Fyrir 10 árum síðan var gerð lagabreyting sem gerði lífsskoðunarfélögum kleift að fá hlutdeild í sóknargjöldum og að hafa vígsluréttindi. Siðmennt öðlaðist þessi réttindi þann 3. maí 2013 og átti félagið 10 ára afmæli í gær sem opinbert lífsskoðunarfélag með sömu réttindi og skráð trúfélög.
Sóknargjöldin renna til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga, og eru innheimt af öllum einstaklingum 16 ára og eldri. Sé viðkomandi skráður í eitthvað trú- eða lífsskoðunarfélag rennur gjaldið til þess, ef ekki þá rennur það beint til ríkissjóðs. Sóknargjöldin fyrir árið 2023 eru kr. 1.192 per einstakling á mánuði og reiknast út frá meðlimaskráningu 1. desember undanliðins árs.
Um síðustu áramót voru Íslendingar 388 þúsund talsins, af þeim voru 227 þúsund í Þjóðkirkjunni, 30 þúsund utan félags og 5.400 í Siðmennt.
Siðmennt, sem er þekktast fyrir borgaralegar fermingar, býður jafnframt upp á veraldlegar nafngiftir, giftingar og jarðarfarir fyrir þá sem það kjósa auk þess að halda minni viðburði, taka þátt í alþjóðlegu félagsstarfi og styðja við ýmis góð málefni. Starfsemi félagsins er að langmestu leyti rekin með fyrrnefndum sóknargjöldum og sjálfboðavinnu góðra einstaklinga og hefur á þessum rekstrargrundvelli náð að vaxa og dafna frá því að það var stofnað.
Þau sóknargjöld sem Siðmennt fær úr ríkissjóði eru ekki háar upphæðir í stóra samhenginu og til þess að hægt verði að halda áfram frekari uppbyggingu á starfsemi félagsins og bjóða upp á enn meiri þjónustu eins og námskeið, sumarbúðir og sálgæslu þarf áframhaldandi fjölgun þeirra sem kjósa að fyrrgreint gjald fari í að styðja við Siðmennt.
Lítið mál er að breyta sinni skráningu í Þjóðskrá. Aðgerðin er gjaldfrjáls og hefur engin áhrif á regluleg útgjöld. Einfaldasta leiðin er að fara inn á heimasíðu Þjóðskrár og velja: Fólk -> Trú- og lífsskoðun -> Breyting á skráningu.
https://www.skra.is/folk/tru-og-lifsskodun/breyting-a-skraningu/