Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Biskup fer rangt með stefnu Siðmenntar

Eftirfarandi grein var send á Morgunblaðið 29. mars og var birt í blaðinu í dag (8. apríl).

Undanfarnar vikur hef ég, sem fulltrúi Siðmenntar, tekið þátt í fjölmörgum umræðum um trúfrelsi á Íslandi og þar á meðal hef ég fjallað um trúboð í opinberum skólum. Umræðan hefur vakið mikla athygli og ágæt viðbrögð. Skemmst er frá því að segja að fjölmargir einstaklingar, flestir þeirra trúaðir, hafa haft samband við mig og þakkað sérstaklega fyrir tímabæra og nauðsynlega umræðu. Þar sem öll umræða, sem tengist trú, getur verið afar viðkvæm hef ég gert mitt besta til að fjalla um málið með skýrum hætti og af yfirvegun. Það kemur mér því verulega á óvart hversu margir halla réttu máli þegar þeir fjalla um málflutning minn. Erfitt er að átta sig á því hvað liggur að baki því þegar menn fara með rangt mál aftur og aftur.


Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, hallaði réttu máli nú síðast í páskaávarpi sínu þegar hann sagði:

“Fámennur þrýstihópur vill rýma fræðslu um þá mikilvægu grunnstoð samfélagsins sem kristni er, út úr skólanum”.

Hér virðist biskup eiga við Siðmennt, sem reyndar er hvorki mjög fámennur hópur né sérstakur þrýstihópur umfram önnur félög. Látum það liggja milli hluta. Það er hins vegar beinlínis rangt að Siðmennt vilji afnema „fræðslu“ um kristni úr skólum. Siðmennt hefur einmitt hvatt til fræðslu um trúarbrögð í skólum og tekið skýrt fram að eðlilegt sé að börn séu sérstaklega frædd um trúarbrögð kristinna vegna sögulegra tengsla Íslendinga við kristni. Þetta hefur alltaf komið skýrt fram í öllum málflutningi Siðmenntar því ætti biskupnum að vera ljóst að hann er ekki að segja satt.

Seinna í sömu predikun hittir Karl biskup þó naglann á höfuðið þegar hann segir: „Skólinn á ekki að sinna trúboði.“ Þetta er kjarninn í málflutningi Siðmenntar eins og biskup veit fullvel. Krafa Siðmenntar hefur alltaf verið sú að opinberir skólar eigi að vera hlutlausar fræðslustofnanir ekki vettvangur trúboðs.

Biskup Íslands er því miður ekki einn um að fara rangt með málstað Siðmenntar. Veit ég til þess að þó nokkrir prestar hafa haldið sambærilegri vitleysu fram í predikunum sínum síðustu vikur.

Ég vil því biðja biskup Íslands, presta og aðra starfsmenn Þjóðkirkjunnar að lesa þessa grein vandlega yfir aftur, því ég er satt að segja orðinn afar þreyttur á að vera sakaður um eitthvað sem ég ber ekki ábyrgð á. Höfum það á hreinu að félagið Siðmennt er hlynnt allri fræðslu um trúarbrögð en mótmælir hins vegar harðlega öllum trúaráróðri og öllu trúboði í opinberum skólum. Allar fullyrðingar þess efnis að Siðmennt sé á móti fræðslu um kristni í skólum eru því annað hvort byggðar á vanþekkingu eða misskilningi.

Sigurður Hólm Gunnarsson
Varaformaður Siðmenntar
www.sidmennt.is

Til baka í yfirlit