Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Athugasemd gerð við ræðu innanríkisráðherra á kirkjuþingi

FRÉTTATILKYNNING

Í ræðu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra, á kirkjuþingi kennir ýmissa grasa sem stjórn Siðmenntar vill bregðast við.

Ráðherra gerir að umtalsefni reglur Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðar og Kópavogsbæjar um samskipti skóla við trú- og lífsskoðunarfélög. Ráðherra tjáir þá skoðun sína að hún telji réttlátt að trúboð sé stundað í opinberum skólum með dreifingu trúarrita, heimsóknum trúfélaga í skóla og kirkjuheimsóknum skólabarna. Að auki telur ráðherra í lagi að skólabörn þylji faðir vorið.

Reyndar fellur ráðherrann í þá gryfju að segja þetta vera í lagi þar sem enginn skaðist af því en einnig að það hljóti að vera mótvægi við skaða barna vegna óhefts aðgangs barna að netinu.

Fyrst af öllu þá eru skólar sem reknir eru fyrir opinbert fé ekki vettvangur trúfélaga. Skólar eiga að virða lífsskoðun allra og vera óháðir þegar kemur að slíkum málum. Foreldrar eiga að geta treyst því að skólarnir séu ekki leikvöllur trúfélaga né heldur að þeir þurfi stöðugt að gefa upp lífsskoðun sína. Hætta er á að slíkt ástand leiði af sér einelti og vanlíðan barna. Trúar- og lífsskoðun er einkamál hvers og eins.

Þar sem ráðherra notar Gídeon félagið sem dæmi um saklausa iðju þá er það að dreifa trúarritum skýrasta dæmið um trúboð sem ekki á heima innan veggja opinberra stofnanna. Að nota rök um skaða barna vegna netnotkunar til þess að réttlæta trúboð í skólum er í versta falli smjörklípa.

Siðmennt vill í þessu sambandi benda á að það er á ábyrgð foreldra að sjá um trúaruppeldi barna sinna en ekki hlutverk skólakerfisins. Kirkjur eru víða og sinna öflugu barnastarfi á sínum forsendum Þangað eiga þeir foreldrar að leita en ekki gera kröfu um að aðrir sjái um það fyrir sig.

Siðmennt gerir kröfu um að þingmenn og ráðherrar virði mannréttindi allra þegna landsins en geri ekki upp á milli lífsskoðana og hygli einni ákveðinni trú jafnvel þó þeir hafi kristna lífsskoðun sjálfir.

Fyrir hönd stjórnar Siðmenntar
Bjarni Jónsson, varaformaður

17.11.2013

Til baka í yfirlit