestinn í sinni sókn. Enn aðrir eru ekki tilbúnir að taka afstöðu til trúmála, geta ekki sætt sig við sumar kennisetningar eins og meyfæðinguna, erfðasyndina og þríeinan guð. Þá er líka hópur sem efast um tilvist guðs og vill ekki gefa nein óheiðarleg heit. Nokkrir úr þeim hópi eru sannfærðir trúleysingjar. Þátttakendur okkar eru margir skráðir í þjóðkirkjuna, nokkrir eru í öðrum kristnum söfnuðum og enn aðrir eru í trúflokkum sem eru ekki kristnir eða eru utan allra trúfélaga.
Síðan 1989 hafa 135 unglingar fermst á þennan hátt og hafa hátt í 1700 manns verið viðstaddir þessa athöfn. Margir af eldri kynslóðinni, t.d. ömmur og afar fermingarbarnanna, hafa haft orð á því að athafnirnar hafa verið fallegar, virðulegar og áhrifamiklar. Félagsskapurinn Siðmennt var stofnaður eftir fyrstu borgaralegu ferminguna til að aðstoða fólk við framkvæmd borgaralegra athafna. (nafngjöf og útför auk fermingar).
Það krefst hugrekkis að hugsa sjálfstætt og fara sínar eigin leiðir, sérstaklega á fermingaraldri. Við hjá Siðmennt teljum að unglingar á þessum aldri velti yfirleitt ekki fyrir sér trúarlegum hugmyndum. Við viljum að fermingaraldurinn sé hækkaður en við getum ekki hækkað hann á okkar eindæmi. Hins vegar getum við boðið annan kost. Valfrelsi hvetur fólk til að hugsa meira um hvað það vill og hvað hæfir því best. Í lýðræðissamfélögum hefur fólk frelsi til að hafa mismunandi skoðanir á lífinu, þar á meðal trúmálum. Mikilvægt er að fólk viti að til er val.
Höfundur er í stjórn Siðmenntar, félags um borgaralegar athafnir.
Hope Knútsson
Morgunblaðið 2. nóvember, 1995