Kæru félagar í Siðmennt!
Ákveðið hefur verið að setja af stað þrjú ný málefnaráð, Framtíðarráð, Hugráð og Viðurkenningaráð, sem verða opin öllum sem vilja taka þátt og er ætlunin er að hvetja enn fleiri félagsmenn til þátttöku í starfinu. Nú óskum við eftir sjálfboðaliðum í framkvæmdaráð þessara málefnaráða og verður hlutverk þeirra að leiða og skipuleggja starf þeirra og hvetja fólk til þátttöku.
Framtíðarráð mun ræða framtíðarsýn og skipulag Siðmenntar og vinna á þeim grundvelli tillögur að breytingum á lögum félagsins fyrir lok ársins 2019. Stjórn Siðmenntar leitar að fimm sjálfboðaliðum til þess að leiða þessa vinnu
Óskað er eftir fimm sjálfboðaliðum í framkvæmdaráð
Hugráð verður samræðuvettvangur um húmanískar áherslur. Markmiðið með stofnun Hugráðs er að efla lífskoðunarhluta starfsemi félagsins. Tilgangur Hugráðsins er að standa fyrir viðburðum um húmanísk málefni, fræðslu til félaga og lifandi samræðu um siðferðileg og samfélagsleg álitamál. Hugráð stýrir í umboði stjórnar vinnu við gerð og reglulega endurnýjun siðareglna félagsins.
Óskað er eftir fimm sjálfboðaliðum í framkvæmdaráð
Viðurkenningarráð mun fjalla um viðurkenningar félagsins og skila árlega niðurstöðum sínum til stjórnar.
Óskað er eftir þrem sjálfboðaliðum í framkvæmdaráð.
Með góðri kveðju.
Sævar Finnbogason,
formaður Siðmenntar.