Ræða sem Kári Gautason flutti við borgaralega fermingu sem fór fram á Egilsstöðum 22. júní 2013.
Komiði öll sæl og blessuð, fermingarbörn, foreldrar og gestir
Ég var beðin fyrir nokkru síðan að flytja nokkurs konar predikun við þessa Borgaralegu fermingu.
Nokkurn vegin um leið og ég lagði síman á eftir að ræða þetta við hana móður mína þá rann upp fyrir mér eftirfarandi spurning. Hvað í ósköpunum á ég að tala um?
Það er ekki beinlýnis eins og ég hafi nokkru sinni gert eitthvað merkilegt í mínu lífi. Hefur svosem gengið ágætlega hingað til, en ég kann engar sannar sögur af mér sem ókunnugt fólk hefði gaman af því að hlusta á ótilneytt.
Leiðbeiningarnar voru eitthvað á þessa leið: „ræðan má ekki vera leiðinleg, hún má ekki fjalla um trúarbrögð, politík eða nokkuð annað sem orkað getur tvímælis. Ræðan á einnig að vera gildishlaðin þannig að ungmennin gangi út með kjark í brjósti, tilbúin í unglingsárin og allt hugarangrið sem þeim fylgir.“
Þetta þótti mér óframkvæmanlegar leiðbeiningar. Hvernig átti ég að geta flutt innihaldsríka ræðu, sem jafnframt væri ekki leiðinleg og innihéldi ekkert sem var eldfimt?
Svo leið og beið og stressið yfir því að vita ekkert hvað ég ætti að tala um jókst. Kannski skipti það engu máli hvort eð var hugsaði ég með mér. Það er ekki eins og ég muni stakt orð úr þeirri predikun sem flutt var þegar ég fermdist fyrir tíu árum síðan. Ég man að Fúsi prestur var með nokkuð flott skegg að venju og í hvítri hempu, eins og prestar eru reyndar yfirleitt.
Eina sem ég man almennilega er að mér fannst hálf asnalegt að fermingarsystir mín var svona hálfum metri hærri en ég í loftinu.
Svo hugsaði ég með mér, hverslags ræðu hefði ég viljað heyra fyrir tíu árum síðan?
Það er nefnilega eitt og annað sem ég hef lært á þeim áratug síðan ég fermdist. Margt af því hefði verið gagnlegt að vita fyrirfram.
Þessi ræðustúfur fjallar því um þá hluti sem ég, tuttuguogfjögurra ára gamall hefði viljað getað sagt við fjórtán ára gamla mig.
Fyrst hefði ég sagt honum að hafa ekki áhyggjur af því að vera svona lítill og grannur, það er nefnilega öllum sama um það þegar á hólminn er komið. Það er innvolsið sem skiptir máli og hvernig maður kemur fram við annað fólk sem er lykillinn. Ekki það hvort maður sé í réttum stærðarflokki eftir aldri og með rétta lögun.
Svo hefði ég talað við þennan unga mig um það mikilvægasta sem ég hef lært.
Það er hið gamla spakmæli, „þú uppskerð eins og þú sáir“
Ég hafði svo sem oft heyrt það áður, en það er grundvallarmunur á því að heyra og skilja.
Það var mér uppgötvun að átta mig á því niðrí dýpstu sálarrætur að það væri ég sjálfur sem bæri fullkomna, ótakmarka ábyrgð á mínu eigin lífi.
Það myndi engin græja hlutina fyrir mig.
Það sem ég fengi útúr þeim hlutum sem ég tæki mér fyrir hendur væru í samhengi við þá vinnu sem ég leggði til.
Þegar maður hefur sætt sig við að það er maður sjálfur sem ber ábyrgðina þá hættir maður að tala um ósanngjarnar spurningar á prófum, hversu leiðinlegt einhver verk eru og svo framvegis.
Einhvernvegin verður heimurinn sanngjarnari. Maður veit upp á sig skömmina þegar það á við og sleppir því að kenna öðrum um.
Þessi hugsun á við í daglegu amstri, í námi og samskiptum við fólk.
Meira að segja við skepnur. Heima í fjósinu er kýr sem heitir Skjóða. Hún er þeim eiginleika gædd að framleiða alveg verulega feita og próteinríka mjólk. Það mætti líkja mjólkinni úr Skjóðu við rjóma.
En hún er einnig nokkuð stirð í skapi. Sérstaklega þó við mig persónulega. Alltaf þegar ég hefst handa við að þrífa á henni spenanna við mjaltir verður hún ókyrr og reynir jafnvel að sparka í mig.
Ég gæti bölvað skepnunni í hvert einasta skipti sem ég mjólka hana, afhverju er hún alltaf svona óþæg? Það ætti að senda hana í sláturhúsið næst.
Hinsvegar þá er þessi hegðun Skjóðu líka mér sjálfum að kenna. Því þegar hún var kvíga þá missti ég stjórn á skapinu við það að reyna að mjólka hana.
Það kom niður á sambandi okkar Skjóðu. Kýr nefnilega fyrirgefa seint og illa. Ólíkt mannfólkinu.
Þó að samskipti við skepnur séu eitt og samskipti við fólk annað þá virðist þessi grundvallarregla halda: það sem þú lætur frá þér er það sem þú færð til baka.
Því vil ég ráðleggja ykkur að koma fram við annað fólk eins og þið viljið að komið sé fram við ykkur.
Ef þið gerið öðru fólki greiða og sýnið því virðingu, þá kemur það alltaf til baka.
Í löngu viðtali við Sir Alex Ferguson, þar sem þessi goðsagnakenndi knattspyrnustjóri talaði um reynslu sína að vinna með knattspyrnumönnum, lét hann falla eftirfarandi orð: „fyrir leikmenn – og fyrir allar mannverur – þá er ekkert betra en að heyra orðin: vel gert“.
Þetta er hárrétt hjá gamla manninum. Það er fátt betra en að fá hrós þegar maður gerir vel og það er fátt betra en að veita hrós þegar það á við.
Að lokum þá vil ég segja við ykkur að þið getið hlakkað til næstu tíu ára. Þið munuð klára grunnskólann og eftir það þurfið þið að velja sjálf. Ég vil eindregið hvetja ykkur til þess að mennta ykkur í því sem þið hafið áhuga á. En þó það hjálpi mikið til við námið að hafa brennandi áhuga þá snýst góð menntun líka um að tileinka sér ákveðin þankagang. Læra hvernig á að læra. Læra að hugsa gagnrýnið um hluti. Spyrja réttu spurninganna.
Ég hef lokið framhaldsskóla og er að verða búin með fyrsta stig æðri menntunar en mér finnst ég alltaf kunna minna og minna. Það er jákvætt því að manni er hollt að hafa það í huga að maður veit ekki alltaf best.
Hvort sem þið farið í verknám eða bóknám þá skuluð þið leggja ykkur fram við að gera ykkar besta. Þá sjáið þið árangur. Sumir leggjast í ferðalög. Betri menntun er vandfundin.
Sjálfur var ég skiptinemi í Nýja Sjálandi eftir mitt fyrsta ár í menntaskóla. Þar lærði ég margt sem hefur gagnast mér bæði í námi og í lífinu sjálfu.
Njótið dagsins, hann er ykkar. Til ykkar sem eru að fermast borgaralegri fermingu flyt ég einlægar hamingjuóskir með áfangann. Þið eruð nú að hefjast handa við að slíta barnsskónum. Ekki flýta ykkur um of að verða fullorðin, nægur er tíminn.
Takk fyrir mig.
Kári Gautason