Siðmennt – félag siðrænna húmanista á Íslandi var stofnað árið 1990 í kringum borgaralega fermingu.
Félagið þróaðist síðan fljótt í að vera fullgilt húmanískt félag með aðild að alþjóðasamtökum húmanista (IHEU).
Félagið er veraldlegt lífsskoðunarfélag og hefur að viðfangsefni þau viðhorf og lífsgildi sem eru persónulega mikilvæg og náin hverjum einstaklingi í leit að tilgangi og hamingju í lífinu.
Hugtakið lífsskoðunarfélag (life stance organization) nær á alþjóðavísu yfir félög af bæði trúarlegri og veraldlegri sannfæringu og gerir ekki upp á milli þeirra.
Siðferðismál, þekkingarfræði og fjölskyldan eru kjarni þeirra viðfangsefna sem Siðmennt sinnir.
Mannvirðing, frelsi og samábyrgð eru siðferðilegir hornsteinar manngildishyggjunnar / húmanismans.
Siðmennt styður við vísindalegar aðferðir til að leita þekkingar um veröldina og lífheiminn.
Félagið býður upp á þjónustu athafnarstjóra félagsins við nafngjafir, giftingar og útfarir, auk vandaðs námskeiðs fyrir ungmenni til undirbúnings fyrir borgaralega fermingu.
Aðild að Siðmennt er öllum opin sem telja sig eiga samleið með þeim lífsskoðunum og þeirri sannfæringu sem birt er í stefnu félagsins. Hægt er að skrá sig í félagið á fljótlegan og einfaldan hátt á vefsíðu Þjóðskrár. Skráning í gegnum Þjóðskrá er félögum að kostnaðarlausu en Siðmennt fær þá sóknargjöld félaga í sinn hlut.
Siðmennt býður upp á veraldlegar athafnir: Borgaralegar fermingar, nafngjafir, giftingar og útfarir.
Athafnirnar eru í boði fyrir alla óháð því hvort þeir eru félagar i Siðmennt eða ekki.
Félagsmenn fá verulegan afslátt af öllum athöfnum félagsins.
Mikilvægt er að senda félaginu skjáskot af vefsíðu Þjóðskrár sem staðfestir að viðkomandi sé í Siðmennt til að geta fengið afslátt af athöfnum félagsins, þar sem Þjóðskrá veitir félaginu ekki upplýsingar um félagatal í rauntíma.
Félagsmenn eru nú tæplega 4.000 talsins og er Siðmennt 6. stærsta lífskoðunarfélag landsins. Siðmennt vantar fleiri félagsmenn til að vinna að markmiðum þess og greiða árgjald sem er 5000 krónur og eða skrá sig í félagið hjá Þjóðskrá. Námsmenn, öryrkjar og aldraðir fá nú helmingsafslátt af félagsgjaldi óski þeir eftir því og greiða þá 2500 krónur. Ef þú skráir þig í félagið hjá Þjóðskrá er greiðsla árgjalds valfrjáls.
Ef þú ert trúlaus eða húmanisti og vilt styðja Siðmennt, félags siðrænna húmanista á Íslandi, þá hvetjum við þig til að skrá þig í Siðmennt hjá Þjóðskrá. Siðmennt er eina veraldlega lífsskoðunarfélagið sem er opinberlega skráð og fær þannig svokölluð „sóknargjöld“ félagsmanna. „Sóknargjöld“ þeirra sem standa utan félaga renna í ríkissjóð (þau fara ekki til háskólans eins og áður).
Skráning í Siðmennt hjá Þjóðskrá (kostar þig ekkert) – Einfaldar leiðbeiningar í fjórum skrefum:
- Farðu inn á https://skra.is/umsoknir/rafraen-skil/tru-og-lifsskodunarfelag/og skráðu þig inn með því að nota Íslykil (ef þig vantar Íslykil getur þú sótt um hann á sömu síðu).
- Veldu „Breyta trú- og lífsskoðunarfélagi“.
- Finndu „Breyting á skráningu“ og hakaðu í „Velja trú- og lífsskoðunarfélag“ og veldu svo„Siðmennt“ úr listanum.
- Smelltu svo á: „Senda tilkynningu“.
Mikilvægt er að senda félaginu skjáskot af vefsíðu Þjóðskrár sem staðfestir að viðkomandi sé í Siðmennt til að geta fengið afslátt af athöfnum félagsins.
Skráðu þig beint í Siðmennt og greiddu félagsgjald
(Félagsgjald er valfrjálst ef þú ert einnig skráður hjá Þjóðskrá)
Við hvetjum sem flesta til að skrá sig einnig beint í Siðmennt og greiða árgjald (5000 kr.). Siðmennt er á móti sóknargjaldakerfinu og því mikilvægt að sem flestir sem vilja styðja Siðmennt skrái sig beint í félagið.Ef þú ert þegar skráður i félagið hjá Þjóðskrá er greiðsla árgjalds valfrjáls.