Kristrún Ýr Einarsdóttir athafnastjóri og stjórnarmeðlimur hjá Siðmennt sagði okkur frá hlýrri hefð sem hefur fylgt henni frá barnsaldri og gaf hún okkur góðfúslegt leyfi til að deila henni með ykkur.
Að vera trúlaus en alast upp í siðum og hefðum fyrri kynslóða er eins og að ganga inn í gamalt ættaróðal sem hefur hýst marga ættliði en er núna þitt. Þú dáist að sumu sem stendur enn, kannski stórum gluggunum sem hleypa inn birtunni, en þú finnur að sumt er kannski orðið frekar úr sér gengið, eins og til dæmis gólfefnin sem þú ákveður að skipta um og setja smá málningu á veggina. Þú gerir gamla óðalið að þínu eigin heimili þar sem þinn eigin stíll og þín eigin gildi og lífsviðhorf fá að blómstra. Það er engin mótsögn í því að vera trúlaus og halda í hlýju hefða - en það er á sama tíma mikilvægt að endurmeta gamlar hefðir, velja og hafna og að lokum móta nýjar sem tilheyra þínu sanna sjálfi. Það er einfaldlega hluti af mennskunni að leita tengsla, finna samhengi og tilgang sem gefa tilverunni ákveðið merkingarbært gildi.
Fyrir mig voru jólin ekki alltaf tilhlökkunarefni. Þeim fylgdi kvíði, stress og áhyggjur. En þegar ég fór sjálf að halda mín eigin jól með dóttur minni þá vildi ég halda jól sem einkenndust af afslöppun og notalegheitum, samveru og gæðastundum. Fyrstu árin fannst mér erfitt að tileinka mér afslöppun og rólegheit. En það kom með æfingunni eftir því sem ég gat búið til og þróað mínar eigin hefðir og siði. Mín uppáhalds jólahefð á rætur að rekja til trúarbragða og kemur að ég held frá ömmu minni. Á aðfangadag var alltaf lagt auka diskur á matarborðið. Það var gert til að óvæntur gestur væri velkominn og yrði ekki fleygt á dyr líkt og Maríu og Jósef. Ég man að þegar ég fékk útskýringu á þessu sem krakki fannst mér að það væri eitthvað fallegt við það að búast við óvæntum gesti og viðkomandi væri velkominn. Ég man líka að ég taldi það ólíklegt að einhver bankaði upp á dyrnar á aðfangadagskvöld því í huga barns voru öll heima hjá sér með fjölskyldunni sinni og ég hafði mínar efasemdir um að María og Jósef væru væntanleg. Alla mína barnæsku stóð aukadiskurinn ónotaður.
Ég er 43 ára og og hef haldið mitt eigið heimili í 27 ár og frá fyrsta degi hefur heimilið mitt verið opið vinum og kunningjum sem hafa engan annan stað til að vera á. Ég á vini sem hafa fengið að gista á sófanum allt frá nokkrum dögum upp í nokkra mánuði og aðfangadagur er engin undantekning því barnshuginn þroskaðist upp úr því að halda að öll hefðu það næs og notalegt um hátíðirnar. Ég hef því haldið í þá hefð að leggja aukalega á borð fyrir óvænta gesti en ólíkt því frá því að ég var barn þá hefur aukadiskurinn oft verið notaður. Þegar dóttir mín komst á unglingsaldur var hún vön því að það væru fleiri en bara við tvær yfir hátíðirnar því hver sem ekki vill eða ekki getur ekki af einhverjum ástæðum verið með sínu eigin fólki er alltaf velkominn hjá okkur og hún hefur nokkrum sinnum komið heim og sagt “ mamma ég bauð nokkrum vinum að vera hjá okkur um jólin, þau koma kannski”
Diskurinn hefur því oft verið notaður og jólin okkar mæðgna verið fjölbreytt og ólík þar sem setið er með fólki á mismunandi aldri og mismunandi þjóðerni með mismunandi bakgrunn og lífssögu. Aukadiskurinn er því í okkar huga miklu meira en bara hefð og gamall siður. Hann er líka táknrænn fyrir það að opnað hjarta sitt og heimili og sýna fólki kærleika og væntumþykju, samkennd og virðingu. Að taka á móti öðrum eins og þau eru, eða þegar fjölskyldan eða samfélagið hefur hafnað þeim, eru einmana eða eru of langt frá sínu eigin fólki. Fyrir okkur mæðgur er það kjarni mennskunar að bjóða aðra velkomin í fjölskylduna okkar óháð því hvaðan þau koma, hvernig þau líta út eða hvað þau hafa með sér í farteskinu. Tengsl eru mikilvæg öllum og stundum er fjölskyldan sú sem við veljum en ekki endilega sú sem við fæðumst inn í.
Með því að gera gamlar hefðir og siði að sínum eigin haldast siðir og hefðir lifandi og geta þannig vaxið úr því að vera ónotaður diskur sem er lagður á borð yfir í að vera mörg ár af minningum og vinskap sem myndast við að bjóða aðra velkomna. Það er allra besta gjöfin.
Gleðilega hátíð.