Fara á efnissvæði

Framboð til stjórnar

Í lögum Siðmenntar segir:
5.1 Stjórn skipa fimm félagsmenn og tveir til vara. Kjósa skal í stjórn, ráð, nefndir og aðrar trúnaðarstöður innan félagsins árlega nema formann. Skal kjörtímabil formanns vera tvö ár. Formaður er kosinn sérstaklega, þá annað fólk í stjórn og loks varamenn. Önnur embætti innan stjórnar eru: varaformaður, gjaldkeri, ritari og meðstjórnandi. Ef fleiri eru í kjöri en fjöldi í stjórn segir til um skal viðhafa leynilega kosningu.

 

Borist hafa þrjú framboð til formanns, fimm framboð í aðalstjórn og þrjú í varasæti.

Eftirfarandi frambjóðendur gefa kost á sér:

Framboð til formennsku

Formaður Siðmenntar skal kjörinn annað hvert ár.

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir

Kæru vinir!

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til formanns Siðmenntar. Ég er 43 ára lögfræðingur, húmanisti og móðir. Ég hef verið virkur félagi í Siðmennt um árabil, flutti hugvekju við setningu Alþingis árið 2013 og hef verið félaginu innan handar og ljáð því þekkingu mína og rödd í gegnum árin, sem lögfræðingur og síðar sem alþingismaður.

Hvatinn að framboði mínu til formanns Siðmenntar nú er fyrst og fremst staða mennsku og mannréttinda í heiminum, vaxandi ásókn andhúmanískra afla, aukin sundrung, útskúfun og afmennskun, sem að mínu mati kallar á styrkari samstöðu okkar sem trúum á manneskjuna og hið mennska, okkar sem höfum húmaníska hugsjón.

Lykillinn að friði og frelsi fólks eru mannréttindi. Ein mikilvægustu mannréttindin okkar er frelsið til að hugsa og til að mynda okkur skoðun, frelsið til að trúa því sem gefur lífinu okkar gildi: Hugsana-, skoðana- og trúfrelsið. En öll spila þau saman, mannréttindin, og trúfrelsið er lítils virði án tjáningarfrelsisins, frelsis okkar til að koma saman, til að sameinast um gildin okkar, og frelsisins til að eiga samtal um þau.

Staða mennskunnar í heiminum kallar að mínu mati á virkara samtal á milli ólíkra aðila um það sem gerir okkur að manneskjum og þau gildi sem það kallar á. Ég held að lykillinn að því að stöðva þessa þróun og snúa henni við, sé að við sem eigum þessi gildi sameiginleg, tökum höndum saman. Það sem ég myndi vilja gera sem formaður Siðmenntar væri að setja kraft í að byggja brýr á milli ólíkra lífsskoðunarfélaga og sameinast um það sem við eigum sameiginlegt, því að því stafar ógnin.

Ég er lögfræðingur að mennt, sérhæfð í mannréttindum og með hálfkláraða doktorsgráðu í trúfrelsi sérstaklega. Fyrri meistararitgerðin mín var á sviði réttarheimspeki en sú síðari á sviði mannréttinda og fjallaði um trúfrelsi í Evrópu. Ég starfaði lengst af hjá Rauða krossinum og veitti þar lögfræðilega aðstoð við hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi. Þá hef ég unnið á Barnaverndarstofu, í ráðuneytum og síðast sem alþingismaður fyrir Pírata.

Ég er dugleg, hef bæði gaman af og á gott með að vinna með allskonar fólki með ólíkan bakgrunn, hef mikla reynslu af því að koma fram (hvort sem er í ræðu eða söng), af samtölum og samningaviðræðum við fólk á öllum sviðum samfélagsins. Ég er lausnamiðuð, jákvæð og atorkusöm. Ég hef einlæga trú á því að ég gæti unnið félaginu Siðmennt, verkefnum þess og málstað mikið gagn, nái ég kjöri sem formaður.

Hlakka til að vinna með ykkur!

 

Sigurður Rúnarsson

Engin maður, kona eða kvár eiga kröfur eða rétt á neinu fyrirfram - hvorki sæti í stjórn Siðmenntar né leiðtogahlutverki í formennsku fyrir félagið. Það á 100% við mig líka. 

Ég hef nú starfað innan stjórnar Siðmenntar frá árinu 2021 og hef verið endur- eða sjálfkjörinn síðan árlega. Síðasta árið hef ég verið varaformaður stjórnar Siðmenntar við hlið öflugrar konu sem hér hefur verið leiðtogi okkar frá 2019.

Ég tel að reynsla mín af uppbyggingu innra starfs Siðmenntar síðustu árin auk fyrri reynslu frá stjórnarsetu í HEF - systursamtökum Siðmenntar í Noregi - geri mér kleift lenda hlaupandi í leiðtogahlutverk og leiða starf húmanista á Íslandi næstu árin. 

Það er vegna þessa sem ég býð mig fram til formennsku í Siðmennt núna og leita eftir stuðningi og atkvæði ykkar kæru félagar á aðalfundi sem haldin verður þann 1. mars næstkomandi.

Aðeins um mig

Ég er tæplega 51 árs og alinn upp að mestu í Reykjavík og hef verið félagi í Siðmennt frá 2012. Hef verið athafnarstjóri hjá félaginu frá hausti 2013 auk þess sem ég starfaði einnig sem athafnastjóri í Noregi hjá HEF - systursamtökum Siðmenntar í Noregi í 2 ár.  

Í Noregi sat ég auk þess áður í stjórn tveggja félaga HEF (Drammen og Buskerud) um 3 ára skeið og hef reynslu og áhuga á uppbyggingu lífskoðunarfélaga bæði landshluta og á landsvísu.

Ég hef nú setið í stjórn Siðmenntar frá 2021 og nú síðasta árið hef ég verið varaformaður félagsins. Þar sem ég hef enn mikinn áhuga á starfi, tilgangi og stöðu Siðmenntar í íslensku samfélagi að þá langar mig áfram til að leggja mitt á vogarskálarnar til að styrkja og byggja upp félagið næstu árin. 

Í störfum mínum fyrir félagið mun ég vilja leggja áherslu á að efla húmanískt starf á Íslandi, vinna að því að efla mannréttindi, jafnrétti og umburðarlyndi. Ég vil bæta sýnileika og kynningu Siðmenntar í samfélaginu og fjölga félögum með fræðslu og jákvæðri umfjöllun um Siðmennt. Það er einnig skoðun mín að athafnir Siðmenntar eigi að vera fallegur og virðulegur valkostur þegar kemur að stóru viðburðunum í lífi einstaklinga og fjölskyldna. 

Ég hef persónulega mikinn áhuga á tungumálum, sagnfræði og mannfræði ásamt tölvu- og upplýsingatækni. Ég tel að reynsla mín af félagsstörfum, starfinu og lífinu öllu geti komið félaginu áfram til góða og óska því eftir stuðningi ykkar í  á aðalfundinum. 

 

Svanur Sigurbjörnsson

Sæl kæru félagar í Siðmennt

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til formennskunnar og vil hér kynna mig og það sem ég stend fyrir.

Ástæður þess að ég fer fram eru þær að: ég vil stuðla að frekari þróun og uppbyggingu félagsins; ég hef langan og ríkulegan bakgrunn úr innsta starfi félagsins; og ég tel mig hafa þá siðferðilegu sýn, dómgreind og víðtæka félagslega þekkingu sem gera mig hæfan til að axla ábyrgð stöðunnar.

Stefnumið. Til þróunar ofan á þá kjarnastarfsemi sem er fyrir hjá félaginu, vil ég leggja til að efnt verði til frekari uppbyggingar á fræðslu- og menntunarstarfi á sviði siðfræði og gagnrýninnar hugsunar, auk víðtækara frumkvæðis félagsins til að stofna til siðferðilegrar umræðu í samfélaginu, á fjölbreyttum vettvangi.

Húmanísk sýn. Í húmanismanum er samanofið hið siðferðilega, hið vitræna og hið fagra í mannlífinu, í sátt við náttúru og lífríki jarðar, sem á erindi við allt fólk, enda er hann byggður á virðingu við sammannleg gildi sem eiga sér ekki landamæri. Ég vil stuðla að eflingu gagnrýninnar hugsunar í anda siðferðilegrar raunhyggju sem er undirstaða húmanismans. Með þessi meginviðmið vil ég leiða málefnalegt starf hjá félaginu.

Ég lít ekki á framboðið sem keppni til að ná sæti heldur boð mitt til félagsmanna um að nýta krafta mína, góðan vilja, þekkingu og dómgreind í þágu félagsins. Ég mun hafa tíma fyrir það vinnuframlag sem formannshlutverkið krefst. Framboð mitt er sjálfsprottið, óháð og sett fram í anda lýðræðis.

Nánar:

- Stefnumið til uppbyggingar: Auk áframhaldandi styrkingar tveggja meginstólpanna, ferminganna og athafnaþjónustunnar, vil ég byggja upp þriðja þáttinn; hugmynda-, umræðu- og fræðslustarfsemi félagsins og gera að þriðja meginstólpa félagsins. Hér er ég að tala um fræðslu- og kennsluprógrömm í siðfræði og gagnrýninni hugsun fyrir bæði ungmenni og fullorðna. Ég hef sérhæft mig í þessu sviði undanfarinn áratug (BA og MA nám), kenni fagið við HÍ og er með hagnýtt fræðirit í smíðum um efnið. Þetta efni má útfæra fyrir ýmsa aldurshópa og ég vil kalla til liðs við félagið menntað fólk á þessu sviði.

- Bakgrunnur með félaginu: Árið 2005 kynntist ég öflugum kjarnanum í félaginu og gekk til liðs við stjórnina. Í 8 ár gegndi ég ýmsum hlutverkum innan hennar og lagði til hugmyndavinnu. Fyrir aðalfund 2006 samdi ég uppfærslu á lögum félagsins þar sem það var fyrst skilgreint sem lífsskoðunarfélag. Ég undirbjó athafnatexta, skipulag, umgjörð, kennslu og kynningarefni athafnaþjónustu félagsins sem stofnuð var 29. maí 2008. Í framhaldinu hélt ég utan um framkvæmdina í 5 ár og kenndi fyrstu 7 námskeiðin í athafnarstjórnun fram til 2017 og hið 8. með öðrum árið 2018. Ég lagði til fjölmargra texta í baráttunni fyrir frelsi frá trúaráróðri í skólum og laga um lífsskoðunarfélög, skipulagði kynningarferðir, málþing, var gjaldkeri, ljósmyndaði, kenndi í BF, og fleira. Á aðalfundi 2017 fékk ég skjal með áletruninni „Sérstakar þakkir frá Siðmennt – Svanur Sigurbjörnson“ fyrir félagsstörfin. Utan félagsins hef ég lagt mikið til baráttunnar gegn gervivísindum.

- Siðferðileg sýn, dómgreind og félagsleg þekking: Frá æsku hef ég ávallt leitað í félagsstarf og viljað bæði hrærast í þeirri örvandi deiglu sem það gefur og skila mínu til samfélagsins. Leiðarstef mitt í félagsstarfi er að hin góðu sammannlegu markmið þess ráði ferðinni en ekki persónulegur ávinningur. Niðurstöður mála eiga að byggja á bestu rökum til þjónustu dýrmætustu gilda okkar. Formaður þarf að hafa yfirsýn, útdeila, virkja, þjóna og leiða. Frumskylda hans er að forða frá skaða en það er ekki nóg því til viðbótar þarf að þróa, bæta og efla starfsemina í átt að verðugum markmiðum þess.

Ég hvet ykkur, góðir félagsmenn, til þátttöku í stjórnarkjörinu því valið á að spretta af áhuga ykkar og ábyrgð á því hvaða fólk leiðir stefnumálin fremur en vilja frambjóðenda. Nái ég kjöri hlakka ég til að starfa með öllu því góða fólki sem velst til starfa hjá félaginu.

 – Kær kveðja, Svanur.

Framboð í aðalstjórn

Í aðalstjórn eru fjögur sæti

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir

Ég er 43 ára lögfræðingur, húmanisti og móðir. Ég hef verið virkur félagi í Siðmennt um árabil, flutti hugvekju við setningu Alþingis árið 2013 og hef verið félaginu innan handar og ljáð því þekkingu mína og rödd í gegnum árin, sem lögfræðingur og síðar sem alþingismaður.

Hvatinn að framboði mínu er fyrst og fremst staða mennsku og mannréttinda í heiminum, vaxandi ásókn andhúmanískra afla, aukin sundrung, útskúfun og afmennskun, sem að mínu mati kallar á styrkari samstöðu okkar sem trúum á manneskjuna og hið mennska, okkar sem höfum húmaníska hugsjón.

Lykillinn að friði og frelsi fólks eru mannréttindi. Ein mikilvægustu mannréttindin okkar er frelsið til að hugsa og til að mynda okkur skoðun, frelsið til að trúa því sem gefur lífinu okkar gildi: Hugsana-, skoðana- og trúfrelsið. En öll spila þau saman, mannréttindin, og trúfrelsið er lítils virði án tjáningarfrelsisins, frelsis okkar til að koma saman, til að sameinast um gildin okkar, og frelsisins til að eiga samtal um þau.

Staða mennskunnar í heiminum kallar að mínu mati á virkara samtal á milli ólíkra aðila um það sem gerir okkur að manneskjum og þau gildi sem það kallar á. Ég held að lykillinn að því að stöðva þessa þróun og snúa henni við, sé að við sem eigum þessi gildi sameiginleg, tökum höndum saman. Það sem ég myndi vilja gera sem stjórnarmeðlimur Siðmenntar væri að setja kraft í að byggja brýr á milli ólíkra lífsskoðunarfélaga og sameinast um það sem við eigum sameiginlegt, því að því stafar ógnin.

Ég er lögfræðingur að mennt, sérhæfð í mannréttindum og með hálfkláraða doktorsgráðu í trúfrelsi sérstaklega. Fyrri meistararitgerðin mín var á sviði réttarheimspeki en sú síðari á sviði mannréttinda og fjallaði um trúfrelsi í Evrópu. Ég starfaði lengst af hjá Rauða krossinum og veitti þar lögfræðilega aðstoð við hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi. Þá hef ég unnið á Barnaverndarstofu, í ráðuneytum og síðast sem alþingismaður fyrir Pírata.

Ég er dugleg, hef bæði gaman af og á gott með að vinna með allskonar fólki með ólíkan bakgrunn, hef mikla reynslu af því að koma fram (hvort sem er í ræðu eða söng), af samtölum og samningaviðræðum við fólk á öllum sviðum samfélagsins. Ég er lausnamiðuð, jákvæð og atorkusöm. Ég hef einlæga trú á því að ég gæti unnið félaginu Siðmennt, verkefnum þess og málstað mikið gagn, nái ég kjöri í stjórn.

Hlakka til að vinna með ykkur!

 

Erla Sigurlaug Sigurðardóttir

Kæru félagar í Siðmennt.

Ég býð mig hér með fram sem aðalmann í stjórn Siðmenntar, á aðalfundi sem fram fer þann 1. mars nk.

Ég heiti Erla Sigurlaug (kvk) og er 48 ára Hafnfirðingur en líka smá heimsborgari. Ég varð félagi í Siðmennt árið 2018 og lauk námskeiði fyrir nýja athafnastjóra 2022 og hef síðan verið virk sem athafnastjóri félagsins. Ég er með grunn háskólagráðu í mannfræði, master í Friðarfræði frá Ástralíu og einnig í Forystu og stjórnun frá Bifröst. Mér finnst svo gaman að læra og snerta á mörgum ólíkum flötum. Ég hef starfað við ýmislegt, allt frá mannúðarmálum í Nicaragua og í Kyrrahafinu, sem blaðamaður og í markaðs- og kynningarmálum. Í dag starfa ég í ferðageiranum og sem hjólreiðaþjálfari, auk þess sem ég er ötul í að sinna ástinni og gifta pör úti í náttúrunni.

Ég hef setið í aðalstjórn Siðmenntar núna í eitt ár og langar að halda áfram með það góða starf sem félagið vinnur að. Ég hef mikinn áhuga á menningu í sinni víðustu mynd, og hjartað slær fyrir mannfrelsi, réttindum og friði og tel að áhugi minn og reynsla muni koma Siðmennt áfram til góða. Mér finnst ég í raun rétt nýbyrjuð þegar stjórnarárið er nú liðið og finn köllun um að halda áfram með húmanísku málefnin og verkefnin fyrir Siðmennt. Þetta ár með stjórninni hefur liðið hratt, með fjölmörgum fundum, verkefnum og viðburðum og svo margar nýjar spennandi áherslur framundan. Ég vil halda áfram að efla Siðmennt sem virkt húmanískt félag og tel brýnt að auka sýnileika þess meðal bæði almennings og ráðafólks, með því að halda húmanískum gildum á lofti og hafa veruleg og jákvæð áhrif í samfélaginu. Því óska ég eftir stuðningi ykkar á aðalfundinum þann 1. mars nk.

Með góðri kveðju,

Erla Sigurlaug

Elsa Björg Magnúsdóttir

Komið þið sæl,

Ég hef hug á að bjóða mig fram til stjórnar Siðmenntar. Í fyrsta lagi vegna þess að ég tel að starfsemi félagsins sé dýrmæt og uppbyggileg fyrir okkar góða samfélag og í öðru lagi vegna þess að ég tel mig hafa ágætan bakgrunn og reynslu til þess að leggja mitt af mörkum.

Hugmyndafræði Siðmenntar er í samhljómi við minn eigin skilning á tilvistinni, það er þessi óseðjandi forvitni um lífið, tilgang, hamingju, ást, réttlæti, sanngirni. Það eru stóru spurningarnar og svör okkar við þeim á hverjum tíma sem skapa þau sammannlegu gildi sem samfélagið er reist á.

Skilningur okkar á heiminum og gildismat þarfnast sífelldrar endurskoðunar og frjálsra rökræðna; sem eru háðar á leiksviði mannfólksins en ekki yfirnáttúrulegra afla.

Hið mannlega sjónarsvið gefur frelsi til að hugsa sjálfstætt sem er kjarninn sem Siðmennt byggir á.

Ég hygg mig hafa heilmikið fram að færa til þess að vinna að áframhaldandi brautargengi Siðmenntar. Meðal þess sem ég get lagt á vogarskálarnar eru drifkraftur, samviskusemi, skapandi hugsun og viðamikil reynsla meðal annars sem stjórnarmaður í Félagi heimspekikennara, formaður Félags áhugamanna um heimspeki og sem leiðbeinandi í Borgaralegri fermingarfræðslu Siðmenntar.

Ég nam heimspeki til B.A. prófs við Háskóla Íslands og heimspeki og ítölsku við Háskólann í Feneyjum. Einnig hef ég lokið M.A. prófi í siðfræði við King‘s College í Lundúnum og diplóma í kennslufræðum við Kennaraháskólann. Rauði þráðurinn í námi mínu er stjórnmálaheimspeki og siðfræði, en B.A. ritgerð mín fjallaði um John Rawls og tilurð réttlætiskenndar og M.A. ritgerð mín hverfðist um fegurðina sem siðferðilegt gildi náttúrunnar.

 

Virðingarfyllst,

Elsa Björg Magnúsdóttir

Kristrún Ýr Einarsdóttir

Kæru félagar Siðmenntar

Ég heiti Kristrún og er 43 ára. Síðasta ár hef ég setið í stjórn Siðmenntar og það hefur verið ótrúlega lærdómsríkt og áhugavert fyrir mína parta. 

Mig langar því að bjóða mig fram til áframhaldandi setu í stjórn félagsins okkar og fá að halda áfram að læra meira af öllu því frábæra fólki sem leggur hjartað sitt í að byggja upp félagið og vonandi að fá að gefa eitthvað til baka af mér sjálfri áfram. 

Ég gerðist félagi í Siðmennt árið 2013 og hef sinnt hlutverki athafnastjóra frá 2016. Það hefur verið mér dýrmæt reynsla að fá að taka þátt í starfi félagsins sem og að fá að vera lítill partur af því að byggja upp athafnþjónustuna og fá að vera partur af dýrmætum stundum í lífi fólks. 

Félagið okkar hefur mikilvægu hlutverki að gegna í samfélaginu. Húmanismi er mér hjartans mál og Siðmennt hefur gefið mér tækifæri til að taka þátt í skemmtilegum verkefnum eins og t.d. tengdum sálgæslu í Utrecht í Hollandi sem og á alþjóðaráðstefnuna í Kaupmannahöfn 2023 auk allskonar fræðslu og fyrirlestra sem félagið hefur staðið fyrir. 

Í gegnum Siðmennt hef ég fengið tækifæri til að læra og fræðast svo ótrúlega mikið sem hefur hjálpað mér persónulega en ekki síst faglega faglega í starfi. 

Fyrir utan það að vera húmanisti þá hef ég nýlokið BS gráðu í sálfræði og vinn á Stuðlum, meðferðarheimili ríkisins fyrir unglinga. Í því starfi er ég daglega minnt á mikilvægt þess að leggja sitt af mörkum við að byggja upp sterkara samfélag sem er byggt á samkennd, virðingu, vísindum sem og gagnrýnni og skapandi hugsun. Helstu gildum húmanista.

Ég hef notið þess að taka þátt í starfi stjórnar á liðnu ári, og langar til að halda áfram að vinna að því að efla félagið, auka sýnileiks þess og styðja við þau verkefni sem við höfum unnið að og fram undan eru.

 Ég vil halda áfram að leggja áherslu á að styrkja starfsemi félagsins enn frekar, fjölga tækifærum til samtals og fræðslu og efla tengsl okkar við aðra húmanista innanlands og erlendis.

Það er að mínu mati frábært að fá svona tækifæri eins og þetta til að vinna með Siðmennt og ég hvet sem öll sem hafa áhuga til að bjóða sig fram í þau hlutverk sem nú þarf að fylla upp í og leggja þannig ykkar að mörkum til að stuðla að betri samfélagi fyrir okkur öll.

Ef einhver hefur spurningar svara ég öllu eftir bestu vitund og getu hverju sinni hvort sem er hér í athugasemdum, skilaboðum eða í eigin persónu. 

Takk fyrir mig ❤️

Sigurður Rúnarsson

Kæru félagar. 

Ég er hann Siggi og býð mig hér með aftur fram sem aðalmann í stjórn Siðmenntar á aðalfundi sem fram fer þann 1. mars næstkomandi.

Ég er tæplega 51 árs og alinn upp að mestu í Reykjavík og hef verið félagi í Siðmennt frá 2012. Hef verið athafnarstjóri hjá félaginu frá hausti 2013 auk þess sem ég starfaði einnig sem athafnastjóri í Noregi hjá HEF - systursamtökum Siðmenntar í Noregi í 2 ár.  

Í Noregi sat ég auk þess áður í stjórn tveggja félaga HEF (Drammen og Buskerud) um 3 ára skeið og hef reynslu og áhuga á uppbyggingu lífskoðunarfélaga bæði landshluta og á landsvísu.

Ég hef nú setið í stjórn Siðmenntar frá 2021 og nú síðasta árið hef ég verið varaformaður félagsins. Þar sem ég hef enn mikinn áhuga á starfi, tilgangi og stöðu Siðmenntar í íslensku samfélagi að þá langar mig áfram til að leggja mitt á vogarskálarnar til að styrkja og byggja upp félagið næstu árin. 

Í störfum mínum fyrir félagið mun ég vilja leggja áherslu á að efla húmanískt starf á Íslandi, vinna að því að efla mannréttindi, jafnrétti og umburðarlyndi. Ég vil bæta sýnileika og kynningu Siðmenntar í samfélaginu og fjölga félögum með fræðslu og jákvæðri umfjöllun um Siðmennt. Það er einnig skoðun mín að athafnir Siðmenntar eigi að vera fallegur og virðulegur valkostur þegar kemur að stóru viðburðunum í lífi einstaklinga og fjölskyldna. 

Ég hef persónulega mikinn áhuga á tungumálum, sagnfræði og mannfræði ásamt tölvu- og upplýsingatækni. Ég tel að reynsla mín af félagsstörfum, starfinu og lífinu öllu geti komið félaginu áfram til góða og óska því eftir stuðningi ykkar í  á aðalfundinum. 

Með kveðju,

Sigurður Rúnarsson 

Framboð til varastjórnar

Í varastjórn eru tvö sæti. Eftirfarandi framboð hafa borist:

  • Árni Grétar Jóhannsson
  • Helga Bára Bragadóttir
  • Mörður Árnason

Helga Bára Bragadóttir

Kæru félagar

Ég býð mig  fram sem varamann í stjórn Siðmenntar. 

Ég er menntuð í mannfræði, kennslu og verkefnastjórnun með áherslu á ágreiningslausnir og þróunarsamvinnu. Ég hef að mestu starfað á sviði fræðslu og þróunarmála, bæði á Íslandi og sunnan miðbaugs. Áður voru sumarstörfin m.a. að tína jarðarber í Skotlandi, og afgreiða kaffi í Færeyjum. Sjálfboðastörf hjá Rauða krossinum hafa einnig verið stór þáttur í  mínu lífi. Verkefnin voru allt frá  heimsóknum í fangelsi yfir í félagsstörf með innflytjendum, en einnig stjórnarstörf. 

Árið 2014 bættist Siðmennt í tilveruna mína og er nú mikilvægur hluti hennar. Ég hef komið að ýmsum verkefnum, s.s verið athafnastjóri og komið að þjálfun nýrra athafnastjóra, rýnt ársreikninga sem skoðunarmaður reikninga, verið varamaður í stjórn, - og almennt aðstoðað við fjölbreytta viðburði og verkefni á þeim rúma áratug sem liðinn er.

Starf Siðmenntar er mikilvægt og verður ekki til án fólksins sem kemur að því, - og já hluti af því er að vera varamaður í stjórn. Ég hef sinnt því hlutverki síðastliðin tvö ár af mikilli ánægju. Þar hefur fjölbreyttur bakgrunnur minn komið að notum bæði í smáu og stóru. Ég sé það sem mikil forréttindi ef ég fengi að halda áfram að gefa félaginu tíma minn og orku sem varamaður í stjórn. 

Með kveðju, Helga Bára

 

Mörður Árnason

Sæl ‒ hef áhuga á að starfa í stjórn Siðmenntar 2025‒26 sem varamaður. Hef verið í þeirri stöðu þrjú síðustu tímabil og held ég geti áfram orðið að gagni. Auk almennra stjórnarverka hef ég aðallega verið látinn fást við texta ‒ og þýddi meðal annars Amsterdamyfirlýsinguna frá 2022, sem var ánægjulegt verk. Ég hef líka verið fulltrúi félagsins í svokölluðum Samráðsvettvangi trúfélaga og lífsskoðunarfélaga ‒ sem einmitt verða stofnuð sem formleg samtök núna fimmtudaginn 20. febrúar í Ráðhúsinu.

Ég hef verið ánægður með starfið að undanförnu ‒ en núna er kominn tími til að halda fleiri fundi fyrir félaga og almenna áhugamenn og efast meira á kránni. Fyrir utan stöðuga lífsgleði og karaókí !