Ræða sem Katrín Lilja Sigurðardóttir („Sprengju-Kata“), efnafræðingur, flutti við borgaralega fermingu sem fór fram í Háskólabíói 24. apríl 2016.
Komið öll heil og sæl og innilega til hamingju með þennan fallega dag og mikilvægan áfanga. Ég vil byrja á að þakka ykkur kærlega fyrir að bjóða mér hingað og segja nokkur orð. Þetta er mér sannur heiður.
Þið fermingarbörn eruð stjörnur dagsins, svo að ég hef ákveðið að fjalla um ykkur, eða réttara sagt, hvernig ég sé ykkur á þessum degi.
Hver eruð þið? Hvaðan komið þið og til hvers eruð þið hér?
Fyrst ætla ég þó að spóla til baka um nokkur ár og rifja upp einn dag þegar ég var svona þriggja ára. Ég man að ég var að leika mér með strumpana mína inni í eldhúsi heima. Í leiknum mínum bjuggu strumparnir í ofninum. Skyndilega þurfti ég nauðsynlega að komast að því hvað gerist ef strumpur væri hitaður í ofni. Jú, það get ég sagt ykkur. Ef maður setur strump á ofngrindina og hækkar svo ofninn í botn þá bráðnar strumpurinn. Hann lekur niður á botn og verður þar að klessu sem er mjög illa lyktandi og erfitt er að þrífa.
Nokkru síðar sátum við, ég og Siggi litli bróðir minn, ein inni í herbergi heima. Ég hef verið svona fjögurra ára og hann ekki nema tveggja. Ég veit ekki alveg hvernig það kom til en þarna vorum við að leika okkur með heftara. Ég man að ég leit á heftarann og svo á litlu puttana á honum og sagði: “Siggi, ætli heftið drífi í gegnum puttann?” Við systkinin veltum þessu fyrir okkur nokkra stund og svo var ákveðið að prófa. Jú, heftið dreif gegnum puttann!
Þetta voru frekar einfaldar tilraunir sem ég gerði á mínum barnsárum. Mörgum árum síðar hóf ég nám í efnafræði við Háskóla Íslands. Þá urðu tilraunirnar sem ég gerði töluvert flóknari og ég skoðaði efnin frá öðru sjónarhorni en þegar ég var fjögurra ára, en þó með sama áhuga og áður.
Í háskólanum lærði ég að efnin allt í kringum okkur eru búin til úr atómum. Aðeins eru til um 91 mismunandi atóm í náttúrunni og þau eru kölluð frumefni. Atómin mynda svo tengi sín á milli á mjög sérstakan hátt til að búa til flóknari efnasambönd. Þessi atóm eru svo agnarlítil að í einni frumu í mannslíkamanum eru um 100 þúsund milljarðar (100.000.000.000.000) atóma. Í frumunni vinna þessi atóm saman á ótrúlega fullkominn máta. Svo eru um 37 þúsund milljarðar (37.000.000.000.000) frumna í einum mannslíkama. Hver einasta fruma, hvert einasta atóm, hefur ákveðið hlutverk í mannslíkamanum eða sinnir ákveðnu verkefni. Vökvar líkamans, bakteríur og ýmislegt annað spila líka stór hlutverk. Vissuð þið til dæmis að þegar þið verðið skotin í einhverjum og fáið svona fiðrildi í magann, þá gerist það vegna ákveðinna efna sem framleiðast í líkamanum og hinn aðilinn skynjar.
Þetta er allt efnafræði.
Það sem mér þykir allra merkilegast er að þessi vel uppraðaða atómheild sem við erum getur lært og tileinkað sér, gengið um og sagt brandara, haft skoðanir og tekið misgáfulegar ákvarðanir, eins og t.d. að hefta í putta. Það er alveg hreint magnað hvernig hægt að raða atómum þannig saman að þær myndi heild sem hefur sína einstöku kímnigáfu, sinn eigin persónuleika, skoðanir og sköpunargáfu.
Enginn eins og allir einstakir!
Ok, ef þið voruð ekki búin að fatta það, þá er ég að reyna að segja ykkur að þið eruð hvert og eitt alveg magnað kraftaverk. Sköpunarverk sem hefur verið í þróun í yfir 2000 milljón ár, en vísindamenn halda því fram að fyrir 2100 milljón árum hafi komið fram svokallaðir heilkjörnungar, það eru lífverur úr frumum sem eru með kjarna. Þessar lífverur voru forfeður ykkar! Hver og einn kroppur hérna inni var í raun alveg 2100 milljón ár að þróast og heilkjörnungar var fyrsta skrefið í þeirri þróun.
Þannig að góð sköpunarverk eru greinilega lengi í þróun. Það sama má segja um sköpunarverk okkar mannanna. Síðan menn gerðu sín fyrstu verkfæri hafa vægast sagt orðið ansi miklar framfarir. Fyrstu verkfærin voru einföld, í raun bara steinar sem voru höggnir þannig til að þá var hægt að nota sem verkfæri. Síðan þá hefur maðurinn lært geysilega margt, þróað með sér ótrúlega mikla tækni og lært að nýta auðlindir Jarðar sér í hag. Þessari þekkingaröflun mætti líkja við snjóbolta sem er rúllað áfram og stækkar jafnt og þétt. Boltinn var bara eitt snjókorn þegar fyrsta verkfærið var smíðað og svo hefur hann stækkað í aldanna rás þegar kynslóðirnar hafa bætt á hann þekkingu. Í dag er snjóboltinn gríðarstór og segja mætti að nútímatækni byggir á öllum snjókornunum sem nú eru í boltanum.
Þá hef ég aðeins skoðað hver þið eruð og hvaðan þið komið en nú komið þið loks til sögunnar. Dagurinn í dag, fyrsti dagurinn ykkar í fullorðinna manna tölu, er betri en nokkur annar dagur til að taka við þekkingarsnjóboltanum mikla. Það felst mikil ábyrgð í að rúlla þessum bolta og það er mikilvægt að rúlla honum í rétta átt. Það skiptir geysimiklu máli að nýta tækniþróun til góðs fyrir okkur og fyrir umhverfi okkar.
Miklu máli skiptir að hvert og eitt ykkar hafi sitt hlutverk en þó að þið séuð öll að vinna sem ein heild og að sama markmiði.
Virkið ykkar persónulega eldmóð og menntið ykkur í því sem vekur mestan áhuga ykkar. Þannig öðlist þið hvert og eitt sitt einstaka hlutverk í þessu samfélagi sem þið eruð nú að taka við.
Gjörið svo vel. Veröldin er ykkar.
Katrín Lilja Sigurðardóttir