Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Ávarp fermingarbarns (Akureyri) – Elísabet Kristjánsdóttir

 

Ræða flutt við borgaralega fermingu í Hofi á Akureyri 30. maí 2015.

Komið þið sæl ég heiti Elísabet Kristjánsdóttir og er fædd á vörutalningardaginn 2. janúar árið 2001.  Vörutalningin sem foreldrar mínir lentu í þann daginn byrjaði í einum og endaði í einum. Og þó ég hafi fengið að njóta mín ein sem eftirlæti foreldra minna í 2 ár þá átti mikið eftir að breytast. Ég fékk litla systir nánast í tveggja ára afmælisgjöf og í dag þá á ég sjö systkyni, allavega síðast þegar ég taldi.

Ég er nefninlega í svona nútímafjölskyldu, hún samanstendur af; tveimur heimilum, hjá mömmu og fósturpabba þar sem alsystir mín býr líka ásamt tveimur hálfsystkinum. Og síðan hjá pabba og fósturmömmu en þar búa svo tvö fóstursystkin og tvær hálfsystur.

Ég er frá Akureyri, svona að mestu. Ég fæddist að vísu  á úlivoll spítalanum í Osló. flutti  til Reykjarvíkur eins árs gömul og byrjaði þá í mínum fyrsta leikskóla sem hét Korpukot en ég man voða lítið eftir þeim stað. Ég prófaði einnig  leikskóla á Stórutjörnum og á Akureyri.  Ég get því kallað mig heimsborgarbarn, borgarbarn, bæjarbarn og sveitarbarn. En ég get líka bara kallað mig, Elísabet.

~ Í dag ætla ég að fagna því að vera ég og í dag ætla ég að fagna lífinu með fjölskyldu og vinum. Sumir segja að ferming sé ákveðin tímamót, tímamót þar sem maður hefur göngu sína í áttina að fullorðinsárunum. En eftir tiltölulega stuttan og auðveldan útreikning þá hef ég komist að því að maður eyðir allri ævinni í að vera fullorðinn eftir að maður ákveður að verða það, því tel ég að það sé mikilvægt að taka þá ákvörðun eins seint og mögulegt er.

Ég ætla mér að njóta lífsins og ég vil gera það á mínum forsendum en þó í sátt og samlyndi við mína nánustu. Ég tel nefnilega að möguleikarnir fyrir okkur 14 ára krakkana sem eru að fermast í dag séu endalausir og við fáum sennilega að njóta mun meiri forréttinda en foreldrar okkar, ömmur, afar, langömmur og langalangafar gerðu. Og ég held að það eina sem geti stoppað okkur í að gera það sem við viljum og búa það sem við viljum til úr lífinu sé okkar eigin hugur. það er því eins gott að við nýtum möguleikana vel.

Einhverjir segja að flóknasti tími lífsins sé framundan, næstu 7 ár eða svo komi til með að verða full af tilfinningaflækjum, hormónaköstum, ofsagleði, ofsareiði, ást og ástarsorg. Ætli það sé ekki besta leiðin til að lýsa lífi unglingsins. En hvernig sem næstu ár verða mun ég alltaf gera það besta úr þeim og reyna að öðlast reynslu sem geri mig að betri manneskju, og ekki væri verra ef að heimurinn verði kannski örlítið betri þegar ég kveð hann en þegar ég kom inní hann.

Ég óska ykkur öllum til hamingju með daginn og vona að þið eigið eftir að skapa góðar minningar í dag og það sem eftir er lífsins, það ætla ég að gera.

Takk fyrir

Elísabet Kristjánsdóttir

Til baka í yfirlit