Eftir Maryam Namazie*. Þýtt með leyfi útgefanda úr International Humanist News, ág. 2007
Nýlegar fréttskýrslur af átaki írönsku byltingarstjórnarinnar gegn konum sem eru „illa“ blæjaðar (bad-hijab) og sýna mótþróa gagnvart stöðugri áreitni og handtökustefnu yfirvalda eru talsvert meiri samanborið við fréttir af slíkum viðburðum áður. Þetta er að hluta til vegna myndupptaka leikmanna sem nota farsíma og setja upptökurnar á YouTube.com fyrir framan augu alls heimsins.
Það eru tvær upptökur sem allir ættu að sjá.
Önnur er af konu án blæju sem hrópar „við viljum ekki huluna; við viljum frelsi“. Hin er af ungri stúlku sem verið er að yfirheyra af lögreglumanni fyrir að vera „illa blæjuð“; hún tekur af sér blæjuna fyrir framan þá og er sparkað inn í bíl og keyrð burtu.
Þar sem konum er skylt samkvæmt lögum í Íran að bera blæjuna eru þessi mótmæli þeim mun hetjulegri.
Þessi áframhaldandi átök milli íslamskra yfirvalda og kvenna um blæjuna sýna ljóslega af hverju hún er orðin helsta tákn þess ofbeldis sem konur standa andspænis í íslömskum ríkjum og hvers vegna „ósæmandi“ eða „slæm“ blæjun og afblæjun eru orðin tákn andófsins gegn íslömskum stjórnarháttum. Af þessum sökum eru baráttuorðin „hvorki blæju né undirgefni“ orðin að kalli til samstöðu allt frá þeim tíma er núverandi yfirvöld þvinguðu fram lagalega skyldu kvenna til að bera blæjuna eftir að hafa eignað sér og lamað byltinguna til að ná sjálf völdum.
Í ljósi hinna fjölmörgu dæma um ofbeldi gagnvart konum í íslömskum þjóðfélögum – allt frá grýtingu til viðurkennds heimilisofbeldis – lítur „fár yfir blæjun“ e.t.v. út fyrir að bera í bakkafullan lækinn hjá þeim sem hlustað hafa á hróp Islamista um „réttinn til að blæja“ og „frelsi til klæða“. Þessir Islamistar eru að blekkja með því að nota réttindatal í þeim tilgangi að láta notkun blæjunar líta fallega út fyrir vestrænu fólki.
Blæjan er allt annað en fatnaður eða fataklútur. Rétt eins og spennitreyja og líkpokar eru ekki fatnaður, rétt eins og skírlífsbelti voru ekki flíkur. Rétt eins og Davíðsstjarnan sem fest var á gyðinga á tímum helfararinnar var ekki fatnaður.
Blæjan er tæki til þess að bæla og kúga konur. Henni er ætlað að skilja þær frá. Hún er dæmi þess hvernig komið er fram við konur í Íslam: hálf-menni, „takmarkaðar“, „óæðri“, réttlausar og fyrirleitnar. Þær eru innilokaðar í hreyfanlegu fangelsi og í þær á hvorki að sjást né í þeim heyrast framar.
Hin blæjaða kona er blæjuð til þess að koma í veg fyrir að hún sjáist eða verði snert af nokkrum öðrum en þeim sem eiga einhvers konar eignarhald yfir henni – faðir hennar, eiginmaður eða bróðir.
Í mörgum tilvikum er um líf eða dauða að tefla. Í Íran nú nýlega var sjúkraflutningsmönnum meinaður aðgangur að tveimur systrum sem þurftu bráða aðhlynningu vegna þess að bróðir þeirra taldi það syndsamlegt að þeir snertu þær. Þær dóu af þessum sökum. Og við höfum öll heyrt um dæmið frá Sádi-Arabíu þar sem stúlknaskólum er læst til að tryggja aðskilnað kynjanna. Árið 2002 braust út eldur í einum slíkum skóla og dyravörðunum var bannað af trúarlögreglunni að opna hurðarnar svo stúlkurnar gætu ekki sloppið út – gekk það svo langt að þær voru barðar til baka inn í skólann – því þær voru ekki almennilega blæjaðar; að auki stöðvaði trúarlögreglan menn sem reyndu að koma til hjálpar og sögðu þeim að það væri synd að snerta stúlkurnar. Fimmtán stúlkur dóu vegna þessa og yfir fimmtíu hlutu áverka.
Eins og ég sagði – spurning um líf og dauða.
Aukinheldur þvingar blæjan fram aðskilnað kynjanna sem virkar í raun svipað og aðskilnaður kynstofnanna (apartheit) í fyrrum Suður-Afríku. Hins vegar í þessu tilviki, auk almenns aðskilnaðar í þjóðfélaginu eins og sérstakir inngangar fyrir konur í stjórnarbyggingar, aðskilin svæði í almenningsvögnum og bann á viðveru kvenna á vissum opinberum stöðum eins og íþróttaleikvöngum, baðströndum o.s.frv, eru konur neyddar til að bera aðskilnaðarvegginn á eigin herðum.
Og gleymum ekki óljósari þáttum þessa, og rétt eins skaðlegum eins og því að geislar sólarinnar ná aldrei að snerta hár eða líkama konunnar en það býður uppá heilsufarsvanda. [D-vítamín skortur]. Og hversu niðurdrepandi það er að vera dæmdur svo auðvirðilegur og hættulegur að það sé þörf á sífelldri yfirbreiðslu…
Og ímyndið ykkur áhrif blæjunar á börnin. Gerð að kynverum frá níu ára aldri, haldið aðskildum frá strákum, kennt að þær séu öðru vísi og ekki jafnar strákum, haldið frá leik, sundi og öllum venjubundnum hlutum sem börn hafa þörf fyrir – þetta er í raun misnotkun á börnum.
Og þetta er ekki ástand sem einungis konur og stúlkur í íslömskum löndum þurfa að lifa við. Að minnsta kosti á stöðum eins og Íran eru fjöldamótmæli í formi félagslegrar mótmælahreyfingar. Blæjunni er einnig þvingað á margar konur í Evrópu með hótunum og það er hræddur úr þeim kjarkurinn. En vegna þeirrar virðingar sem blæjan og trúarbrögð fá í andrúmslofti kynþáttahatandi menningalegrar afstæðishyggju (racist cultural relativism) eru stúlkur og konur oftast látnar vera óafskiptar í höndum afturhaldssamra íslamskra samtaka og mergsjúgandi trúarleiðtoga þeirra (parasitical imams).
Túlkandi kóransins (mullah) í moskunni Green Lane í Birmingham [líklega Englandi] hefur sagt t.d.:
„Allah skapaði konuna skerta“
og í gervihnattarútsendingu frá hinu mikla Grand Mufti í Sádi Arabíu, sem sent var út til ensku moskunnar, sagði Sheikh Abdul Aziz al-Sheikh, að börn skyldi berja ef þau bæðu ekki til guðs og klæddust ekki hijab (hulu). Þá sagði eldri íslamskur trúarleiðtogi múslima í Ástralíu, Sheik Taj Aldin al-Hilali, að óblæjaðar konur væru eins og „óhulið kjöt“ og gaf því í skyn að óblæjaðar konur byðu uppá nauðgun og kynferðislega áreitni.
„Ef þú tekur út óhulið kjöt og setur það út á jörðina… án umbúða, og kettirnir koma og éta það… hvers sök er það, kattanna eða hins óhulda kjöts? Hið óhulda kjöt er vandamálið. Ef hún [konan] væri í herbergi sínu, á heimili sínu, í hijab sínu, hefði ekkert vandamál skapast“
Sú staðreynd að á hverjum degi óhlýðnast konur því að bera blæjuna, er til vitnis um hversu mannlegar þær eru, en aftur hversu ómannúðleg lögin, ríkin eða hóparnir sem þvinga notkun þeirra með valdi eða ógnunum eru.
Engar afsakanir, engin réttlæting, friðþæging eða menningarleg afstæðishyggja getur afneitað þeirri vanvirðingu og því ofbeldi sem blæjan stendur fyrir og notkun hennar er.
Blæjan er móðgun við mannkyn 21. aldarinnar. Henni þarf skilyrðislaust að andmæla.
*Mariam Namazie er barnfædd í Íran en fluttist þaðan með fjölskyldu sinni eftir byltinguna þar. Hún býr á Vesturlöndum þar sem hún hefur barist sleitulaust fyrir mannréttindum, sérstaklega flóttamanna. Hún kom nýlega að stofnun „Ráðs fyrrum múslima“ í Brétlandi. Hún heimsækir Ísland 5. september n.k. og mun halda 2 fyrirlestra hérlendis.
Þýð. Svanur Sigurbjörnsson