Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, hefur í mörg ár staðið fyrir þeirri baráttu að fá jafnrétti í trúarbragða- og siðfræðikennslu grunnskólanna en talað fyrir daufum eyrum stjórnvalda. Gagnrýni Siðmenntar hefur beinst að því að þær línur fyrir náminu sem lagðar eru fram í Aðalnámskrá grunnskólanna frá 1999 séu ekki samrýmanlegar jafnrétti lífsskoðana. Siðmennt telur að jafnvægi skorti í kennsluna og að það sé hallað á aðrar lífsskoðanir en kristni í námsefninu.
Eftirfarandi eru gallar sem ég finn á aðalnámskrá grunnskóla í kristinfræðum, siðfræði og trúarbragðafræði
Gegnumsneitt er ofuráhersla er lögð á að þekkja kristni út frá nær öllum hugsanlegum hliðum. Miklum tíma er varið frá 1. til 10. bekkjar í að fara vel yfir flestar sögur biblíunnar, og gildir þar einu hvort þær hafa eitthvað siðferðislegt gildi eða ekki.
Kynning á öðrum trúarbrögðum er aðeins á formi sagna af jafnöldrum á námsstigum 1-4. bekkjar og svo með „völdu“ efni á síðari stigum. Í tíunda bekk á nemandi að geta greint á milli trúarbragðanna sem verður þó að teljast gott.
Hvergi er minnst á að drjúgur hluti fólks (19.1% íslendinga skv. nýlegri könnun Gallup) kjósi að aðhyllast ekki nein trúarbrögð og að það þurfi að skýra frá sjónarmiðum þess fólks.
Hvergi er minnst á siðrænan húmanisma og mikilvægi hans og vísindahyggju / skynsemisstefnu í framförum og umbótum, m.a. á trúarbrögðum.
Hamrað er á því í þrepalýsingu hvers árs að gefa börnunum „tækifæri til eigin listsköpunar“ m.a. í formi leikrita og myndlistar. Listtjáning er persónuleg og það á ekki að setja börnum fyrir að tjá sig þannig um trúarleg efni.
Gert er ráð fyrir að kennslan í siðfræði miði við „kristilegt siðgæði“. Í kaflanum „Nám og kennsla“ segir: “Kristilegt siðgæði á að móta starfshætti skólans ásamt umburðarlyndi og lýðræðislegu samstarfi. …Gengið er út frá því að það sé gert í ljósi kristilegrar siðfræði.” Þessi málsgrein lýsir þröngsýni og vanþekkingu viðkomandi höfunda og samþykktaraðila á því hverju almennt siðferði byggir og hvaðan það kemur. Nútíma siðferði og mannréttindi eru runnin frá því besta sem, heimspeki, húmanismi, vísindi, rökhyggja og að nokkru hvað hin ýmsu trúarbrögð hafa kennt okkur, ekki eingöngu kristni. Í aðalnámsskrá er lagt til að setja skólanum öllum kristilegar siðareglur en það er langt út fyrir eðlilegan vettvang kristinfræðslu.
Í þrepalýsingu fyrir 5. bekk segir: „- [nemandinn] öðlist skilning á ástæðunum fyrir kristniboðs- og hjálparstarfi kristinnar kirkju og þekki til einstaklinga sem unnið hafa að því“.Með þessu er verið að persónugera kristniboð fyrir krökkunum og fara út í alltof sértæk trúarleg málefni en eðlilegt getur talist. Er ekki hjálparstarf aðskilið kristniboði?
Eitt af því sem talið er sem „Lokamarkmið“ er: “- [nemandinn] öðlist þekkingu á kristinni trú á Guð, föður, son og heilagan anda, einkum Jesú Kristi og kenningu hans, og skilji áhrif fagnaðarerindisins á einstaklinga og samfélög.” Þetta er ótrúleg klausa. Þarf hér að tiltaka hina heilugu þrenningu? Það er engu líkara en að þetta hafi verið skrifað af presti. Síðan þetta um „…áhrif fagnaðarerindisins …“. Þetta eru mjög trúarleg orð og hafa allt yfirbragð trúboðs. Texti biblíunnar er ekki „fagnaðarerindi“ í eyrum neins nema þeim sem trúa á hana.
Í þrepalýsingu fyrir 5. bekk segir “- [nemandinn] fái vitneskju um hugtakið heilagur og mismunandi merkingar þess og temji sér virðingu fyrir því sem öðrum er heilagt.” Þetta er dæmigert fyrir trúarkreddu sem stuðlar að því að setja hömlur á tjáningarfrelsi. Ég man að mér var kennt sem barni að það væri ljótt að gagnrýna trú annarra því að hún væri þeim heilög. Ég er þeirrar skoðunar í dag að það sé ekkert ósiðlegt við það að gagnrýna trú. Það þarf ekki „heilagleika“ umfram venjulega virðingu gagnvart manneskjum og umhverfi og enginn er hafinn yfir gagnrýni.
Í þrepalýsingu 6. bekkjar segir: “ – [nemandinn] þekki grundvöll kristinnar sköpunartrúar og geri sér ljósa ábyrgð mannsins á sköpunarverkinu, sjálfum sér og náunga sínum”. Maður verður hálf hræddur um börnin við þennan lestur. Hvað er átt við orðunum „..og geri sér ljósa ábyrgð mannsins á sköpunarverkinu“? Hér er verið að setja inn „sköpunarverkið“ sem staðreynd og notað í stað orðsins „heimurinn“ eins og ekkert sé sjálfsagðara! Kom sköpunarsinni að samningu þessarar aðalnámsskrár?
Eftir lestur þessa kafla aðalnámsskrár er mér ljóst að hún leggur ekki grunninn fyrir jafnrétti í trúarbragðafræðslu grunnskólanna og hún lyktar af trúboði sem ekki er sæmandi á nýju árþúsundi. Ítarleg þekking á sögum biblíunnar er ekki forsenda siðferðisþroska eða menningarvitundar. Börn okkar þurfa að læra meira um menningu annarra heimsálfa, ólík trúarbrögð, heimspeki, rökhyggju og siðrænan húmanisma. Heimsspeki ætti að vera í aðalhlutverki námsefnisins, ekki hornreka. Losa þarf um tak þjóðkirkjunnar á aðalnámsskrá – hún er bara einn af þáttakendunum á vettvangi lífsskoðana og ætti ekki að fá að setja sjálfmiðað efni í grunnskólana.
Svanur Sigurbjörnsson