Í desember blaði Þjóðarpúls Gallup 2009 var greint frá niðurstöðum nýrrar könnunar á vilja landsmanna fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju. Mælingin var unnin úr netkönnun sem gerð var dagana 12.-25. nóvember 2009. Svarhlutfall var 70.8% og úrtaksstærð 2403 manns. Úrtakið er tilviljunarúrtak úr Viðhorfahópi Capacent Gallup og eru í því einstaklingar af öllu landinu 18 ára og eldri.
Niðurstaðan var sú að tæplega 60% segjast hlynnt aðskilnaði ríkis og kirkju, 20% eru hvorki hlynnt né andvíg og 20% andvíg. Af því fólki sem tóku afstöðu með eða á móti, segjast því 74% vera hlynnt aðskilnaði en aðeins 26% andvíg. Capacent Gallup birti í línuriti þróun þessa fylgis með aðskilnaðinum frá árinu 1994 og er það samanburður 13 kannana alls að þessari meðtalinni.
Meirihlutastuðningur við aðskilnaðinn hefur verið stöðugur á bilinu 58-67% þar til að hann féll í desember 2007 og náði þá tæpum meirihluta 51%. Niðurstaða könnun-arinnar nú er því stórt stökk upp í stuðningi við aðskilnaðinn og hefur hann nú náð sögulegu hámarki í 74%. Þetta vekur upp spurningar um orsakir þess og verða mögulegar útskýringar aldrei annað en tilgátur þó áhugavert sé að velta vöngum yfir þeim.
Skoðum fyrst töflu Gallup með greiningum á vissum hópum innan úrtaksins:
Ljóst er að eldra fólk vill halda frekar í óbreytta hefðina, en samt er meirihluti fyrir aðskilnaði í elsta hópnum. Í hópnum 18-29 ára er ákaflega lítil andstaða við aðskilnað og verður það að teljast athyglisvert m.t.t. framtíðarhorfa í málinu. Ekki kemur á óvart að nær allt fólk utan trúfélaga eða 99% eru hlynnt aðskilnaði. Í því samhengi verða orð Bjarna Harðarsonar, fyrrum alþingis-manns Framsóknarflokksins úr ræðupúlti á Alþingi fyrir um ári síðan, neyðarleg því að hann þóttist tala fyrir munn meirihluta trúlausra í landinu, þegar hann lýsti yfir stuðningi við núverandi Þjóðkirkjuskipulag. Annað sem vekur athygli í þessari könnun er að sá hópur í úrtakinu, sem er í Þjóðkirkjunni, er hlynntur með drjúgum meirihluta (70%) aðskilnaði ríkis og kirkju. Einnig kom fram að íbúar höfuðborgarsvæðisins eru hlynntari aðskilnaðnum en íbúar landsbyggðarinnar og er það í samræmi við fyrri kannanir.
Hver er skýringin á þessu aukna fylgi við aðskilnað? Eftirfarandi eru mögulegar ástæður:
- Fólk skilji nú í auknu mæli að trúarbrögð eigi ekki að vera fjárhagslega tengd ríkinu.
- Fólk vilji ekki reka ríkisrekna kirkju á tímum fjárhags-þrenginga.
- Fólk geri sér grein fyrir að prestar eru hálaunastétt sem kostar mikið.
- Fólk hafi lært að Þjóðkirkjan er álíka dýr og Háskóli Íslands í rekstri árlega.
- Fólk skilji að mismunun sé í kerfinu þar sem Þjóðkirkjan fær gríðarlega peninga, önnur trúfélög svolítið, en veraldleg lífsskoðunarfélög ekkert.
- Fólk vilji forgangsraða þannig að trúfélög þeirra séu ekki í forgangi og verði utan ríkisreksturs. Í netkönnun CG dagana 11-29. júlí 2008 þar sem 65% af 2102 manns 18-75 ára af öllu landinu svöruðu spurningunni; Hver eftirtalinna atriða eru að þínu mati það mikilvæg að þau séu verð þess að taka áhættu og færa fórnir fyrir?, kom í ljós að 69% völdu mannréttindamál, en í 9. sæti völdu aðeins 11% „trúarbrögðin mín“. (sjá graf hér við hliðina).
- Fólk treysti minna Þjóðkirkjunni. Skv. Þjóðarpúlsi Gallup um traust til stofnana, var traustið 55% í feb. 2006, 52% í feb. 2008, en dalaði í 41% eftir hrunið í feb. 2009. Ýmsar aðrar stofnanir misstu einnig traust, en á sama tíma hélt heilbrigðiskerfið sínu trausti á bilinu 68-73% og lögreglan á bilinu 78-80%.
- Fólk telji að trúmál séu einkamál sem ríkið eigi ekki að hafa afskipti af.
- Fólk vilji ekki að ríkið láti Þjóðkirkjuna draga úr framförum í gerð hjúskaparlaga fyrir alla, líkt og hún hefur gert endurtekið.
- Fólk innan Þjóðkirkjunnar vilji að hún standi algerlega sjálfstæð
- Fólk sjái að samningur ríkisins við Þjóðkirkjuna um launagreiðslur til presta hennar og starfsfólks biskupsstofu út á jarðeignir, út í hið óendanlega er óeðlilegur og beri að binda endi á.
- Endurtekin hneykslismál og vangeta Þjóðkirkjunnar til að greiða fljótt og örugglega úr siðferðislegum brotamálum innan hennar, valdi því að fólk telji hana ekki eiga heima hjá ríkinu.
Áreiðanlega eru fleiri ástæður og e.t.v. byggja sumar þeirra á misskilningi um eðli sambands ríkisins og Þjóðkirkjunnar. Formaður Prestafélags Íslands Ólafur Jóhannesson, sagði í viðtali við fréttastofu RÚV tengdri fréttinni um að 74% vilji nú aðskilnað að „fólk átti sig ekki á því hve mikill aðskilnaðurinn er nú þegar.“ Í framhaldinu benti hann á að ríkið hefði tekið yfir „kirkjueignir [jarðir], en greiddi í staðinn laun presta og starfsmanna biskupsstofu.“ Þessi rök halda í raun ekki því að bæði er það svo að þessi samningur er í hæsta máta óeðlilegur og að Þjóðkirkjan fær fé út úr þeim nefskatti sem sóknargjöld, jöfnunarsjóður og kirkjusjóður eru, þannig að því er frekar öfugt farið; fólk hefur áttað sig á því hversu gífurlegur fjárhagsbaggi Þjóðkirkjan er, og forréttindi hennar óviðeigandi.
Þá er það alltaf að verða deginum ljósara að Þjóðkirkjan getur aldrei orðið sameiningartákn allra landsmanna og það er hvorki sanngjarnt né æskilegt að ætlast til að hún þjónusti alla. Fólk annarrar trúar eða trúlaust, á rétt á því að leita til sinna félaga og þurfa ekki að flýja opinberar stofnanir vegna yfirgangs eins trúfélags þar (t.d. leikskólar og grunnskólar) í trúboði eða trúarlegri starfsemi.
Það er mögulegt að talsverður hluti fólks geri sér ekki vel grein fyrir gerð og umfangi lagalegra, fjárhagslegra og pólitískra tengsla ríkisins við Þjóðkirkjuna og annað hvort ofmeti eða vanmeti þau. Það gæti skýrt þær sveiflur sem hafa átt sér stað í málinu og að viðhorfið sveiflist frekar eftir því hvort að orðspor Þjóðkirkjunnar er gott eða hefur beðið nýlegan hnekki þegar spurningin er borin fram, heldur en að afstaðan byggist á grundvallarhugmynd um skipan mála.
Vonandi er þessi jákvæða útkoma nú merki um að smám saman sé það að lærast að réttindi fólks til trú- og sannfæringarfrelsis ganga ekki út á það að fara eftir vilja þeirra stærstu, ríkustu og valdamestu, heldur að tryggja jafna meðferð allra lífsskoðunarfélaga af hálfu ríkisins.
7. desember 2009.
Tölur úr könnunum og gröf eru birtar með góðfúslegu leyfi Capacent Gallup á Íslandi.F.h. stjórnar SiðmenntarSvanur Sigurbjörnsson.