Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Borgaraleg ferming 2009: Ávarp Eyglóar Jónsdóttur

Kæru fermingarbörn, foreldrar og aðrir gestir.

Eygló Jónsdóttir

Mannúðarheimspekingurinn og friðarsinninn Dr. Daisaku Ikeda segir í nýlegri grein sinni: „Æskan er fjársjóður mannkynsins. Þegar ungt fólk er metið mikils og gefið tækifæri til að nýta hæfileika sína til fullnustu opnast takamarkalaus, björt framtíð full vonar.“
Þið unga fólkið eruð sannarlega fjársjóður þessa lands. Þið eruð hvert og eitt ykkar, ómetanlegur fjársjóður, þið búið yfir stórkostlegum eiginleikum, sem þið kannski eruð rétt byrjuð að uppgötva eða hafið ekki enn komið auga á. Þið eruð mikilvægustu þegnar þessa lands. Það eruð þið sem munið áður en langt um líður taka við og stjórna þessu landi og færa það áfram vonandi til betri vegar fyrir komandi kynslóðir.
„Eitt einstakt líf er þyngra í metum en allur alheimurinn“ segir Dr. Ikeda á öðrum stað. Við mennirnir búum yfir takamarkalausum sköpunarkrafti lífsins. Við höfum getu til að skapa, byggja upp og gefa öðrum von og gleði en að sama skapi hefur maðurinn einnig getu til að eyðileggja, rífa niður og valda sjálfum sér og öðrum óhamingju. Það erum við mennirnir sem sköpum samfélagið. Það verður ekki gott eða slæmt af sjálfu sér. Ikeda segir: „Það eru engir erfiðleikar á sviði hins mannlega sem við mennirnir getum ekki sigrast á.“  (Ljósm.: Anna Fjóla Gísladóttir)


Ég er honum hjartanlega sammála. Við höfum innra með okkur þennan mikla sköpunarkraft og getum notað hann á jákvæðan eða neikvæðan hátt. Það er okkar að ákveða.
Eins konar manndómsvígsla þar sem ungt fólk er tekið í fullorðinnamannatölu hefur tíðkast víða um heim í gegnum aldirnar. Í okkar þjóðfélagi er það fermingin sem í dag er nokkurs konar staðfesting á því að þið eruð á leið inn í heim fullorðinna. Það er vissulega ekki ætlast til þess í okkar þjóðfélagi að þið takið á ykkur skyldur fullorðinna enn sem komið er. Hins vegar eru þessi ár sem framundan eru, frá fermingu til tvítugs kannski þau mikilvægustu varðandi stefnu ykkar í lífinu. Þá er ég ekki að tala um spurninguna: Hvað ætla ég að verða þegar ég verð stór? Það sem ég á við er hvernig einstaklingur ætla ég að verða? Smá saman fara foreldrar ykkar að sleppa tökunum, þið farið að taka meiri og meiri ábyrgð á ykkar eigin lífi og hamingju. Áhrif vina, skóla og umhverfis fara að aukast á líf ykkar. Það er á þessum tímamótum sem skiptir mestu máli að þið takið sjálf ábyrga afstöðu með sjálfum ykkur, ykkar eigin hamingju og velferð.
Ég heyrði nýlega sögu sem mér fannst mjög athyglisverð. Það var í barnaskóla í Japan eftir seinni heimstyrjöldina. Bekkjarkennarinn var að hvetja nemendur sína, sem margir hverjir komu úr fátækum fjölskyldum, að hafa stóra drauma og setja sér háleit markmið að stefna að í lífinu. Hann bað þá að skrifa niður það sem þá langaði að verða þegar þeir yrðu fullorðnir. Þegar nemendurnir skiluðu inn verkefnum sínu kom í ljós að einn þeirra hafði ekki skrifað neitt. Kennarinn spurði hvers vegna hann hafði ekkert skrifað. Nemandinn svaraði því að hann gæti ekki haft neina drauma um framtíðina. Foreldrar hans væru grænmetisbændur og það væri löngu ákveðið að hann myndi taka við af þeim þegar hann yrðu eldri, það væri hefð í fjölskyldunni. Kennarinn svaraði þá: ,,hvers vegna ákveður þú þá ekki að verða besti grænmetisræktandi í Japan?“ Nemandinn tók þessari áskorun kennarans og setti sér það markmið að verða sá besti í Japan. Í dag er þessi maður talinn ekki bara sá besti heldur stærsti og virtasti grænmetisframleiðandi og útflytjandi á grænmeti í allri Asíu.
Ég trúi því að það sé mikilvægt að setja sér stóra drauma og markmið til að stefna að í lífinu. En mikilvægasti ásetningurinn, finnst mér að ætti að vera, að verða sá besti einstaklingur sem ég get orðið, hvar sem ég er og í hvaða stöðu sem ég er; að fægja stöðugt persónuleika minn, efla innri styrk og stefna síðan óhikað í átt að markmiðum mínum. Þeir sem ná miklum árangri í lífinu setja sér ekki lítil markmið. Allir þurfa að glíma við mótlæti og hindranir þegar þeir reyna að gera drauma sína og ásetninga að veruleika og öll gerum við mistök á leiðinni. Það skiptir ekki máli hve mörg mistök við gerum eða hve oft okkur mistekst ætlunarverkið, það sem skiptir máli er að ef við hrösum og dettum þá stöndum við alltaf á fætur aftur og höldum ótrauð áfram hvað sem á dynur.
,,Enginn dagur án línu“ var kjörorð hins mikla tónskálds Beethovens, sem vann linnulaust að því að skapa meistaraverk sem enn hrífa hug og hjörtu þeirra sem hlusta á. Þeir sem ætla sér að ná langt og láta drauma sína rætast verða vissulega að leggja hart að sér dag eftir dag og gefast aldrei upp en þeir munu sannarlega verða sigurvegarar í lífin.
Hver einasti dagur býður upp á ný tækifæri, nýtt upphaf. Í dag er ykkar dagur, kæru fermingarbörn. Þið hafið lokið ákveðnum áfanga, fermingarfræðslunni og fjölskyldur ykkar fagna með ykkur á þessum tímamótum. En hversu mikilvægur þessi dagur verður fyrir líf ykkar er alfarið undir ykkur komið. Þið getið valið að þessi dagur verði dagurinn sem þið horfið á til baka með hlýju og stolti þegar þið verðið eldri og hugsið með ykkur, það var þarna sem ég tók ábyrgð á að líf mitt skuli alltaf stefna í jákvæða átt. Að ég skuli aldrei gefast upp. Ég skuli verð hamingjusamur og nýta líf mitt og hæfileika á sem bestan hátt. Slík heit sem þið gefið ykkur sjálfum geta ráðið úrslitum á ögurstundum og hjálpað ykkur að taka rétta stefnu í lífinu.
Þið standið á dýrmætum tímamótum og framtíðin liggur að fótum ykkar sem óskrifað blað. Það er ykkar hlutverk að skrifa handritið og skapa leikmyndina um leið og þið leikið aðalhlutverkið í ykkar eigin leikverki. Þýska ljóðskáldið Heinrich Heine sagði: ,,Hjörtu glæstra einstaklinga eru eins og jarðneskar stjörnur og ég trúi því að ef við litum ofan frá, niður á plánetu okkar, myndu þessi hjörtu ljóma fyrir augum okkar eins og tær ljós, eins og stjörnur á himinhveli.“ Ég vona af öllu hjarta að hvert og eitt ykkar verði sem sólir sem munið lýsa upp þetta þjóðfélag af umhyggju, hlýju, visku, og hugrekki.
Kæru fermingabörn innilega til hamingju með daginn.

Eygló Jónsdóttir

Til baka í yfirlit