Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Borgaraleg ferming 2012 – Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir flytur ávarp

Eftirfarandi ræðu flutti Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir í fermingarathöfn Siðmenntar þann 28. apríl 2012 á Selfossi.

Góðan daginn elskulegu dömur mínar og herrar og gleðilega hátíð!

Ég vil þakka þann heiður sem þið sýnið mér með því að bjóða mér að koma og vera vitni að þessum merka áfanga í lífi ykkar allra. Ekki bara ykkar, unga fólksins sem í dag hlýtur borgalega fermingu, heldur einnig og ekki síður foreldra ykkar, fjölskyldu og vina.

Þessi dagur markar tímamót í lífi ykkar. Ákveðnu tímabili er lokið og nýr tími hefst með nýjum verkefnum og nýjum áskorunum. Hlutverk ykkar breytist.
Í vaxandi mæli, en þó í rólegheitunum, byrjar hin verndandi hönd foreldra ykkar, eða þeirra sem hafa leitt ykkur hingað til, smám saman að losna. Ekki strax. Ekki í einu lagi. En smátt og smátt.

Talan 7 kemur fyrir á mörgum stöðum og sumir vilja jafnvel meina að hún sé heilög. Vikudagarnir eru sjö, heimsálfurnar eru sjö, dvergarnir hennar Mjallhvítar voru sjö og rannsóknir hafa sýnt fram á að allar frumur í líkama hverrar manneskju endurnýjast á sjö árum. Þið eruð því að hefja þriðju lotu dömur mínar og herrar, samkvæmt frumulíffræðinni.

 

Fyrstu sjö árin er manneskjan ósköp ósjálfbjarga og þau ár fara í að kenna henni grunnatriði eins og að skilja og tala tungumál samfélagsins sem hún elst upp í og helstu siði og reglur. Um það leiti sem manneskjan verður sjö ára hefst svo menntunin. Skólaganga hefst og með henni alveg nýtt líf, nýjar áskoranir á hverjum degi. Manneskjan þarf ekki bara að leggja sig fram um að læra stafrófið og margföldunartöfluna, heldur er líka farið að setja fram kröfur um að hún læri náungakærleik, sýni tillitssemi og geti sett sig í spor annara. Okkur finnst þetta kannski sniðugt núna en fyrir sjö ára einstakling er þetta mjög flókið og oft óskiljanlegt verkefni. Sem betur fer er alltaf einhver til staðar, foreldri, amma eða afi, kennari, eldra systkyn, sem aðstoðar og leiðbeinir í gegnum þetta erfiða stig. Og huggar ef með þarf.

Þessu tímabili er nú senn að ljúka hjá ykkur og við tekur sá tími að foreldrar ykkar og samfélagið sem þið búið í fer að láta reyna á hvernig til hefur tekist. Höndin byrjar aðeins að losna. Á næstu sjö árum munu þau horfa á ykkur öðrum augum og vega ykkur og meta. Get ég treyst honum/henni til að fara þessa ferð? Er hún/hann tilbúin til að bera ábyrgð á þessu? Er mér óhætt að leyfa henni/honum að gera þetta? Í öllum tilfellum ímynda ég mér að ykkar svar verði hátt og skýrt já! Já já já!
Það sem þið hafið örugglega komist að nú þegar, er að já-ið er ekki nóg. Þó maður sé búinn að læra það á mörgum tungumálum.
Núna eruð þið orðin klár, þið vitið alveg orðið sitthvað um lífið og tilveruna og þið getið kjaftað ykkur í gegnum nánast hvað sem er. Jafnvel vandræði! Foreldrar ykkar og samfélag eru búin að þjálfa ykkur í að skilja og nota tungumálið svo að það gagnist ykkur vel, þið getið svarað fyrir ykkur og komið því til skila sem þið hugsið og ykkur finnst. Og það er frábært!

En þá er líka skipt um gír. Það sem þið segið, er og verður alltaf metið og á það hlustað, en aðaláherslan næstu árin verður á að fylgjast með því sem þið gerið. Hvaða ákvarðanir þið takið og hvernig þið fylgið þeim eftir. Hvort þið eruð í raun og veru orðin þjálfuð í vita hvað er ykkur fyrir bestu, eða hvort þetta er ennþá bara allt bara í kjaftinum á ykkur.
Og þessi tími sem er framundan, dömur mínar og herrar, gerir enn meiri kröfur til ykkar en þið hafið hingað til þurft að standa undir.

Nú reynir á að þið séuð þolinmóð. Við ykkur sjálf og við aðra. Þolinmóð við tímann sem líður stundum allt, allt of hægt. Reynið eins og þið getið að slaka á, fara í jóga ef þarf. Njótið hvers dags því þessi ár sem þið eigið framundan, unglingsárin og menntaskólinn, verða liðin áður en þið vitið af því. Fullorðinslífið, sem þið hlakkið svo til að ná, er aftur á móti svakalega langt og fullt af alls konar veseni. Og þið verðið, áður en þið vitið af, byrjuð að yrkja harmræn ljóð um glataða æsku.

Verið trú ykkur sjálfum. Gefið sjálfum ykkur frið og ró og hlustið eftir ykkar eigin vilja, ykkar eigin draumum, ykkar eigin löngunum. Aðeins sá sem þekkir sjálfan sig, getur orðið sjálfs sín herra. Sá sem þekkir sjálfan sig og veit hvað hann vill, lærir að velja það besta handa sér. Verður vandlátur. Og hvernig ætti það öðruvísi að vera? Við kaupum ekki allt sem okkur býðst á tilboði! Ekki einu sinni þó það sé á frábæru tilboði! Við veljum. Við samþykkjum ekki öll vinaboðin sem við fáum á facebook! Við veljum.

Mér dettur ekki hug að halda því fram við ykkur að það sé einfalt mál að læra að þekkja sjálfan sig. Það tekur langan tíma. Enda eruð þið ekki einfaldar manneskjur. Það er enginn.
Þið eruð, og við öll, margslungin og flókin ráðgáta. Við segjum og gerum hluti um hádegi, og um kvöldmat hugsum við: Hvað var þetta? Hvað var ég að pæla? Oft botnar maður ekkert í því sem gerðist og stundum sér maður eftir því.
Í slíkri stöðu er fátt mikilvægara en að sýna umburðarlyndi. Vera umburðarlyndur gagnvart því að maður er ekki fullkominn. Fyrirgefa sjálfum sér að vera ekki fullkominn. Og biðjast fyrirgefningar ef maður finnur þörfina fyrir það.

Hættið aldrei að vera forvitin! Lesið! Lærið allt sem ykkur langar! Spyrjið spurninga og gleymið aldrei að það er ekkert til sem heitir asnaleg spurning. Það er líka betra að líta út fyrir vitlaus í 5 mínútur en að vera það allt lífið! Og þó maður líti út fyrir að vera vitlaus eða geri jafnvel einhverja vitleysu er það bara í fínu lagi. Það getur meir að segja verið alveg hrikalega fyndið. Ég ætla ekki að reyna að telja öll skiptin sem mér hefur tekist að opinbera vitleysinginn í mér svo svakalega að allir viðstaddir vældu úr hlátri og héldu um magann. Og ég hló mest. Maður verður líka að hafa pínu húmor fyrir sjálfum sér.

Þekking á öllum mögulegum og ómögulegum hlutum stækkar lífið svo mikið og gerir það svo miklu skemmtilegra.
Með þekkingunni verður hugsunin líka gagnrýnin. Ekki trúa alltaf öllu strax sem þið heyrið eða lesið. Kannið málið. Á það sér aðra hlið? Er hugsanlegt að þetta sé ekki rétt? Þó að sætasti töffarinn eða flottasta stelpan segi það, eða það standi jafnvel á netinu! Og svo veit ég ekki hvernig ég get lagt nógu mikla áherslu á þetta; en ekki trúa auglýsingum! Hamingjan er ekki ekki fólgin í nýjasta snjallsímanum, dobble-lash eye-linernum eða flötum og afar fótósjoppuðum maga með six pack!

Það er afskaplega þægilegt og áreynslulaust að trúa bara því sem maður heyrir eða les og pæla svo ekkert meira í því. Eða hreinlega að sleppa því bara að lesa nokkuð eða velta fyrir sér hlutunum. Æ, hvaða máli skiptir þetta svo sem? Hvað kemur þetta svo sem mér við? Ég lifi hér bara mínu huggulega lífi og hef það alveg ágætt!

Samfélagið sem við lifum í er ekkert annað en summa þeirra einstaklinga sem í samfélaginu búa. Hver einasti einstaklingur skiptir máli og getur lagt gríðarlega mikið af mörkum til samfélagsins, í hvaða formi sem er. Við erum auðlind! Hvert einasta ykkar er óþrjótandi auðlind. Þið búið yfir sköpunargáfu, kærleika, orku, frumlegri hugsun og alls kyns snilligáfu sem þið eruð kannski nú þegar búin að átta ykkur á sjálf og byrjuð að nostra við og næra. Þið munið, þegar fram líða stundir, koma með lausnir á alls kyns vandamálum sem við eldri kynslóðir höfum strandað á. Og þið getið, ef þið viljið, haft áhrif á og gert heiminn sem við búum í að enn betri stað en hann er núna. Slíkur er styrkur ykkar. En þið verðið sjálf að velja að nýta kraft ykkar. Þið verðið sjálf að ákveða hvort þið viljið axla ábyrgðina og hafa áhrif.

Það er erfiðara og það er meiri vinna en að halla sér bara aftur í sófanum og vera latur. En það er miklu skemmtilegra líf. Fullt af ævintýrum og sigrum og fullnægju og gleði og góðum vinum af öllum sortum alls staðar að úr heiminum.
Ég er sjálf rétt tæplega hálfnuð með ferðalagið mitt í þessu lífi. Ég er enn að læra, enn að uppgötva nýja og merkilega hluti, finnst ég stundum orðin algjört gamalmenni en sem betur fer koma ennþá augnablik sem ég verð aftur sjö. Stundum stend frammi fyrir einhverju verkefni og finnst ég ekki hafa lært nokkurn skapaðan hlut. Eitt er ég þó búin að læra upp á tíu og er sannfærð um: það er ekkert betra í lífinu en að gleðjast og gleðja aðra, hlæja þangað til manni verður illt í maganum, dansa og syngja og gera grín.

Að lokum langar mig að vitna í mér vitrari mann sem fæddist að því er menn best vita 604 árum fyrir árið núll og var gefið nafnið Lao-tse. Hann skrifaði meðal annars:
„Vötn og fljót ráða yfir lækjum dalanna, sökum þess að þau liggja lægra. Þetta veldur fyllingu þeirra. Á sama hátt setur hinn vitri, sem óskar að verða öðrum fremri, sjálfan sig skör lægra, og hann dregur sig í hlé til þess að verða foringi.
Þótt hann beri af öðrum, lætur hann menn ekki finna til þess, og þeim svíður ekki, þótt hann sé fremri.
Þess vegna þykir öllum vænt um að hafa hann í hávegum, og menn verða ekki leiðir á honum. Og af því að hann er frábitinn deilum, getur engum lent saman við hann.“

Ég óska ykkur hjartanlega til hamingju með ferminguna. Megi hver dagur færa ykkur skemmtilegar áskoranir, hollt og gott í kroppinn og gleði í hjartað.

Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir

Til baka í yfirlit