Um þessar mundir ákveða fjölmörg ungmenni hvort og þá hvernig þau hyggist fermast að vori. Frá árinu 1989 hefur Siðmennt, félag siðrænna húmanista staðið fyrir borgaralegum fermingum í Reykjavík. Borgaralegar fermingar eru valkostur fyrir öll ungmenni burtséð frá trúar-eða lífsskoðunum þar sem megináherslan í fermingarfræðslunni er að efla gagnrýna hugsun, siðvit og farsæl viðhorf til lífsins. Um nokkurra ára skeið hefur Siðmennt komið til móts við áhugasöm ungmenni utan af landi með því að bjóða upp á undirbúningsnámskeið í formi helgarnámskeiða í Reykjavík.
Síðastliðinn vetur varð sú ánægjulega breyting vegna mikils áhuga á norður- og austurlandi að haldið var undirbúningsnámskeið fyrir borgaralega fermingu á Akureyri. Tvær fermingarathafnir voru síðan haldnar s.l. vor , önnu í Ketilhúsinu á Akureyri þar sem alls 12 ungmenni fermdust borgaralega og hin var á Fljótsdalshéraði þar sem þrjú ungmenni fermdust.
Nokkuð hefur verið spurt að því hvort félagið hyggist aftur standa fyrir borgaralegri fermingu á Norðurlandi með tilheyrandi undirbúningsnámskeiði. Mun það svo sannarlega verða gert ef næg þátttaka er fyrir hendi. Það er eitt af markmiðum Siðmenntar að veita fólki þá þjónustu sem félagið býður upp án tillits til búsetu, hvort sem um er að ræða borgaralegar fermingar, giftingar, nafngjafir eða útfarir.
Með borgaralegri fermingu á Akureyri gefst ungmennum á Norðurlandi tækifæri til jafns á við ungmenni af höfuðborgarsvæðinu til þess að fagna ákveðnum tímamótum í lífi sínu. Á undirbúningsnámskeiðinu sem stendur yfir í tvær helgar fá þátttakendur að fást við ýmislegt gagnlegt. Meðal annars er fjallað um gagnrýna hugsun, siðfræði, fjölmenningarfærni, stöðu ungmenna í auglýsinga- og neyslusamfélagi, mannleg samskipti, hamingjuna og tilgang lífsins svo aðeins örfáir þættir séu nefndir.
Það er óhætt að fullyrða að með undirbúningsnámskeiðum sínum fyrir borgaralega fermingu svari Siðmennt þeirri kröfu nútímans um að efla með unga fólkinu gagnrýna hugsun, heiðarleika og siðferðilegt sjálfræði.
Jóhann Björnsson
Stjórnarmaður í Siðmennt