Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Ert þú framúrskarandi athafnarstjóri?

Ert þú framúrskarandi athafnarstjóri?

Við leitum að fólki sem vill vera til staðar fyrir fjölskyldur á tímamótum

Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, auglýsir eftir áhugasömum einstaklingum sem vilja ganga í hóp athafnarstjóra félagsins. Athafnarstjóri stýrir athöfn í lífi einstaklings eða fjölskyldu á tímamótum, svo sem nafngjafarathöfn, fermingarathöfn, hjónavígslu og útför. Athafnaþjónusta Siðmenntar er þekkt fyrir persónulegar athafnir, vönduð vinnubrögð, hátíðleika og húmor - og nú viljum við stækka hópinn.

Athafnarstjóraþjálfunin tekur um hálft ár og er kennd í tveimur staðlotum (helgarnámskeið), heimaverkefnum og handleiðsluferli. Mikill áhugi hefur verið á því að komast að í athafnaþjálfun og síðasta námskeið var haldið árið 2018. Það er því einsýnt að færri komist að en vilja. Athafnarstjóraþjálfunin tekur fyrir nafngjafarathafnir og hjónavígsluathafnir og standist þátttakandi kröfur félagsins um frammistöðu á þjálfunarferli fær viðkomandi vígsluréttindi og gengur í hóp virkra athafnarstjóra. Athafnarstjórar fá greitt fyrir störf sín sem verktakar, en tekjumöguleikar eru háðir eftirspurn eftir einstaklingnum sjálfum og þjónustunni í heild sinni.

Við leitum að einstaklingum þekkingu, reynslu eða færni í eftirfarandi þáttum:

  • Leikni við meðferð texta, sagnagáfu og hæfni í að taka viðtöl.
  • Færni í framkomu, upplestri og sviðsetningu.
  • Fagleika í vinnubrögðum, samviskusemi og skipulag. 

 

Eftirfarandi eiginleikar teljast umsækjendum sérstaklega til tekna við úrvinnslu umsókna:

  • Áhugi og/eða þekking á húmanisma, trúfrelsi eða heimspeki.
  • Færni í tungumálum, þá sér í lagi þýsku, frönsku og pólsku.
  • Búseta á landsbyggðinni. 


Þá þarf umsækjandi að hafa lífsgildi sem samræmast húmanískum gildum. Allir athafnarstjórar skulu vera skráðir meðlimir Siðmenntar við upphaf námskeiðs og hafa náð 25 ára aldri. 

Þátttökugjöld eru 215.000 kr. sem greiðast sem 95.000 kr. staðgreiðsla og 120.000 kr. sem vinnuframlag (við athafnarstjórnun). Nánari upplýsinga um fyrirkomulag og sundurliðun greiðslu eru neðar.

Umsóknarfrestur er til 28. desember. Þjálfun hefst í febrúar. Frekari upplýsingum svarar Inga Auðbjörg K. Straumland, verkefnastjóri. inga@sidmennt.is | 8966120

Smelltu hér til að SÆKJA UM.

***

Nánar um fyrirkomulag þjálfunar 


Helstu dagsetningar

  • Viðtöl fara fram í janúar
  • Námskeiðshelgi 1: 19.-20. febrúar 
  • Námskeiðshelgi 2: 26.-27. mars
  • Þjálfun undir handleiðslu fer fram í vor og sumar.
  • Útskrift í september.

 

Viðfangsefni og kröfur
Þátttakendur þurfa að gera ráð fyrir að vinna verkefni utan staðnámsins. Á námskeiðinu verður farið yfir helstu þætti starfsins, áherslur í viðmóti og vinnubrögðum, textaskrif, framkomu, lagaumhverfi og hugmyndafræði Siðmenntar. Til greina koma þeir sem hafa reynslu og áhuga á framangreindu og uppfylla skilyrði Siðmenntar til athafnarstjórnunar. 100% mæting og skil á verkefnum námskeiðsins eru forsenda útskriftar. Athafnarstjórar sinna lágmarksfjölda athafna á ári og þátttöku í símenntun athafnarstjóra er vænst. 

Þátttökukostnaður
Í heild sinni er þjálfunin metin á yfir 600.000 kr. per þátttakanda, en Siðmennt greiðir námskeiðið niður að miklu leyti. 

  • Staðfestingargjald: 50.000 kr. - greiðist áður en námskeið hefst.
  • Viðbótargreiðsla: 45.000 kr. - greiðist fyrir útskrift
  • Vinnuframlag: 120.000 kr. - greiðist með athafnarstjórnun* 


Samtals per þáttt. 215.000 kr.
Niðurgreiðsla Siðmenntar: 450.000 kr.
Athugið að þjálfunin getur talist styrkhæf hjá stéttarfélagi.

*Athafnarstjóri getur greitt allt að 120.000 kr. af heildargjaldi sínu með vinnuframlagi. 120.000 kr. samsvarar u.þ.b. Tveimur hjónavígsluathöfnum eða einni hjónavígslu og tveimur nafngjöfum. Hafi athafnarstjóri ekki greitt fullnaðargreiðsluna með vinnuframlagi sínu ári eftir útskrift, verða eftirstöðvar innheimtar. Athafnarstjóra er einnig frjálst að staðgreiða þennan þátt í stað vinnuframlags. 

Aðgengi fatlaðra, íbúa af landsbyggðinni og þeirra sem ekki tala íslensku
Samkvæmt aðgengisstefnu félagsins skulu hvers konar fatlanir ekki hindra það að starfsmaður sé ráðinn til starfa fyrir félagið. Staðnám fer fram í aðgengilegu rými. 

Jafnframt er fullkomin íslenskukunnátta ekki skilyrði fyrir þátttöku á námskeiðinu, en æskilegt er að þátttakandi skilji íslensku og geti fylgst með fyrirlestrum. Þátttakanda er þó frjálst að skila verkefnum og taka þátt í umræðum á ensku. 

Ferðakostnaður íbúa af landsbyggðinni er niðurgreiddur í flesta þætti þjálfunarinnar. 



Til baka í yfirlit