Sunnudaginn 21. apríl síðastliðinn voru haldnar tvær borgaralegar fermingarathafnir í Salnum í Kópavogi. Vilborg Arna Gissurardóttir, pólfari, hélt þar þessa stórskemmtilegu hvatningarræðu í tilefni dagsins.
Kæru fermingarbörn,
Mig langar til þess að byrja á að óska ykkur og aðstandendum ykkar innilega til hamingju með daginn. Það er mér mikill heiður að fá að deila þessari stóru stund með ykkur.
Í dag standið þið á tímamótum og tímamótum fylgja tækifæri. Heimurinn er þarna úti bæði harðneskjulegur og fallegur í senn og við erum öll þátttakendur í honum. Alla daga fáum við fréttir af stríðshrjáðum heimi og enginn er ósnortinn af þeim mannlega harmleik sem átti sér stað í Boston á síðustu dögum. Sterkasta vopnið okkar í þessari baráttu er kærleikur, samkennd og virðing.
Kærleikurinn er eitt það dýrmætasta sem við eigum. Hann kostar ekkert en samt sem áður er virði hans meira en allt heimsins gull og gersemar. Við getum aldrei metið hann til fjár og engar veraldlegar eiginir geta komið í hans stað. Hann er ómælanlegur, án takmarkana og það er enginn tollur á því hversu mikinn kærleik og vináttu við getum gefið af okkur.
Kærleikurinn sameinar okkur og er hafinn yfir fordóma, hroka og eigingirni. Hann er sprottinn frá hjartanu og er jafnframt hreinasta og tærasta birtingarmynd okkar sem einstaklinga.
Kærleikurinn sameinar okkur þjóð og gerir hvert og eitt okkar sterkari sem einstaklinga. Hann er svo kraftmikill að hann getur lýst upp myrkvað hjarta og stutt við veika sál. Líf án kærleiks er líf í myrkri –bæði ófullnægjandi og dapurt.
Ef við lifum í kærleik að þá fylgjum við leið hjartans. Hjartað er líkt og áttaviti. Það leiðir okkur í rétta átt og fær okkur til þess að breyta rétt. Leið kærleikans færir okkur að lífshamingjunni og við erum fær um að smita gleðinni út frá okkur og að aðstoða þá sem minna mega sín. Birtingarmynd kærleikans getur verið faðmlag, falleg orð eða hjálparhönd.
Við þurfum ekki öll að vera mótuð í sama mótið, við eigum að bera virðingu fyrir náunganum, skoðunum hans og lífssýn.
Við þurfum líka að vera fær um að taka á móti kærleik og það gerum við með opnu hjarta. Kærleikurinn á að flæða milli okkar án skilyrða og án landamæra.
Stundum þurfum við að sýna kjark og hugrekki á sama tíma og kærleika. Við megum ekki loka augunum fyrir því sem miður fer í kringum okkur heldur leggja okkar af mörkum til þess að útrýma einelti, ofbeldi og myrkvuðum heimi. Við gætum þurft að synda á móti straumnum til þess en á endanum verðum við sterkari einstaklingar og heild.
Við getum öll lagt okkar að mörkum til þess að gera heiminn að betri stað í nafni kærleikans, samkenndar og virðingar. OG ÞITT framlag skiptir máli.
Nú þar sem þið standið á þessum tímamótum hér í dag eruð þið eflaust farin að velta því fyrir ykkur hvað framtíðin ber í skauti sér – hvað ÞIÐ ætlið að verða. Mig langar til þess að hvetja ykkur til þess að leyfa ykkur að dagdreyma, því það er bæði hollt og gott. Dagdraumar eru einnig undirrót þess að við setjum okkur markmið. Þegar við ferðumst inn í dagdraumana okkar erum við að ferðast inn í aðstæður og á staði sem okkur langar raunverulega að vera á. Í dagdraumunum okkar erum við leynt og ljóst að ná einhverjum markmiðum – og við töpum aldrei i okkar eigin draumi, er það nokkuð? Nei, Við stöndum nefnilega alltaf uppi sem sigurvegarinn og ég vil að þið sjáið ykkur sem sigurvegara í eigin lífi.
Ef að okkur getur dreymt um hlutina að þá getum við framkvæmt þá líka ! Við fyrstu sýn gætu markmiðin og draumarnir ef til vill virðst vera óyfirstíganlegir sökum stærðar þeirra. En stór markmið þarf bara að brjóta niður í mörg lítil og viðráðanleg markmið. Þannig erum við með sýnilegar vörður á leiðinni og við eigum að fanga þegar við náum þessum litlu markmiðum. Því það er þannig að ef maður fagnar nógu mörgum smásigrum að þá fagnar maður á endanum STÓRA sigrinum.
Við sem einstaklingar og þátttakendur í þjóðfélaginu erum ábyrg orða og gerða okkar og mig langar til að hvetja ykkur til þess að íhuga hver ykkar gildi í lífinu eru. Flest okkar eigum okkur einhver gildi s.s. að vera heiðarleg, dugleg og svo framvegis. Að vinna með gildi hefur reynst mér persónuleg gríðarlega vel. Þau eru mitt leiðarljós og þegar eitthvað bjátar á eða mér líður illa á einhvern hátt að þá hugsa ég um gildin mín, afhverju ég valdi þau og hvað þau þýða fyrir mig og undantekningalaust tekst mér að tala sjálfa mig inn á betri stað. Þegar maður velur eða íhugar gildin sín að þá þarf maður að horfast í augu við sjálfan sig eins og maður er og vinna með það sem maður hefur. Maður þarf að skoða styrkleikana sína jafnt sem veikleikana. Veikleikar okkar gera okkur ekki að minni manneskjum heldur þvert á móti eflumst við sem einstaklingar um leið og við þekkjum þá og lærum að vinna með þá.
Jákvæðni er góður mannkostur og hún kemur manni langt í þeim verkefnum sem að við tökum okkur fyrir hendur. Þegar að við lendum í aðstæðum sem eru erfiðar eða ómöguleg að þá langar mig til þess að skora á ykkur að finna ALLTAF að minnsta kosti einn jákvæðan hlut í hvert skipti. Stundum lendum við í því að við þurfum að takast á við óvæntar áskoranir í þeim verkefnum sem við erum að vinna og þá skiptir miklu máli að þrauka í aðstæðunum þangað til við höfum náð að leysa úr þeim. Því að til lengri tíma að þá græðum við á því, við verðum sterkari einstaklingar, við söfnum reynslu í reynslubankann og við verðum hæfari til þess að takast á við næstu áskoranir í lífinu.
Stundum þurfum við líka að sýna hugrekki, við þurfum að sýna hugrekki til þess að takast á við erfiðar aðstæður, til þess að taka afstöðum með ýmsum málefnum og til þess að fylgja leið hjartans. Við erum öll einstaklingar með sama tilverurétt alveg sama hverjar skoðanir okkar eru, litarhaft, trúarbrögð og kynhneigð. Stundum þurfum við líka að sýna hugrekki til þess að brjótast úr viðjum vanans og fylgja draumunum okkar eftir. Þið eigið eftir að mæta hindrunum á leiðinni en það skiptir ekki máli hvað maður er sleginn oft niður – það skiptir máli hvað maður stendur oft upp aftur. Og ef maður þráir eitthvað nógu heitt að þá finnur maður leiðina – annars finnur maður bara afsökunina.
Og að lokum langar mig bara að impra á því:
Að ef þið eigið ykkur draum. Ef að ykkur langar til þess að setja ykkur markmið eða eruð hugsanlega nú þegar búin að því. Að þá er alltaf, og þá meina ég alltaf þess virði að fylgja þeim eftir, alveg sama hvað eitthvað norm í samfélaginu segir. Því það er þetta hérna, sem er hérna fyrir innan – hjartað sem er okkar lang besti áttaviti í lífinu – og það er þessi áttaviti sem við eigum að fylgja.
Að lokum óska ég ykkur velfarnaðar og aftur til hamingju með daginn.
Takk fyrir mig.