Á dögunum sendi stjórn Siðmenntar frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem varð að lögum 29. júní. Siðmennt telur að í lögunum séu mannréttindi skert í tveimur greinum:
Ný fjárlög skerða mannréttindi
Fyrra atriðið snertir breytingu sem samþykkt var á lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar sem getið er um framlög ríkisins til gjafsóknar. Siðmennt benti á að í tíð fyrri ríkisstjórna hafi úrræði til gjafsóknar stöðugt verið skert. Því skjóti það skökku við að núverandi ríkisstjórn bæti um betur og þrengir fjárframlög til málaflokksins og gerir fjárvana almenningi enn erfiðara að sækja rétt sinn. Siðmennt telur að verið sé að skerða mannréttindi.
Einnig benti Siðmennt á í áliti sínu að við breytingu á lögum nr. 91/1987 um sóknargjöld hafi ríkisstjórnin staðfest það sem Siðmennt hefur löngum haldið fram að skattur þeirra sem ekki eru skráðir í trúfélög og rann áður til Háskóla Íslands, sé í raun refsiskattur.
Ríkisstjórnin ákvað að afnema þann hluta er snýr að Háskólanum og þess í stað að láta féð renna beint í ríkiskassann. Stjórn Siðmenntar telur að þar sé einnig um brot á mannréttindum að ræða. Þeir sem ekki eru skráðir í trúfélög eiga ekki að þurfa að greiða félagsgjöld til ríkisins.
Í áliti sínu minnir Siðmennt einnig á eitt af stefnumiðum sínum sem er að ríkið eigi ekki að sjá um innheimtu félagsgjalda trúfélaga í gegnum skattakerfið í formi sóknargjalda. Trúfélög geta auðveldlega séð um sína innheimtu sjálf eins og öll önnur frjáls félagasamtök gera.
Siðmennt vill minna alþingismenn á skyldu sína að standa vörð um mannréttindi. Það réttlætir ekki, þrátt fyrir núverandi ástand í ríkisfjármálum, að brjóta á mannréttindum ákveðinna hópa eingöngu til þess að auka tekjur ríkissjóðs.
_________
Bjarni Jónsson varaformaður Siðmenntar svaraði spurningum um þetta efni í Speglinum, þætti á Rás 1, föstudaginn 3. júlí síðastliðinn. Sjá hér.