Eftirfarandi ræðu flutti Sigríður Víðis Jónsdóttir í fermingarathöfn Siðmenntar þann 15. apríl 2012 í Háskólabíói.
Kæru fermingarbörn,
Hjartanlega til hamingju með daginn.
Og kæru aðstandendur, innilegar hamingjuóskir til ykkar sömuleiðis.
Dagurinn í dag er stór dagur. Þetta er dagur sem þið munið öll hér inni muna um ókomna tíð. Ákveðnum áfanga hefur verið náð. Og á morgun verður allt aðeins öðruvísi en í gær.
Þið sem fermist hér í dag eruð enn börn samkvæmt lögum – en þið eruð samt orðin hálffullorðin og ábyrgð ykkar verður alltaf meiri eftir því sem árin líða.
Framundan hjá ykkur eru ár sem geta verið ótrúlega skemmtileg – en líka erfið. Það getur verið flókið að vera unglingur og það eru gerðar mjög miklar kröfur til unglinga – ég er ekki að meina sjálfsagðar kröfur um að þeir læri heima eða taki til eftir sig – heldur kröfur til dæmis um útlit og ákveðna hegðun í hóp.
Munið því að hugsa um hvað ykkur langar – ekki hvað aðrir vilja fyrir ykkur. Þið hafið rétt til að vera eins og þið viljið – að svo miklu leyti sem þið gangið ekki á rétt annarra. Munið síðan að það er ekki hægt að ætla sér að vera alltaf í nýjustu tísku, eiga alltaf nýjasta símann, nýjustu tölvuleikina, nýjustu fartölvuna, nýjustu græjurnar og líta út eins og súpermódel. Fyrir utan að það er alveg áreiðanlega ekki ávísun á hamingjuna!
Ef maður heldur að bíómyndir, auglýsingar og fótósjoppuð tískublöð sýni raunveruleikann þá er maður lafmóður alla ævi að keppast við að hlaupa á eftir einhverju sem ekki er til og ekki er hægt að ná. Ég ráðlegg ykkur því að nota ekki þann dýrmæta tíma sem þið hafið í slíkt.
Framundan eru mikilvæg mótunarár hjá ykkur og þau eru byrjuð nú þegar. Það mikilvægasta sem þið munuð gera næstu ár er ekki endilega að verða ofboðslega góð í einhverju einu fagi eða sérhæfa ykkur – þið eigið raunar miklu almennara og stærra verkefni fyrir höndum: Að þroska persónuleika ykkar. Að læra að standa á eigin fótum, læra að þekkja mun á réttu og röngu, þora að standa með sjálfum ykkur, finna hvað veitir ykkur lífshamingju, æfa ykkur í að hugsa gagnrýnið – og að hugsa um aðra.
Við erum nefnilega ekki ein í þessum heimi. Við tilheyrum samfélagi og við erum mikilvæg hvert öðru. Utan þessa bíósalar eru sjö milljarðar fólks sem býr með okkur á þessari jörð. Og við erum öll jafn rétthá. Óháð því hver húðlitur okkar er, hvaða tungumál við tölum og hvar við fæðumst. Aðstæður okkar eru ólíkar en við eigum það öll sameiginlegt að vera manneskjur.
Heimurinn sem við búum í er heimurinn okkar allra – og það er sameiginlegt verkefni okkar að hugsa vel um hann og passa hvert upp á annað.
Af því að Ísland er eyja og af því að fréttirnar sem við heyrum eru langflestar bara um Ísland og Íslendinga þá getur stundum verið auðvelt að gleyma að það sé eitthvað annað til en þetta land sem við búum á. Veröldin fer öll bara að hringsnúast um Ísland – þrátt fyrir að hér búi bara 0,005% mannkyns. Þegar við það bætist að fréttirnar sem við heyrum úr íslensku samfélagi eru oft mjög neikvæðar og fullar af kvarti og kveini, þá mætti stundum halda að allt á Íslandi sé hræðilegt og staðan sé bókstaflega verst í heimi hér.
En svo er ekki.
Það eru yfir 190 önnur ríki í heiminum og þrátt fyrir allt sem á undan er gengið eru lífskjörin á Íslandi betri en í langflestum þeirra.
Fjórir fimmtu hlutar mannkyns búa líka í þróunarlöndum. Í kvöld mun einn milljarður manna fara svangur að sofa. Á þessari stundu eru milljónir fólks á flótta – helmingurinn börn.
Ég segi þetta ekki bara til að draga niður stemninguna hérna heldur til að minna ykkur á samhengið. Það er risavaxinn heimur þarna úti sem þið tengist og kemur ykkur við. Örlög þeirra sem hann byggja eru ekki bara örlög einhverra – þetta eru örlög fólks sem er með okkur á þessari jörð og horfir í dag til sömu sólar og við og sofnar undir sama tungli.
Það sem þið gerið hefur áhrif. Þið getið lagt ykkar af mörkum til að gera veröldina að betri stað. Það verkefni er ekki bara verkefni einhverra annarra, það er alveg jafnmikið verkefni ykkar. Ef við hjálpumst öll að þá verður veröldin betri. Ef við hugsum heldur um það sem sameinar okkur en það sem sundrar þá er strax ótrúlega stórum áfanga náð.
Ég skora á ykkur að fara seinna út fyrir landsteinana og skoða heiminn, kynnast aðstæðum annarra – kynnast ykkur sjálfum örlítið betur um leið. Ég hvet ykkur líka til að reyna að hugsa ykkur sem hluta af heild. Gera til dæmis ekki undantekningar fyrir ykkur sjálf sem þið mynduð ekki vilja að aðrir gerðu. Ég myndi til dæmis ekki vilja að allir hentu rusli á gangstéttarnar því þá væri ekki þverfótað þar fyrir gömlum bananahýðum og tyggjóbréfum og maður væri alltaf að stíga ofan í majónesklessur. Ef ég vil ekki að aðrir noti göturnar sem ruslafötur þá get ég heldur ekki leyft sjálfri mér að gera það. Af hverju ætti eitt að gilda um mig en annað um hina?
Og þetta á við í lífinu öllu.
Þið þurfið smám saman að fara að velta fyrir ykkur hvernig manneskjur þið viljið vera. Þið fenguð lífið ykkar að gjöf og það er ykkar að fara vel með það.
Vatnsglas stendur á borði og vatnið í því nær upp að miðju. Hvort er glasið hálf tómt eða hálf fullt? Ég hvet ykkur til að reyna hugsa á jákvæðum nótum í lífinu, vera opin, víðsýn og glöð. Ég vona að ykkar glas verði ekki hálf tómt heldur hálf fullt.
Hvort svo verður er undir ykkur komið.
Ég óska ykkur alls hins besta.
Sigríður Víðis Jónsdóttir er upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi og rithöfundur.