Hörður Torfason, söngvaskáld og leikstjóri, flutti einstaklega fallega ræðu við Borgaralega ferminu sem haldin var 4. apríl 2004 í Háskólabíói. Stjórn Siðmenntar þakkar Herði kærlega fyrir sitt framlag.
Komi þið sæl.
Ég vil byrja á því að þakka ykkur fyrir að bjóða mér hingað og leyfa mér að deila þessari skemmtilegu og fallegu athöfn með ykkur og um leið óska ykkur fermingarbörnum til hamingju með þennan áfanga í lífi ykkar. Þennan fallega dag. Svo og óska ég ykkur og öllum aðstandendum ykkar og vinum allrar gæfu.
Það er ekki oft sem ég er beðinn um að koma og halda ræðu, miklu frekar beðinn um að koma að syngja – það er hluti starfs míns. Og ég hef kosið að nota tilvist mína til að fjalla um lífið og tilveruna í söngvum. Ferðast um og sjá, læra, hlusta, spyrja og reyna að endurspegla allt það sem fyrir ber innra sem ytra í söngvunum. En söngvar eru lítils virði ef enginn hlustar. Og það er kjarni málsins, ég er ekki einn. Ég er í samfélagi manna og tel það vera skyldu mína að láta skoðanir mínar í ljós með þeim ásetningi að deila þeim og nota það besta hverju sinni með öllum. Og treysta því að eins hugsi aðrir. Halda reisn minni og sjálfstæði, rækta með mér gott geð og velvilja til allra lifandi vera, manna og dýra svo og virðingu fyrir umhverfi mínu. Taka aldrei það sem ég ekki á og deila því sem ég á umfram með þeim sem þess þurfa.
Hafa það hugfast að frjáls er aðeins sá sem tekur fulla ábyrgð á orðum sínum og athöfnum. Og að ég er breyskur og þarfnast þess vegna annarra, líkt og aðrir þarfnast mín. Annarra til að tala við og deila lífinu með, hlusta á þá og vita að þeir hlusta á mig. Einn er ég lítils virði. Ég vil hafa að leiðarljósi að rækta vináttu og ást og sýna öðrum umhyggju. Með þeim ásetningi nálgast ég best það að vera ég sjálfur.
Margir kalla mig baráttumann en mér finnst orðið baráttumaður vera of harkalegt – það hefur í sér einhvern hljóm, sem minnir á mann sem öskrar og lemur frá sér og veldur óþarfa ótta og særindum. Og það er víðs fjarri mínum ásetningi og löngun. Ég kýs sjálfur að nota orðið umbótasinni. Vegna þessa að innst inni er ég knúinn áfram af sterkri löngun til að fjalla um það sem fyrir ber og taka ekki öllu þegjandi. Betrumbæta það sem ég tel mega fara betur í lífinu – en það geri ég ekki einn. Það er nefnilega ekki gaman til lengdar að syngja aðeins fyrir sjálfan sig. Hugmynd söngsins verður að berast öðrum. Ég hef oft byrjað tónleika mína með hugleiðingu um lífið sem ég kalla Vegurinn og ætla að leyfa mér að lesa hér en ekki syngja að þessu sinni.
vegurinn
tómið þræðir fjöllin há og firði
fuglar svífa um himinhvolfið blátt
ég myndi vilja þegja ef ég þyrði
en þögnin eykur ofbeldinu mátt
að eiga í hjarta von er mikils virði
en er vegur þessi leið í rétta átt?það reynist þraut að hafa allt á hreinu
í hjartans stóra einka sælureit
ég játa engu og neita ekki neinu
nálgast allt með varúð þess sem veit
að sá sem lofar gleymir oftast einu;
að efna verður gefin fyrirheití vegsins kanti ráða þarf í rúnir
róta innra og reyna að finna svar
svo að særðir nái sáttum
sálir nái áttum
því rætur og vængir flestra finnast þarég teygi mig til stjarnanna á stundum
og stefni að því að skilja hvert mig ber
á vegi þessum saman oft við undum
við áttum okkar bestu stundir hér
við brottförina er reynsla af fengnum fundum
förunautur þess sem eftir ersvo ótrúlegt sem það nú virðist vera
þá veit ég sumt en efast þó um flest
á stundum hef ég ekkert gott að gera
get hvorki þolað sjálfan mig né gest
ef alltof þunga byrgði er vont að bera
ég bein mín hvíli í vegsins kanti og sestþví í vegsins kanti ráða má í rúnir
róta innra og reyna að finna svar
svo að særðir nái sáttum
sálir nái áttum
því rætur og vængir flestra finnast þar
Fyrir 45 árum fermdist ég hér í reykjavík. Ég á óljósar minningar um þann dag. Ég fermdist af því ég gerði bara eins og mér sagt vegna þess að allir aðrir gerðu það líka. Og ekki eyðilagði vitundin um að fá gjafir. Og sumar þessara gjafa á ég enn mér til mikillar ánægju, úr frá foreldrum mínu og silfurhnífapör. Allt annað er ólós minning. Minning um lítinn strák sem alltaf var minnstur í bekknum. Strák sem leit á fermingarathöfnina sem manndómsvígslu. Það var nefnilega á þeim tíma var mjög vinsæl bók á meðal unglinga sem hér Alfræðibókin og ég átti eintak sem ég las spjaldanna á milli um undur og furður veraldarinnar. Og ég held að í þeirri bók hafi nefnilega verið kafli um manndómsvígsluathöfn drengja hjá dvergþjóð einni í nýju gíneu. Hún var framkvæmd þegar strákarnir komust á kynþroskaaldur. Og hún fór þannig fram að bundið var reipi um fætur þeirra og þeir látnir stökkva úr mikilli hæð og ef reipið hélt þá snertu þeir ekki jörðina og voru teknir inn í samfélagið. Með þessari athöfn sýndu þessir drengir hugrekki. Hættan lá augljóslega í því að reipið héldi ekki og við vitum öll að öll bönd geta brugðist. Og ég man lítinn strák sem var ákaflega þakklátur fyrir að eiga heima á íslandi og þurfa bara að mæta í kirkju spariklæddur í nýju jakkafötunum sínum og segja já við einhverju heiti sem hann bar ekki skynbragð á hann var viljugur til þess því hann vildi tilheyra samfélagi manna svo hann yrði ekki einn. Ég ætla að leyfa mér að lokum að lesa fyrir ykkur eitt ljóða minna til viðbótar.
brekkan
oft er brekkan brött
og býsna þung mín byrði
mér finnst oft sem ég standi í stað
og stefnan einskis virði
en að hika er út í hött
ég held ég viti þaðég vil sjálfið mitt sigra
ég sættist ekki á minna
hugurinn ber mig hálfa leið
hitt er bara vinnaí brekkunni er best
bros og vinsemd æfa
það fæðist engin fullkominn
svo fágun virðist hæfa
ég fólsku slæ á frest
og fer því með sönginn minnég vil sjá og sigra
ég sættist ekki á minna
hugurinn ber mig hálfa leið
hitt er bara vinnaEn sé brekkan breið
ég brosi laus við hlekki
á slíkum stundum gleymt mér get
svo gæfu mína blekki
ég vil rata rétta leið
og radda við hvert fet
Kæru fermingarbörn og aðrir viðstaddir. Gangi ykkur vel í lífinu og þakka ykkur fyrir samveruna.
Hörður Torfason