Jóhann Björnsson, nýkjörinn formaður Siðmenntar, flutti eftirfarandi ávarp í Laugarneskirkju 1. mars 2015 á samkomu um trúfrelsi.
Í Oxford yfirlýsingunni um hugsana og tjáningarfrelsi sem alþjóðasamtök húmanista (International Humanist and Ethical Union) gaf út eftir heimsþingið 2014 segir meðal annars:
“Rétturinn til hugsana- og trúfrelsis er einn og sami réttur fyrir alla. Mannréttindi, eins og þau eru orðuð í 18. grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og nánari útfærslum hennar, eru og ættu að vera ein og óskipt réttindi sem vernda mannlega reisn og frelsi allra manna með því að standa vörð um rétt þeirra til að hafa persónulega sannfæringu af hvaða tagi sem er, trúarlega eða ekki trúarlega.
…
Aldrei skyldi þvinga nokkurn mann nokkurs staðar til að láta af eða taka upp trú. Hugsanafrelsi felur í sér réttinn til að þróa með okkur, gaumgæfa, búa yfir og tjá sannfæringu okkar án þvingana, og geta látið í ljós skoðanir okkar og sýn á veröldina hvort sem hún er trúarleg eða ekki, án þess að óttast þvinganir. Það felur í sér rétt til að skipta um skoðun eða hafna trú sem við höfðum áður eða sem okkur var áður innrætt. Þrýstingur um að lúta hugmyndafræði ríkis eða kennisetningum trúarbragða er ofríki.
…
Trúfrelsi er fortakslaust en athafnafrelsi vegna trúar er það ekki. Sem ábyrgðarfullir samfélagsþegnar viðurkennum við að stundum verður að takmarka athafnafrelsi okkar svo fremi sem – og aðeins í þeim tilvikum – að gjörðir okkar skerða réttindi og frelsi annarra.”
Hér er minnt á að frelsi eins nær ekki lengra en að nefi næsta manns. Trúfrelsið getur ekki gengið svo langt að það brjóti á næsta manni. Því miður er of oft gengið á rétt annarra í nafni trúfrelsis og það var breski heimspekingurinn John Stuart Mill sem vakti athygli á því í bók sem hann gaf út árið 1859 og heitir á íslensku Frelsið. Þar segir hann meðal annars:
“Sú skoðun, að hver maður beri ábyrgð á trúrækni allra annarra, hefur valdið öllum trúarofsóknum sögunnar …. hugarfar trúarofsóknarmannsins, … líður engum öðrum að gera það, sem trú þeirra leyfir, vegna þess að trú hans sjálfs leyfir það ekki. Þetta er sú trú, að guð hafi ekki einungis andstyggð á athæfi vantrúarmannsins, heldur telji okkur samsek, ef við látum slíkan mann óáreittan.”
Hér minnir Mill okkur á vanda sem trúfrelsinu fylgir. Því miður er það of oft svo að fólk unir öðrum ekki að hafa aðra lífsskoðun, trú eða sannfæringu en það sjálft og beytir hinum ýmsu brögðum til þess að planta eigin sannfæringu í huga annarra.
Þessi afstaða er mikið böl eins og Mill benti réttilega á. Því miður á hún rætur sínar að rekja í trúarkenningum sem í eigin sjálfumgleði krefjast þess að öðrum sé boðað eitthvert erindi sem stundum er kallað fagnaðarerindi. Slík erindi geta hæglega birst sem hinn versti ófögnuður í áköfum trúarhita.
Það var vegna þessa, það var vegna þess að fólk hefur rétt á því að vera látið í friði með lífsskoðanir sínar og trúarsannfæringu sem fulltrúi Siðmenntar í nefnd sem starfaði á vegum Menntamálaráðuneytisins, gerði þá kröfu að í leiðbeinandi verklagsreglum ráðuneytisins um samskipti trúar- og lífsskoðanafélaga og skóla yrði kveðið á um þetta:
“Eftir fremsta megni skal forðast að nemendur og foreldrar séu settir í þá aðstöðu að þurfa að gera grein fyrir lífsskoðunum sínum”.
Þetta ætti ekki eingöngu að eiga við í skólum heldur er þetta regla sem ætti að eiga við í samfélaginu öllu. Fólk á að hafa skílausan rétt á því að vera frjálst frá ágangi trúar- og lífsskoðana.
Þetta þýðir að félög, trúarleg eða ekki trúarleg myndu taka stórt framfaraskref ef þau létu af þeim hvimleiða sið að reyna sí og æ að koma eigin sannfæringu að í huga annars fólks.
Í stað þess að fara út um heimsbyggðina til þess að gera alla menn að lærisveinum með góðu eða illu ættum við að fara út um heimsbyggðina og njóta þess að upplifa margbreytileikann og leyfa fólki að hafa sína sannfæringu og trú í friði og ekki hnýsast í hugarheim þess sem vill halda honum út af fyrir sig.
Jóhann Björnsson