Eftirfarandi ræðu flutti Brynhildur Þórarinsdóttir í fermingarathöfn Siðmenntar þann 13. maí 2012 í Hofi á Akureyri.
Góðan dag kæru fermingarbörn og fjölskyldur. Það er gaman að fá að vera með ykkur á þessum hátíðisdegi.
Ég fermdist fyrir fáeinum árum – fyrir akkúrat tveimur fermingaröldrum og nú getið þið reiknað út hvenær það var. Ég fermdist 19. apríl, það var sumardagurinn fyrsti og afmæli pabba míns; margfaldur hátíðisdagur.
Ég fékk kassettutæki í fermingargjöf frá mömmu og pabba og fyrir fermingarpeningana mína keypti ég mér rafmagnsritvél og sinclair spectrum leikjatölvu.
Þessar fermingargjafir eru auðvitað löngu glataðar og ef þær fyndust færu þær frekar á safn en í notkun.
Það sem eftir lifir er hins vegar minning um góðan dag, um glaða fjölskyldu, um stóran áfanga á lífsleiðinni. Um allt of margar kökur og gamlar frænkur sem óskuðu mér til hamingju með að vera komin í fullorðinna manna tölu.
Hugsið ykkur, þrettán og hálfs og komin í fullorðinna manna tölu. Mér fannst ég vissulega mjög stór, þó ekki í bókstaflegri merkingu því ég var bara einn fimmtíuogtveir.
Sem betur fer hefur samfélagið okkar breyst frá því gömlu frænkurnar mínar ólust upp á fyrri hluta síðustu aldar. Þær þurftu að taka á sig skyldur og kvaðir fullorðinnar manneskju við fermingu. Þær bjuggu í samfélagi sem gaf stúlkum og piltum ekki sömu tækifæri til að mennta sig og verða það sem þau langaði til.
Ég er svo heppin að hafa haft fleiri möguleika, að tilheyra kynslóð sem fékk að læra og stefna hvert sem hugurinn leitaði. Strákarnir og stelpurnar höfðu jöfn tækifæri. Eða svo virtist vera. Þegar ég horfi til baka var staðan önnur. Við stelpurnar fengum ekki að æfa fótbolta með hverfisliðinu og pabbar okkar höfðu engin tækifæri til að vera heima með okkur börnunum. Mömmurnar sáu að mestu um heimilisstörfin. Ekki vegna þess að þær væru svo góðar í að sópa frá náttúrunnar hendi heldur vegna þess að samfélagið var fast í þessum skorðum.
Að breyta samfélagi er eins og snúa við olíuskipi á siglingu. Það tekur ótrúlegan tíma og gusugangurinn getur orðið gríðarlegur.
Við erum enn að snúa þessu olíuskipi við. Enn halda sumir að bara karlar geti sparkað bolta og skipt um dekk. Enn halda sumir að bara konur geti skúrað gólf og þvegið sokka. Það sem verra er, enn halda sumir að karlar séu færari stjórnendur og konur færari uppalendur.
Sumir halda að strákar vilji öðruvísi dót og annars konar bækur en stelpur. Sumir segja að stelpur séu betri í að sitja kyrrar og strákar séu betri í að stjórna leikjum. Sumir segja að strákar séu betri í tölvuspilum og stelpur séu betri í föndri.
Ég vona að þið hafið þegar áttað ykkur á því að þessir sumir eru ekki alveg í lagi. Það er æfingin sem skapar meistarann, hvort sem um er að ræða tölvufærni eða saumaskap. Og það er samfélagið sem mótar hugmyndir okkar um stelpur og stráka.
Þess vegna langar mig að segja við ykkur: Látið ekki blekkjast af þeim sem nenna ekki að breyta um stefnu. Látið engan segja ykkur á hverju þið eigið eða megið hafa áhuga, hvaða íþróttir þið megið æfa, hvar þið megið starfa, hvernig þið eigið að líta út, hverju þið megið klæðast, hvar þið megið hafa hár, eða hvern eða hverja þið megið elska.
Þið eruð orðin nógu stór til að skilja að allt sem þið sjáið og heyrir mótar viðhorf ykkar. Þið eruð orðin nógu klár til að fatta að margt sem sagt er við ykkur og um ykkur er óttalegt bull.
Látið engan segja ykkur að þið séuð betri í einu eða öðru frá náttúrunnar hendi. Ég get lofað ykkur því að genið sem stýrir heimilisstarfa-ánægju er ekki fast við X-litninginn. Ekki frekar en að stærðfræðigenið eða óþekktargenið hangi utan á Y-litningnum.
Ég vona að þið séuð kynslóðin sem getur sagt með sanni: Stelpur og strákar eru jafngildir einstaklingar, með sömu tækifæri til menntunar og áhrifa og sömu laun fyrir sambærileg störf.
Sonur minn er 4 ára og hann ætlar að verða pabbi, leikskólakennari og slökkviliðsmaður. Hann á að geta orðið þetta allt án nokkurra athugasemda. Þið munið leyfa honum það af því að þið eruð fólkið sem mun móta samfélagið sem hann menntar sig inn í. Þegar þið verðið orðin fullorðin.
Kæru fermingarbörn, þið eruð ekki í alvörunni komin í fullorðinna manna tölu, sem betur fer. Það getur verið svo drepleiðinlegt að vera fullorðinn. Þið eruð enn í ábyrgð, eins og tryggingafélögin myndu segja. Það sem gerist núna er að sjálfsábyrgðin hækkar.
Böndin sem hnýta ykkur föst við foreldra ykkur eru farin að teygjast. Nú er orðið nógu langt í þeim til að þið getið horft á foreldrana úr fjarlægð. Þið eruð jafnvel búin að átta ykkur á því að foreldrar ykkar vita ekki allt, þau gera meira að segja stundum mistök, segja asnalega hluti eða spyrja vitlausra spurninga. Og trúið mér, þau eiga eftir að segja margt sem ykkur finnst asnalegt á næstu árum.
Þið verðið bara að láta ykkur hafa það. Foreldrar ykkur eru að ganga í gegnum miklar breytingar og þið verðið að sýna þeim þolinmæði. Litlu börnin þeirra eru að verða stór og þau eru í algerri afneitun. Börnin sem kúrðu í fanginu á þeim fyrir örfáum árum eru orðin sjálfstæð og vita allt í einu ýmislegt og kunna sem þau hafa ekki hugmynd um. Þau óttast þessa visku ykkar og vilja ýta á pásu, spóla til baka, hafa fjarstýringuna á ykkur eins og í fyrra eða hitteðfyrra.
Foreldrar geta líka verið eins og olíuskip, lengi að taka við sér.
Þau langar að verja meiri tíma með ykkur og þið verðið að leyfa þeim það, að minnsta kosti stundum. Ekki slíta ykkur laus strax, nýtið vaxandi frelsið vel, látið teygjast hægt og bítandi á böndunum, þannig öðlist þið smátt og smátt meira sjálfstæði. Ef þið geysist af stað, þá flækist þið bara og dettið.
Hugsið hvert þið viljið stefna og hvað þið ætlið að gera til að ná settu markmiði. Hvað þið getið gert til að verða betri manneskjur. Hvað þið getið gert til að samfélagið verði betra fyrir allar manneskjur, konur og karla, hvaðan sem þau koma.
Foreldrar ykkar hafa alið ykkur upp í 14 ár, nú er komið að ykkur að hjálpa þeim – þið verðið eigin með-uppalendur, undirverktakar hjá foreldrum ykkar. Ekki vera of eftirlát við ykkur sjálf, það er uppeldisaðferð sem gefst ekki vel, ekki vera heldur of ströng og ósveigjanleg, það gefst heldur ekki vel. Leitið ráða hjá þeim sem hafa reynsluna – foreldrum ykkar.
Og af því að það er mæðradagurinn í dag, þá segi ég: Spyrjið mömmu og ömmu hvernig þær hugsuðu þegar þær voru að fermast. Spyrjið þær hvernig samfélagið var þegar þær voru á ykkar aldri. Spyrjið þær um drauma þeirra og vonir þegar þær voru fjórtán. Spyrjið um allt sem ykkur dettur í hug, þið fáið engin svör nema með því að spyrja.
Það þarf nefnilega að hafa fyrir því að öðlast þekkingu. Menntun síast heldur ekki inn með því að sofa með bókina á höfðinu. Þið verðið að lesa og læra en líka gefa ykkur tíma til að íhuga, njóta og skilja.
Engin leið er betri til að öðlast skilning á lífinu og tilverunni en lesturinn. Lesið allt sem þið getið, alls konar bækur. Sá sem á bókina að vini leiðist aldrei. Lesið um krakka, drauga, bófa, vampírur, íþróttamenn, galdramenn, ástina, gleðina, sorgina, hamingjuna; lesið um allt sem ykkur dettur í hug. Umfram allt: LESIÐ, lesið og lesið.
Kæru fermingarbörn, það eru kaflaskil í lífi ykkar. Innganginum er lokið og nú er komið að öðrum kafla. Í honum klárið þið grunnskólann og farið í menntaskóla. Þennan kafla skrifið þið að miklu leyti sjálf. Þið eruð aðalpersónurnar og ráðið framvindunni.
En um daginn í dag er þetta að segja: Ég veit að þið eigið eftir að fá margvíslegar ritvélar og kassettutæki. Þær úreldast og verða í besta falli spaugileg minning. Þið eignist hins vegar það sem er miklu verðmætara; vonir, óskir og tækifæri.
Til hamingju og bjarta framtíð.
Brynhildur Þórarinsdóttir