Kæru áheyrendur, fermingarunglingar, foreldrar, ættingjar og vinir.
Ari Trausti Guðmundsson
Fyrir um 45 árum fermdist ég í pínulítilli kapellu sem núna er kjallararými undir altari Hallgrímskirkju. Þá voru blokkir við Bústaðaveg og Miklubraut og inni í Vogum hjá Glæsibæ nýjustu úthverfi Reykjavíkur, víða voru malargötur í borginni og það tók allan daginn að aka eftir rykugum malarvegi til Akureyrar. Ég bjó við Skólavörðustíg og sá borgarhluti sem nú kallast gamli bærinn líktist evrópskum smábæ. Þar voru litlar matvörubúðir, skósmiðir, hárskerar, iðnmeistarar, fiskibúðir, bakarí, sérstakar mjólkurbúðir og sérvörubúðir á öðru hverju horni – þar sem nú er næstum ekkert slíkt lengur að finna. Krakkar á fermingaraldri vildu enn helst leika sér úti við, veiddu fisk niður við höfn, söfnuðu teiknimyndablöðum, leikaramyndum eða servíettum – þið vitið þessum sem við setjum stundum við diska á matarborði. Já, við vorum barnalegri þá en unglingar eru almennt hér og nú. Þjóðin var mun minni en nú og velmegunin minni, í málmkrónum talið en ekki endilega mæld í hamingjukrónum. Bílar í Reykjavík voru innan við 10.000 en ekki 100.000 eins og núna og símanúmer bara fjögurra tölustafa og engir farsímar til. Og rúmum áratug síðar, þegar ég var næstum þrítugur, skrifaði ég mína fyrstu bók ekki á tölvu, heldur á ritvél með svörtum prentboða og lagaði villur með hvítu lakki á pappírsörkunum. Umræða um hlýnun jarðar var ekki til og sjónvarpið var svart/hvítt. (Ljósm.: Anna Fjóla Gísladóttir)
Af hverju rifja ég upp þessa tíma? Vegna þess að eftir 45 ár horfið þið til baka og verið óskaplega undrandi yfir hversu hratt umhverfi ykkar og þið sjálf hafið breyst. Líklega hafið þið þá lifað enn stórfelldari breytingar en ég hef lýst, breytingar sem þið gætuð ekki spáð hér og nú. Breytingarnar sem ég hef séð og breytingarnar sem þið munuð sjá eru ekki sjálfgefnar né verða þær vegna sjálfvirkrar þróunar. Þær eru og verða að mestu mannanna verk og þá líka ykkar verk. Við fæðumst öll til ábyrgðar, jafn ólík og við erum. Breytingar kosta fyrirhöfn, umhugsun og peninga. Öll höfum við séð hvernig hægt er að misnota peninga, skulda allt of mikið, ætla sér að eignast allt of mikið og bera litla eða enga virðingu fyrir öðru fólki. Þegar 5 eða 10% þjóðar fara allt, allt of langt í þessum efnum í krafti mikilla valda og gríðarlegrar peningaeignar verður til ástand sem kallast kreppa. Hún fer illa með marga, einkum með fólk sem verður að lifa á opinberum bótum, hefur lág laun eða meðallaun, eða missir vinnuna. Þá verður fólk flest að breyta mörgu, standa saman og vinna sig út úr ástandinu. Það gerist hægt og bítandi á þessu og næsta ári, ef spár rætast, en verður okkur flestum erfitt tímabil.
Hvað er það sem á að halda aftur af of gráðugu fólki, stýra ábyrgri hegðun eða hjálpa sem flestum að standa saman? Það eru svokölluð jákvæð gildi, til dæmis siðir og samskiptamynstur byggð á mannlegri reisn. Gildin eru meðal annars kölluð frelsi, jafnrétti, samstaða, manngæska, meðalhóf og hæverska. Sumt tengist fornum eða nýrri trúarbrögðum, annað uppruna þjóða og aldagömlum hefðum þeirra og enn annað verður smám saman til í nútíma samfélögum þegar þau þroskast. Takið eftir þessu orði: Samfélag. Menn segja society á ensku og það orð skýrir sig ekki sjálft en á norrænu tungunum er orðið mjög gegnsætt – menn starfa saman í stórri heild við að búa sér til gott líf. Til þess þarf einmitt þessi fyrrnefndu gildi og ýmis önnur í viðbót og svo auðvitað samstöðu sem flestra um þau – við þurfum að vera nokkuð sammála um grunninn að samfélaginu ef það á að virka nógu vel. En um hann eða gildin sjálf er auðvitað rökrætt eða rifist og úr deilunum sprettur oft eitthvað nýtt. Með þeim hætti virka nefnilega stjórnmálin en þannig nefnum við þessar deilur og kerfið sem af þeim hefur sprottið.
Inkarnir í Suður-Ameríku byggðu upp stórt margþjóða samfélag sem stóð í fáeinar aldir, m.a. á meðan verið var að skrifa Íslendingasögurnar. Ekki værum við sátt við ofbeldið við að búa til Inkaríkið en indíánaþjóðirnar komu sér þó saman um fern grunngildi: Ekki ljúga, ekki stela, vertu iðinn og sýndu hjálpsemi. Aldrei höfðu indíánarnir í Andesfjöllum þá heyrt af boðorðunum tíu sem við höfum tekið í kristinn arf og eru úbreidd víða, líka í kaþólsku löndum sem áður mynduðu Inkaríkið. Í Kórani múslima nyrst í Pakistan eru mörg gildi og meðal búddista í Tíbet eru líka gildi höfð í heiðri. Náttúrutrúarfólk í frumskógum Amazón í Ekvador hefur sín gildi. Ég hef ferðast til allra þessara landa og margra annarra, hitt alls konar fólk, klifið fjöll, siglt um fljót og yfir höf, farið nyrst á hnöttinn og hitt maóría á Nýja-Sjálandi syðst á jörðinni. Ýmislegt má læra í svona ferðum. Til dæmis að gildi ólíkra samfélaga eru mörg mjög lík og að Ísland er ekki fegursta land í heimi. Við erum ekki klárasta þjóð í heimi og almenningur á Íslandi þráir í grunninn ekki annað en almenningur annars staðar, svo sem eins og frið, frelsi til að skoða sig um eða tala, betri menntun, meiri réttindi til að velja eða hafna og næga velsæld að eigin mati. Maður kemst einnig að því að víða er farið mjög illa með almenning eða konur eða börn, víða er stunduð hræðileg rányrkja, víða stingur offramboð og græðgi í augun og óréttlæti sker mann í hjartað. Þess vegna verður ljóst að við hér á Íslandi höfðum það nokkuð gott miðað við milljarða manna. Og þrátt fyrir allt verður líka kristaltært að flest fólk er óskaplega líkt inn við beinið víðast hvar í heiminum. Það vill ókunnugum vel, það er hjálpsamt, forvitið og tilbúið að hlusta og læra jafnvel þótt það skilji ekki lífstíl minn eða er ósammála mér um gagnrýni á hefðir eða sammála um trúarbrögð. Á löngum ferðalögunum hef ég sem sagt lært umburðarlyndi – ég hef eignast múslimska vini – svo ég taki dæmi. Ég hef lært gagnrýna hugsun – ekki er allt satt sem sagt er í fjölmiðlum um múslima – svo ég haldi mig við sama dæmi. Ég hef lært að virða og reyna að skilja fjölbreytileika samfélaga og manna – hitt ismaelíta meðal múslima sem eru um margt ólíkir öðrum trúbræðrum sínum – svo ég sé enn á sömu slóðum. Ég hef líka lært að virða rétt fólks til að vera öðru vísi en meginhópar og lært að virða rétt samfélaga til að móta sig sjálf – en, vel að merkja, það má ekki koma í veg fyrir að ég gagnrýni með rökum það sem gengur gegn mannlegri reisn og friði.
Þið eruð hluti af samfélagi, núna sem unglingar, en eftir önnur 45 ár sem vel miðaldra fólk. Þá getið þið litið tilbaka og metið eiginn árangur og eigin mannlega reisn.
Spurt: – Tókst mér vel upp?
Það er undir ykkur komið, foreldrunum, skólanum og samfélaginu, jafnvel alþjóðasamfélaginu, hvaða gildi þið haldið í heiðri og hvernig líf ykkur tekst að búa ykkur sjálfum til handa. Þess vegna skuluð þið óhrædd leita að lærdómi, kannski hér heima, kannski í útlöndum, um allt sem ég hef nefnt hér. Fjörtíu og fimm ár eru ekki eins langur tími og kann að virðast.
Einhver mun spyrja ykkur hvert og eitt, við einhver tækifæri, einhvern tíma á lífsleiðinni:
Virðið þið og stundið heiðarleika og góðsemi? Eruð þið umburðarlynd, gangið þið gegn ofbeldi, verjið þið frelsi með ábyrgð, virðið þið eigur samfélagsins og forðist þið það sem getur skemmt heilsu eða andlega getu? Annist þið þau verk af alúð sem ykkur eru falin eða þið takið sjálfviljug að ykkur? Styðjið þið þá nýtingu náttúrugæða sem ekki tekur af þeim meira en náttúran getur gefið að skaðlausu? Hvernig er sérhver maður sjálfstæður en samt hluti af heild?
Eða þið spyrjið ykkur sjálf þessara sömu spurninga.
Stórt er spurt með þessu öllu, vissulega, en á ykkar aldri er einfaldlega þar komið, ef til vill í fyrsta sinn, að þið þurfið og eigið að velta fyrir ykkur svörum við svona lífsspurmálum, eins og þetta kallaðist í gamla daga, og hefjast handa við að læra svo þið getið svarað – og muna um leið að spurningar sem þessar leita á ykkur af og til alla ævi og það er ekki til eitt rétt svar við sumum þeirra.
Öll eigið þið líklega eftir að menntast umfram grunnskólann. Þá er gott að vita að núna er lögð áhersla á að verkmenntun teljist jafngild og jafn mikilvæg og bóknám eða háskólamenntun. Farið fyrst og fremst eftir eiginn áhuga og starfslöngun og munið tvennt í leiðinni: Hvers konar áhugi á hönnun og listum, á andlegu fóðri, hjálpar fólki við að þroskast. Einu gildir að hvaða grein áhuginn beinist eða hvort þið takið beinan þátt í listum eða njótið þeirra án beinnar þátttöku, og svo hitt: Leggið á ykkur að læra íslenskuna vel til að geta talað skýrt og fjölbreytt mál því þá gengur ykkur vel með erlendu tungumálin. Þá geta börnin ykkar skilið þessa ræðu mína, og reyndar þúsundir annarra og miklu mikilvægari texta, og þá komist þið hjá því að skrifa: Two bites of chikken and fransk frys for 599 króns – eins og sást á skyndibitastað.
Ég óska ykkur öllum langra og góðra lífdaga. Til hamingju með þennan aldursáfanga sem þið nú hafið náð – aftur velkomin í samfélagið því það voruð þið auðvitað boðin við fæðingu. Til hamingju, foreldrar, með börnin ykkar sem núna eru orðin meira en börn. Til hamingju með þennan fríða hóp, þið ættingjar, gætið hans vel.