Á árinu sem nú er að líða hafa miklar breytingar átt sér stað hjá athafnaþjónustu Siðmenntar. Þann 3. maí síðastliðinn fékk félagið lögskráningu sem lífsskoðunarfélag hjá Innanríkisráðuneytinu og með því þann rétt að athafnarstjórar þess gátu gefið saman hjónaefni í hjónaband á lögformlegan máta.
Við þetta varð sprenging í beiðnum um giftingar og nú í lok árs hafa athafnarstjórar Siðmenntar gefið saman 36 pör, þar af 33 lögformlega. Síðustu tvær gifingarnar fóru einmitt fram í dag gamlársdag. Þetta er meira en 300% aukning frá í fyrra þegar félagið gaf saman 11 pör eftir að þau höfðu leitað til sýslumanns með lögformlega hlutann.
Einnig var áframhaldandi aukning á öðrum athöfnum og samanlagt urðu þær 79 í ár en voru 43 í fyrra. Æ fleiri leita til félagsins með útfarir því að óháð aðild fólks í trú- eða lífsskoðunarfélag segist það „ekki vilja prest“ og fær því veraldlega útför hjá Siðmennt. Æ fleiri vita nú af þessum möguleika.
Í fyrra gaf félagið saman samkynhneigðar konur í flottri athöfn í Grand Hotel og í ár við vetrarsólstöður gaf athafnarstjóri frá Siðmennt saman samkynhneigað menn í sólarlaginu kl 15:20 úti á Gróttu. Það voru menn frá Ástralíu og því hefðu þeir vart getað ferðast lengra til að fá að gifta sig.
Félagið hefur fengið sjö nýja athafnarstjóra til liðs við sig eftir athafnarstjóranám í haust og á nú að skipa 20 manns sem munu taka við hinu aukna álagi sem við búumst fastlega við á nýju ári.
Þann 1. janúar tekur gildi ný verðskrá fyrir athafnir. Nafngjöf kostar kr. 14.500, gifting kr 28.500 og hlutur beiðanda í útför kr. 17.000. – Viðbótargjöld vegna ferða umfram 30 km geta átt við.
Fyrir hönd athafnaþjónustu Siðmenntar þökkum við athafnarstjórar félagsins og undirritaður umsjónarmaður fyrir fyrir frábærar viðtökur og hlýjar samverustundir á árinu sem nú er senn liðið og óskum ykkur gleðilegs nýs árs. Það er með tilhlökkun sem við nætum nýju ári, 2014 og vonum að góðu stundirnar við athafnir ykkar verði sem flestar og áfram ríkulegar af gæðum.
– Svanur Sigurbjörnsson