Stjórn Siðmenntar samþykkti á dögunum aðgengisstefnu félagsins, en þetta er í fyrsta sinn sem slík stefna er formlega sett niður á blað. Í stefnunni er margt að finna sem við höfum þegar tileinkað okkur í starfi Siðmenntar, en með því að hafa formlega stefnu um aðgengismál viljum við gera enn betur og vera leiðandi félag þegar kemur að aðgengismálum.
Um markmið stefnunnar segir:
Siðmennt er félag fyrir siðrænna húmanista á Íslandi, óháð búsetu þeirra, fötlun, íslenskukunnáttu eða annarri jaðarsetningu.
Markmið Siðmenntar með stefnunni eru:
- Að húmanistar á Íslandi hafi aðgengi að veraldlegum valkosti í athafnaþjónustu, óháð búsetu.
- Að fötlun eða íslenskukunnátta hindri ekki aðgengi fólks að viðburðum félagsins eða tækifærum innan þess.
- Að vera til fyrirmyndar í aðgengismálum.
Við hvetjum öll til að kynna sér stefnuna vel, en hún er aðgengileg hér á vef félagsins ásamt öðrum verklagsreglum og viðmiðum í starfi félagsins.
Aksturskostnaður vegna athafna á landsbyggðinni
Stærsta nýmælið í stefnunni sem mun væntanlega snerta flesta félaga snýr að aksturskostnaði í athafnir á landsbyggðinni. Í stefnunni segir eftirfarandi:
Aksturskostnaður vegna athafna á landsbyggðinni skal niðurgreiddur til fulls af Siðmennt fyrir athafnarbeiðanda sem a) er með félagsaðild og b) óskar eftir athöfn í sinni heimabyggð (m.v. lögheimilisskráningu athafnarbeiðanda). Athafnarbeiðandi er hán sem bókar athöfn. Í tilfelli útfarar má fylgja lögheimilisskráningu athafnarbeiðanda eða hins látna eftir atvikum.
Aksturskostnaður á landsbyggðinni skal ekki niðurgreiddur í þeim tilfellum sem a) athafnarbeiðandi er ekki með félagsaðild, b) athafnarbeiðandi er ekki með lögheimili í sama byggðarlagi og athöfnin fer fram í, c) beðið er um annan athafnarstjóra en þann sem býr næst (innan eðlilegra skekkjumarka).
Það sem þetta þýðir í sem allra stystu máli er að félagar í Siðmennt sem eru búsettir utan þjónustusvæðis athafnastjóra munu ekki lengur þurfa að greiða ferðakostnað kjósi þeir að halda athafnir í sinni heimabyggð. Með þessari breytingu hafa allir húmanistar á Íslandi aðgengi að veraldlegum valkosti í athafnaþjónustu, óháð búsetu.