Stjórn Ástráðs veitti viðurkenningunni viðtöku. Frá vinstri: Þórdís Ylfa Viðarsdóttir varaformaður Ástráðs, Gísli Gíslason gjaldkeri, Arna Kristín Andrésdóttir formaður og Jóhann Björnsson formaður Siðmenntar.
Ágæta samkoma,
Ég heiti Arna Kristín og er formaður Ástráðs – kynfræðslufélags læknanema.
Ég vil byrja á því að þakka kærlega fyrir þessa viðurkenningu fyrir hönd Ástráðs.
Félagið var stofnað árið 1998 og hefur síðan þá farið í framhaldsskólana á landinu og kennt þar kynfræðslu á jafningjagrundvelli. Síðustu ár hefur okkur tekist að fara í alla framhaldsskóla landsins! Félagið fer einnig í grunnskóla og félagsmiðstöðvar og fræðir þar nemendur á unglingastigi. Ástráður hefur það að markmiði að fækka kynsjúkdómum og ótímabærum þungunum og leggur ríkulega áherslu á sjálfsvirðingu, samskipti, samþykki, kynhneigðir og kynheilbrigði.
Félagið byggir eingöngu á velvild og sjálfboðavinnu læknanema. Kennslan er mikilvæg bæði fyrir framhaldsskólanemendur og læknanema. Framhaldsskólanemendur fá hér gríðarlega mikilvæga kynfræðslu sem er í algjöru lágmarki á Íslandi og þá fá læknanemar tækifæri til þess að læra að tala opinskátt um kynlíf, kynfæri, kynhneigðir og fleira.
Auk fyrirlestrana sinnir Ástráður nokkrum öðrum verkefnum. Til að mynda höldum við úti pósthólfi sem allir geta sent spurningar á og fengið svör undir trúnaði. Á heimasíðunni okkar astradur.is má finna ýmsan fróðleik en í haust höfum við unnið að uppfærslu hennar og ný síða fer vonandi í loftið nú í nóvember. Undanfarin ár hafa svo nokkrir röskir Ástráðsliðar mætt á stórar hátíðir líkt og Þjóðhátíð í Eyjum og Menningarnótt og dreift þar smokkum.
Ástráður vinnur því mjög mikilvægt starf hér á landi sem að við í Ástráði erum virkilega stolt og hreykin af. Þess vegna tökum við á móti þessari viðurkenningu með miklu þakklæti og hlökkum til þess að halda áfram að fræða unga fólkið í landinu!
Takk fyrir!