Fara á efnissvæði

Aðgengisstefna

Markmið og tilgangur

Siðmennt er félag fyrir siðrænna húmanista á Íslandi, óháð búsetu þeirra, fötlun, íslenskukunnáttu eða annarri jaðarsetningu. 

Markmið Siðmenntar eru…

  • ...að húmanistar á Íslandi hafi aðgengi að veraldlegum valkosti í athafnaþjónustu, óháð búsetu.
  • ...að fötlun eða íslenskukunnátta hindri ekki aðgengi fólks að viðburðum félagsins eða tækifærum innan þess.
  • ...að vera til fyrirmyndar í aðgengismálum.

Stjórn og starfsfólk

Samsetning stjórnar

Leitast skal við að ávallt sitji fulltrúi landsbyggðarinnar í stjórn Siðmenntar. Bjóða skal upp á fjarfundarmöguleika á stjórnarfundum og skal fulltrúum af landsbyggðinni gefinn kostur á að taka þátt í staðfundi á kostnað Siðmenntar allt að fjórum sinnum á ári. Þátttaka stjórnarmeðlima með búsetu utan höfuðborgarsvæðis á stórviðburðum félagsins, svo sem á aðalfundi, skal niðurgreidd að fullu. 

Húsnæði og aðstaða

Leigi eða eigi Siðmennt húsnæði til skrifstofustarfsemi skal það tryggt að starfsfólk, sjálfboðaliðar, þjónustuþegar, félagar og aðrir gestir eigi þess kost að komast hindrunarlaust í og um húsnæði Siðmenntar, þar með talið í skrifstofurými, fundarherbergi og á salerni. Leitast skal við að taka fullt tillit til einstaklingsbundinna þarfa fatlaðs starfsfólks, fatlaðra sjálfboðaliða og gesta og leysa þau vandamál sem upp kunna að koma í því sambandi.

Jöfn tækifæri

Hverskonar fatlanir skulu ekki hindra það að starfsmaður sé ráðinn til starfa fyrir félagið, hvort heldur sem er til fastrar vinnu eða verktakastarfa, svo sem við athafnarstjórnun eða leiðbeinendastörf í fermingarfræðslu. Tryggt skal að fatlað fastastarfsfólk eigi kost á vinnuaðstöðu við þeirra hæfi. Ef þörf er á sérlausnum sem ekki eru til staðar skal leitast við að laga þær að þörfum viðkomandi.

Viðburðir

Opnir viðburðir á vegum Siðmenntar

Opnir viðburðir á vegum Siðmenntar teljast þeir viðburðir sem eru í nafni félagsins og eru opnir annað hvort almenningi eða félögum. Til opinna viðburða teljast til dæmis opnir félagsfundir, ráðstefnur og málþing.

 

  1. Leita skal allra leiða við að halda aðeins opna viðburði á stöðum þar sem aðgengi er fyrir hreyfihamlaða. 
  2. Ávallt skal taka fram hvernig aðgengismálum er háttað í auglýsingu fyrir viðburð á vef Siðmenntar eða samfélagsmiðlum, hvort sem þeim er ábótavant eður ei.
  3. Ávallt skal gefinn kostur á að óska eftir túlkaþjónustu með fyrirvara og skal félagið standa straum af túlkun yfir á táknmál og/eða ensku.
  4. Ef stærð salar og fjöldi gesta leiðir af sér að heyrnarskert fólk gæti átt erfitt með að heyra það sem fram fer, skal nota hljóðkerfi.

 

Lokaðir viðburðir á vegum Siðmenntar

Lokaðir viðburðir á vegum Siðmenntar teljast þeir viðburðir sem eru fyrir afmarkaðan hóp sjálfboðaliða, félaga, þjónustuþega eða annarra samstarfsaðila þar sem hópurinn er fyrirfram þekktur og afmarkaður. Til lokaðra viðburða teljast til dæmis aðalfundur, hópfermingar, fermingarfræðsla athafnarstjórafundir, leiðbeinendafundir, vísindaferðir, þjálfun og fræðsluviðburðir fyrir félaga eða fulltrúa.

 

Aðgengi fatlaðra

Leitast skal við að halda lokaða viðburði á stöðum þar sem aðgengi er fyrir hreyfihamlaða. Ávallt skal tekið fram hvernig aðgengismálum er háttað við kynningu á viðburðinum og fundargestum gefinn kostur á að óska eftir upplýsingum, breytingu á staðsetningu og túlkaþjónustu. 

Jafnræði óháð búsetu

  • Ef viðburður er þess eðlis að unnt er að bjóða upp á fjarfund eða streymi skal boðið upp á það.  
  • Félagið skal niðurgreiða að hluta ferðakostnað félaga á aðalfund félagsins. Niðurgreiðslan skal kynnt og félögum gefinn kostur á að sækja um hana. 
  • Félagið skal standa straum af ferðakostnaði lykilsjálfboðaliða eða annarra fulltrúa félagsins á fundi er varða þá starfssemi sem fulltrúinn er þátttakandi í, svo sem á athafnarstjórafundi, leiðbeinendafundi eða stjórnarfundi. 

Viðburðir í samstarfi við önnur félög, fyrirtæki eða stofnanir

Siðmennt skal hafa frumkvæði að því að leitast sé við að hafa aðgengismál í lagi á þeim viðburðum sem félagið kemur að en eru ekki beinlínis í nafnið félagsins. Fundarhaldarar skulu hvattir til þess að tilgreina aðgengismál í auglýsingu og leita úrbóta ef þeirra er þörf.

 

Athafnir

Aðgengi fatlaðra

Persónulegar athafnir þjónustuþega (þ.e. aðrar athafnir en hópfermingar) teljast ekki til viðburða í nafni Siðmenntar og eru aðgengismál á ábyrgð þjónustuþega. Athafnarstjórar skulu þó vera meðvitaðir um það að nota hljóðkerfi ef stærð athafnarstaðar, fjöldi gesta og umhverfishljóð eru talin geta haft þær afleiðingar að fólk með skerta heyrn geti illa greint það sem fram fer. 

Táknmálstúlkun

Siðmennt stendur straum af kostnaði við táknmálstúlkun í athöfnum, óski athafnarbeiðendur eftir því með fyrirvara. Athafnarstjóri skal hafa frumkvæði að því að gera texta (athafnarhandrit og lagatexta) aðgengilega fyrir túlka með eins góðum fyrirvara og unnt er. 

Aksturskostnaður vegna athafna á landsbyggðinni

Aksturskostnaður vegna athafna á landsbyggðinni skal niðurgreiddur til fulls af Siðmennt fyrir athafnarbeiðanda sem a) er með félagsaðild og b) óskar eftir athöfn í sinni heimabyggð (m.v. lögheimilisskráningu athafnarbeiðanda). Athafnarbeiðandi er hán sem bókar athöfn. Í tilfelli útfarar má fylgja lögheimilisskráningu athafnarbeiðanda eða hins látna eftir atvikum. 

 

Aksturskostnaður á landsbyggðinni skal ekki niðurgreiddur í þeim tilfellum sem a) athafnarbeiðandi er ekki með félagsaðild, b) athafnarbeiðandi er ekki með lögheimili í sama byggðarlagi og athöfnin fer fram í, c) beðið er um annan athafnarstjóra en þann sem býr næst (innan eðlilegra skekkjumarka). 

 

Stafrænt aðgengi

  1. Unnið skal að því að bæta aðgengi að upplýsingum með tilliti til þeirra sem búa við skerta færni af einhverjum toga.
  2. Ganga þarf úr skugga um að öll tækni vefsíðu félagsins fylgi stöðlum, tryggja þarf að framtíðartækni og hjálpartæki sem notendur nýta sér til að skoða vefi virki.
  3. Ganga þarf þannig frá texta að hann sé læsilegur og skiljanlegur.
  4. Öll myndbönd sem birt eru á vef eða samfélagsmiðlum félagsins skulu textuð.
  5. Myndir sem birtar eru á vef félagsins skulu hafa myndlýsingu sem nýtist þeim sem styðjast við hugbúnað sem les upp texta.
  6. Öll grunnatriði á vef Siðmenntar skulu aðgengileg á ensku.