Uppfært 3. apríl – Í ljósi þess að samkomubann hefur verið framlengt til 4. maí og strangari reglur hafa verið settar um fjölda á samkomum, er athafnaþjónusta Siðmenntar í algjöru lágmarki sem stendur. Við erum þó á fullu að skipuleggja athafnir síðar í ár, og færa til frestuðum athöfnum.
Samkomubann vegna Covid19 hefur haft umtalsverð áhrif á athafnaþjónustu Siðmenntar. Sumir hafa þegar frestað athöfnum sem er bæði skiljanlegt og eðlilegt í ljósi aðstæðna. Mögulega einnig það skynsamlegasta í stöðunni. Enn sem komið er hefur Siðmennt ekki haft frumkvæði að því að fresta athöfnum, hvort sem um er að ræða hjónavígslur, nafngjafir eða heimafermingar. Við sjáum hins vegar ástæðu til að minna góðfúslega á tilmæli yfirvalda um samkomur og fyrirkomulag þeirra. Við viljum ekki setja athafnastjórana okkar í þá stöðu að þeir séu neyddir til að fara gegn þessum fyrirmælum gegn sínum vilja og samvisku.
Til að tryggja öryggi ykkar, gesta og athafnastjóra er mikilvægt að fara að ráðleggingum heilbrigðisyfirvalda. Má þar nefna þessar leiðbeiningar sem eru að finna á Covid.is og ítrekum við sérstaklega tilmæli um fjarlægð milli fólks og snertingar:
„Að auki þurfa allir aðrir staðir að tryggja að ekki séu á sama tíma fleiri en 100 manns inni í sama rými. Þetta á t.d. við um vinnustaði, veitingastaði, mötuneyti, kaffihús, skemmtistaði, verslanir, sundlaugar, líkamsræktarstöðvar, og söfn. Þessi mörk eiga einnig við um almenningssamgöngur og aðra sambærilegra starfsemi.
Á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi þar sem færri en 100 eru samankomnir, skal eins og mögulegt er skipuleggja rými þannig að hægt sé að hafa að minnsta kosti tvo metra á milli einstaklinga.“
Samkomubannið er í gildi til 13. apríl. Ef þú ert með skipulagða athöfn á vegum Siðmenntar á meðan á samkomubanninu stendur, og ert tvístígandi um framhaldið, hvetjum við þig til að hafa samband strax. Annað hvort í gegnum tölvupóst á netfangið athafnir@sidmennt.is en einnig er hægt að hringja beint í framkvæmdastjóra í síma 612-3295 og ræða málin.