Ræða sem Alma Ýr Ingólfsdóttir, mannréttindalögfræðingur, flutti við borgaralega fermingu í Salnum í Kópavogi 10. apríl 2016.
Kæru fermingabörn, fjölskyldur og vinir.
Innilega til hamingju með daginn.
Ég er afskaplega þakklát fyrir að fá að vera hérna með ykkur á þessum merku tímamótum. Ég hélt ég myndi vakna daginn eftir fermingu sem miklu þroskaðri kona, eiginlega bara mjög fullorðin. Það varð ekki raunin, það gerist nefnilega ekki á einum sólarhring. Í sumar fagna ég fagna tuttugu og fjögurra ára fermingarafmæli og fannst þess vegna kjörið að líta yfir fermingarmyndaalbúmið á meðan ég ritaði þessi orð. Satt best að segja lít ég út eins og ég sé amma mín, nema bara með teina, í alltof stórum frakka. Ég passaði mig meðvitað að brosa ekki og ég held það sé til ein mynd af mér brosandi. Einhver hafði nefnilega sagt mér að ef ég myndi brosa þá myndi það eyðileggja myndirnar, ég auðvitað trúði því í einfeldni minni. Ég bið ykkur því, kæru fermingabörn að brosa ykkar blíðasta í dag og alla aðra daga.
Á þessum tíma þótti ég ekkert sérstaklega töff. Ég var há og ofboðslega grönn og stundaði íþróttir og námið af kappi, það þótti frekar hallærislegt og þykir mér það enn í dag frekar óskiljanlegt. Hvað var eða er svona hallærislegt við það? Blessunarlega tókst mér þó að standa með sjálfri mér og hef eftir mesta megni reynt að láta drauma mína rætast, sumir hafa ræst og aðrir ekki, en ég er ekki hætt. Eru orð mín því til ykkar, ekki láta neitt stoppa ykkur í því að ná markmiðum ykkar.
Þegar ég horfir yfir glæsilegan hóp eins og ykkar, komandi kynslóð, þá spyr ég mig hvaða ráðleggingar eða viskuorð get ég gefið ykkur? Ég gæti vissulega þulið upp alls konar heilræði eða fullorðinsleg “gáfuorð”, en hver gætu þau verið? Virðing og jafnrétti er mér hugleikið, þá á ég ekki einungis við jafnrétti milli kynjanna, heldur í sinni víðtækustu mynd. Við fæðumst öll jöfn, einstök en um leið misjöfn, með mismunandi hlutverk og við mismunandi aðstæður. Þess vegna eru samfélög mismunandi, með mismunandi menningu, trúarbrögð, þjóðerni, einstaklingar með mismunandi litarhaft, kynhneigð, kynvitund, einstaklingar með fötlun og svo lengi mætti telja. Það gerir samt ekki eitt samfélag merkilegra en annað. Það veitir okkur ekki þann rétt að gera lítið úr öðrum.
Fyrir mér er fjölbreytileikinn svo fallegur, ég held að hann geri okkur að betri einstaklingum þar sem við þurfum að geta sett okkur í spor annarra og virt aðra eins og þeir eru. En af hverju erum við svo föst í því að skilgreina okkur sem venjuleg og aðra sem ekki falla undir “normið” öðruvísi og stundum afbrigðileg? Við á Íslandi tilheyrum vissulega forréttindahópi. Hér ríkir ekki stríðsástand, við þurfum ekki að flýja heimili okkar eða hræðast það að missa fjölskyldumeðlimi vegna árása. Við þurfum heldur ekki að hafa áhyggjur af því að fá ekki hreint vatn eða verða limlest. Vissulega eru aðstæður á Íslandi þannig að sumir búa við verri aðstæður en aðrir, en ég held að við séum samt svo fljót að gleyma því hvað við höfum það í heildina gott. Við erum frekar á þeim stað að hafa áhyggjur af því að einhver eigi flottari síma eða sjónvarp en við sjálf.
Ég er á því að upplifanir, reynsla og mótlæti sé jafn mikilvægur skóli og menntun sem við fáum eða kjósum okkur. Af því að ég fór að tala um fjölbreytileikann, þá langar mig að halda áfram að tala um eigin upplifanir og reynslu. Eins og ég sagði áðan þá þótti ég ekki “töff” unglingur, a.m.k. ekki í grunnskóla. Ég fann mig mjög vel í menntaskóla og kynntist fólki eins “mér”, naut mín til hins ítrasta og get ég fullyrt að þetta var einn besti tími lífs míns. Á þessum tíma var ég ekki mikið að spá í hvernig fólk í minnihlutahópum hefði það, ég var allt of upptekin við að verða skotin, fara í sleik og njóta. Það situr mjög í mér atvik þar sem ég var stödd í íþróttatíma og kennarinn lét okkur lesa grein um mann sem hafði misst báðar fætur vegna steranotkunar. Ég hugsaði með mér að frekar myndi ég vilja deyja en að missa báðar fætur, líf þessa manns hlyti að vera ömurlegt, aumingja hann, fannst þetta nánast ógeðslegt ég var svo sjokkeruð. Hálfu ári seinna vakna ég á gjörgæslu við það að yfirlæknir deildarinnar er að segja mér að til þess að bjarga lífi mínu yrði að taka af mér báðar fætur fyrir neðan hné. Í morfín vímu gaf ég honum þumalinn – “let´s do it”. Tveimur vikum seinna var ég aftur vakin og mér tjáð að núna væri búið að fjarlægja báðar fætur og framundan væri ströng endurhæfing. Eina sem kom upp í hugann minn var að nú hefði karma bitið mig illilega í rassinn vegna hugsana minna í garð mannsins sem ofnotaði stera. Hvernig á ég að geta lifað eðlilegu lífi? Hvað eru gervifætur og hvernig í ósköpunum virka þeir? Er þetta hægt? Hvað á fólki eftir að finnast um þetta? Mun ég ganga út? Þetta voru fyrstu vangaveltur mínar. Ég hitti svo mann sem var alveg eins og ég, að vísu eldri en pabbi, en hann var samt eins og ég og voru hans ráð þau ráð sem ég hef enn að leiðarljósi, að gefast ekki upp.
Mig langaði heldur ekkert að gefast upp, mig langaði að klára námið mitt, vera með vinum og fjölskyldu, leika mér, njóta og lifa. Upp frá þessu hef ég gert allt til þess að gera það. Einu hindranirnar sem ég hef upplifað eru fordómar sem finnast í samfélaginu. Ég tilheyri nefnilega ekki því sem við skilgreinum sem norm. Ég þyki nefnilega ekki venjuleg. En hvað er að vera venjulegur? Þá þyki ég heldur ekki eðlileg. Ég veit heldur ekki hvað það er að vera eðlilegur.
Við, samfélagið okkar og samfélög um allan heim erum nefnilega búin að ákveða hvað það er að vera venjulegur og eðlilegur, fallegur og aðlaðandi, og fólk eins og ég fellur ekki þar undir. Ég er samt ekki sammála því og vil breyta því viðhorfi. Lengi vel klæddist ég einungis langerma rúllukragabolum af því að ég var svo viss um að fólki finndist ör sem ég er með svo hræðileg. Ég var alltaf að fela mig. Svo einn daginn fékk ég nóg af því, af hverju átti ég að fela mig af því að samfélagið var búið að móta einhverjar staðalmyndir um það hvað væri fallegt og hvað væri það ekki. Staðalmyndir eru nefnilega svo forneskjulegar og byggja á úreldum hugmyndum. Mér finnast þær jafn fáránlegar og hrukkukrem sem eiga að eyða hrukkum á sjö dögum eða að með því að taka inn 1 teskeið af kókosolíu á dag grennist maður svo um muni. Staðalmyndir byggja líka á því að það sé bara til ein tegund af fegurð og ef þú fallir ekki þar undir það þá eigir þú lítið erindi í þetta líf. Nýjasta bólan er svo “bjútí-fílter”, ef þú notar hann ekki á prófíl myndina þína á facebook þá þykir þú ekki eins sætur og færð þar af leiðandi færri “læk”. Samkvæmt þessu ætti ég þá bara að fela mig í einhverjum helli.
En hver var tilgangurinn með þessari reynslusögu minni? Ekki gefast upp. Ekki láta mótlæti og asnalegar staðalmyndir koma í veg fyrir að þú sért þú, gerðu allt til þess að láta markmið og drauma þína rætast. Jafnframt var tilgangurinn sá að fá okkur öll til þess að virða aðra eins og þeir eru, hvernig sem þeir eru, sama hvaða skoðanir þeir hafa, eða hvaðan þeir koma. Umburðarlyndi og virðing gerir okkur einungis að betri manneskjum heldur bætir það samfélagið okkar, viðhorfið okkar verður nefnilega allt annað. Fögnum fjölbreytileikanum af virðingu.
Enn og aftur, til hamingju kæru fermingabörn. Ég óska ykkur alls hins besta og vona að þið eigið dásamlegan dag.
Kærar þakkir fyrir mig.
Alma Ýr Ingólfsdóttir, mannréttindalögfræðingur
Sá einnig: