Í dag 14. apríl fóru tvær borgaralegar fermingarathafnir á vegum Siðmenntar fram í Háskólabíó. Þórdís Elva Þorvaldsdóttir rithöfundur flutti ávarp til unga fólksins sem var að fermast og þótti takast afar vel upp. Ræðuna fengum við leyfi til að birta hér svo fleiri geti notið.
Að læra japönsku á einni helgi: Ávarp á borgaralegri fermingu 2013
Sæl
Til hamingju með þennan magnaða dag.
Mér finnst mikill heiður mega koma og verja hluta úr honum með ykkur, þar sem þið eruð að stíga þetta mikilvæga skref í ykkar þroskaferli.
En þegar ég var beðin um að halda þetta ávarp fór hugurinn á flug. Hvað langaði mig eiginlega að segja við ykkur? Vá, það er svo margt sem mig langaði að segja við ykkur. Mig langaði til dæmis að segja ykkur að tískutímarit séu verstu mælikvarðar í heimi á fegurð, að þið séuð öll nokkurnveginn fullkomin frá náttúrunnar hendi, að enginn pælir jafn mikið í ykkur og þið sjálf. Mig langaði að segja ykkur að lífið sé of stutt til að vera í óþægilegum skóm. Mig langaði að segja ykkur að þótt ástarsorg venjist aldrei verður hún bærilegri þegar maður fattar að það eru fleiri fiskar í sjónum. Það er kjaftæði að það sem drepur mann ekki styrki mann, það eru til fullt af hlutum sem geta dregið úr manni kjarkinn ef maður vinnur ekki úr þeim. Það er allt í lagi að vita ekki hvað maður vill verða þegar maður er orðinn stór jafnvel löngu eftir að maður er orðinn það, það er aldrei réttlætanlegt að beita aðra manneskju ofbeldi og nei – alveg sama hvað auglýsingarnar eru fansí: Hrukkukrem virka ekki.
En þar sem ég fæ bara níu mínútur ákvað ég að minnka listann niður úr svona 608 umræðuefnum niður í þrjú. Þannig að ég ætla bara að tala um jafnrétti, fyrirgefningu og hvernig maður breytir heiminum við ykkur. Á þessum sjö mínútum sem ég á eftir. Þetta verður svolítið eins og að reyna að kenna einhverjum japönsku á einni helgi, svo haldiði ykkur fast.
En þannig er mál með vexti að við erum öll sköpuð jöfn af móður nátturu. Hún gaf okkur öllum hlutverk, tilgang og stað í keðju lífsins. Og gerði okkur öll svona undursamlega einstök. Þú veist, það er enginn alveg eins og þú. Það er enginn með nákvæmlega sama göngulag og alveg eins fæðingabletti. Það er enginn með sömu fingraför og þú, sem er alveg ótrúlegt út af fyrir sig. En allavega, móðir náttúra er nýjungagjörn. Hún ákvað að það væri hundleiðinlegt að hafa okkur öll eins, þannig að hún gerði okkur brún og og svört og rauð og gulleit og bleik og freknótt. Og svo ákvað hún að litir væru ofmetnir og gerði albínóa. Hún gerði karla og konur og bringuhár og brjóstaskorur og stundum datt púki í hana og þá gerði hún inngrónar táneglur. Stundum var hún mjög innblásin og hrúgaði upp heilu Mount Everest fjöllunum en svo var hún mjög andlaus eftir það og þá kom bara Sahara eyðimörkin. Og svo hefur hún líka húmor. Sjáiði bara bavíana. Þeir eru með hár allsstaðar NEMA á rassinum. Það er eiginlega bara ósanngjarnt.
Til þess að við gætum upplifað þennan margslungna og ófullkomna og sprenghlægilega og stundum sorglega heim sem við búum saman í, gaf móðir náttúra okkur öllum skynfæri og heila og hjarta. En einhverra hluta vegna ákváðum við mannfólkið að byrja að mismuna okkur innbyrðis. Og þessvegna viðgengst ennþá misrétti í dag. Þessvegna er núna, árið 2013, konur enn að fá minna borgað fyrir vinnuna sína en karlar á Íslandi og um allan heim. Og þessvegna er ennþá verið að hneppa fólk í fangelsi um allan heim af því það kallar guðinn sinn ákveðnu nafni. Eða af því það trúir ekki á Guð. Og þessvegna er ennþá verið að ofsækja fólk því það elskar einhvern af sama kyni eða af því það er öðruvísi á einhvern hátt.
Ég var í Suður-Afríku fyrr í þessum mánuði, sem er eitt fallegasta land á jarðríki. Móðir náttúra var sko í stuði í Suður Afríku. Þar fór ég um borð í ferju og sigldi 40 mínútur út í litla eyju, sem heitir Robben Island. Hún er umkringd úfnum sjó, fullum af hákörlum og sterkum sjávarstraumum. Það er ekki hægt að synda burt úr Robben Island og þessvegna var ákveðið að byggja fangelsi þar. Í Suður-Afríku var aðskilnaðarstefna í næstum hálfa öld, þar sem hvítu fólki voru tryggð völd og réttindi á kostnað svartra, sem var skipulega haldið niðri. Þeir einstaklingar sem voru nógu hugrakkir til að berjast gegn misréttinu voru sendir til Robben Island. Þar á meðal leiðsögumaðurinn sem sýndi mér gamla fangelsið þennan dag. Hann sýndi mér þunnu motturnar á steingólfinu sem þeir voru látnir sofa á. Hann sýndi mér námurnar þar sem hann og fleiri fangar misstu sjónina út af slæmum vinnuskilyrðum. Og hann sýndi mér klefann þar sem leiðtoginn þeirra, Nelson Mandela, eyddi stórum hluta þeirra 27 ára sem hann afplánaði fyrir það eitt að trúa því að hvítir og svartir ættu skilið sömu tækifæri. Það var erfitt að verjast tárum þegar maður stóð úti á litlu lóðinni innan hárra, steingrárra fangelsisveggja, horfði á gaddavírinn efst og hugsaði um hvað fólk var látið þjást fyrir skoðanir sínar. Í lok ferðarinnar tók ég í hendina á leiðsögumanninum sem hafði verið rændur sjö árum ævi sinnar í Robben Island. Hann var með þétt, hlýtt handtak og ég horfði í augun á honum og spurði: „Er hægt að fyrirgefa það sem þér var gert?“ Hann horfði á mig eins og ég hefði spurt hann alveg fáránlegrar spurningar, og svo hló hann innilegum, hjartanlegum hlátri sem kom innst úr kjarna hans og skall á mér eins og foss. Og svo sagði hann: „Auðvitað. Við erum búin að fyrirgefa þetta alltsaman. Það er eina leiðin fram á við.“
Nelson Mandela sagði að ef maður fyrirgæfi ekki þeim sem brjóta gegn manni þá væri maður í raun og veru að drekka eitur og vonast til að það dræpi óvini manns. En auðvitað er það ekki þannig, ef maður drekkur eitur þá eitrar maður bara fyrir sjálfum sér. Og það er svolítið þannig með fyrirgefninguna, að ef einhver brýtur gegn manni og maður kýs að dvelja í fýlunni og reiðinni og særindunum, þá auðvitað eitrar það mann sjálfan og endar kannski á því að særa mann sjálfan meir og dýpra en þann sem maður er reiður við. Ég hef aldrei séð þessa speki jafn skýrt eins og þarna í Robben Island, með hendi fyrrverandi fangans í minni og sá hann geisla af krafti og lífsgleði yfir því að allt væri fyrirgefið því það væri leiðin áfram. Hann lét fortíðina ekki eitra lífið sitt í dag, þótt auðvitað hefði hann engu gleymt.
Nelson Mandela breytti heiminum. Stundum þarf bara einn einstakling til þess. 1980, árið sem ég fæddist, var einstæð móðir á Íslandi sem ákvað að kona gæti orðið forseti. Hún breytti heiminum. Og það getið þið líka gert. Það getum við öll gert. En af einhverjum ástæðum erum við gjörn á að hugsa sem svo að við séum bara lítið peð í stórum heimi. Til hvers á ég að flokka ruslið mitt þegar það eru milljónir manna sem gera það ekki? Til hvers á ég að endurvinna pappír? Ef Kínverjar myndu allir byrja að nota klósettpappír myndu regnskógarnir hvort sem er þurrkast út á einu ári, skilurðu.
En það að hver og einn skipti ekki máli eru útbreiddustu ósannindi i heimi. Við höfum öll áhrif. Það eina sem við þurfum að gera er að þora því. Við þurfum bara að ákveða það. Og ég ætla að halda því blákalt fram að þið, kæru fermingarbörn, getið allt. Og nú veit ég að það eru einhverjir sem ranghvolfa augunum núna og bara uh nei, ég gæti ekki bara þú veist haldið á fimmhundruð kílóum í annarri hendi og unnið Júróvisjón. Og við þann einstakling myndi ég segja jú jú ef þú hengir 500 kg lóð neðan í loftbelg gætirðu örugglega haldið á þeim með annarri hendi og þegar þú varst sjö ára fór hópur af miðaldra, finnskum körlum í skrímslabúning, öskruðu í míkrafón og unnu júróvisjón. En ef við höldum okkur við breytingar á heiminum sem betrumbæta hann á einhvern hátt, þá þarf oft bara einn hugsuð, einn einstakling til að þora, til að vilja standa upp og benda á það sem má betur fara. Þið getið öll verið sá einstaklingur. Maður þarf bara að byrja á sér sjálfum. Maður þarf að trúa því að maður standi jafnfætis hverjum sem er, að karlar, konur, svartir, hvítir, trúaðir, trúlausir – að öll eigum við skilið sömu réttindi og tækifæri. Og á þessu ferðalagi sem lífið er þarf maður á fyrirgefningu að halda, bæði þegar aðrir brjóta gegn manni og þegar maður klúðrar málunum sjálfur, því það er leiðin fram á við. Og þetta getur þú. Þetta getið þið. Þið eruð öll fullkomin af hendi móður nátturu. Þið eruð öll falleg, alveg sama hvað tískutímaritin segja ykkur eða talan á vigtinni. Þið hafið öll rödd, þið eruð öll einstök og þið getið öll breytt heiminum.
Það er ekki eftir neinu að bíða.
Takk.