Loforðin 10
Húmanísk gildi eru sammannleg gildi sem byggjast á því að taka ábyrgð á því að gæta velferðar allra lifandi vera og jarðarinnar okkar. Amerískir húmanistar hafa tekið saman Loforðin 10, sem eru tíu gildi húmanista og loforð okkar um að leggja okkar að mörkum til þess að byggja upp lýðræðislegt samfélag þar sem við virðum, styðjum og hlúum að virði hvers einstaklings, og þar sem frelsi og ábyrgð manneskjunnar eru í hendi.
Ósérplægni
“Ég mun hjálpa þeim hjálparþurfi, án þess að ætlast til þess að fá eitthvað í staðinn.”
Ósérplægni er óeigingjörn umhyggja fyrir velferð annarra lifandi vera, án væntinga um viðurkenningu, laun eða endurgjald. Sameiginleg velferð þeirra samfélaga sem við tilheyrum er háð velferð hvers einstaklings. Við ættum alltaf að leita leiða til að draga úr sársauka og erfiðleikum annarra með verkum okkar. Með því að sýna öðrum umhyggju og styðja hvert annað, styrkjum við heilbrigð tengsl og eigum hlutdeild í því að bæta samfélagið og heiminn allann.
Gagnrýnin hugsun
“Ég mun leggja rækt við dómgreind mína með því að spyrja spurninga og hugsa sjálfstætt”
Það getur verið erfitt að skera úr um hvað er satt og rétt á tímum sem þessum, þar sem upplýsingaflaumurinn er viðstöðulaus. Gagnrýnin hugsun gerir okkur kleift að nýta okkur þessar upplýsingar og dæma réttmæti þeirra og gagnsemi þeirra sem tól til að leysa þau vandamál sem að okkur steðja, án þess að falla í gryfju sjálfsréttlætinga, fylgispektar og staðalímynda. Þetta ferli myndar undirstöður vísindalegrar aðferðar og opnar dyr til nýrra uppgötvanna sem grundvallast á tilgátum og tilraunum. Gagnrýnin hugsun er hæfileiki sem þarfnast stöðugrar athygli, æfingar og ígrundunar. Með því að þjálfa hugann í gagnrýnni hugsun öðlumst við hæfni til þess að skora hlutdrægni okkar sjálfra og annarra á hólm, sem ryður brautina fyrir það að samfélagsleg sjónarmið litist af sanngirni, sjálfstæði og fjölmenningarlegum viðhorfum.
Samkennd
,,Ég mun taka skoðanir annara, tilfinningar þeirra og upplifanir, til ígrundunar.”
Hugtakið ,,samkennd” merkir að setja sig í spor annarra til þess að reyna að skilja upplifun þeirra eins og við værum sjálf þátttakendur í þeirri upplifun. Samkenndin krefst þess að við stígum úr okkar eigin hugarheimi til þess að geta séð aðstæður annarra frá þeirra sjónarhóli og skilið hugsanir þeirra og tilfinningar. Á margan hátt er samkennd fyrsta skrefið í siðferðilegri hegðun, þar sem hún gerir okkur kleift að hafa samúð með þjáningu annarra og hafa áhrif gjörða okkar á annað fólk í huga. Skilningur á sjónarmiðum annarra er ekki aðeins nauðsynlegur við myndun sterkari sambanda, heldur gerir hann okkur einnig að betri borgurum, hvort sem er í okkar eigin nærsamfélagi, sem og í heiminum öllum. Samkennd stuðlar að umburðarlyndi, umhyggju og hluttekningu meðal okkar allra.
Umhverfisvernd
,,Ég mun vernda jörðina og lífið á henni”
Þrátt fyrir að vera öll sjálfstæðir einstaklingar, deilum við sama heimilinu: Jörðinni. Rétt eins og við treystum á að gjafir jarðar haldi í okkur lífi, þarf vistkerfi jarðarinnar að treysta á að við séum góðir ábúendur og að við tökum ábyrgð á áhrifum mannlegra gjörða á plánetuna. Grandaleysi gagnvart stórfelldum áhrifum mannkynsins á umhverfið okkar hefur valdið víðtækum skaða á lífríki jarðar. Þrátt fyrir þetta er mannkynið einnig fært um að valda jákvæðum breytingum á umhverfið sem taka mið af virðingu fyrir öllu lífi á þessari jörð. Hvert og eitt okkar verður að viðurkenna bæði sameiginleg og persónuleg mistök okkar, lagfæra fyrri skaða og vinna markvisst að því að rækta rík, fjölbreytt og þrautseig vistkerfi.
Siðferðisþroski
,,Ég mun leggja áherslu á að verða betri manneskja”
Lykillinn að því að öðlast skilning á siðferðilegum þroska er að viðurkenna að ekkert okkar er fullkomið, eða með öll réttu svörin. Siðferðisþroski er ferli sem tekur engan enda og þarfnast stöðugrar ígrundunar og endurmats á okkar persónulega vali og þeim afleiðingum sem það hefur á aðra. Sanngirni, samstarf og samnýting er á meðal fyrstu siðferðismálanna sem við lendum í á okkar þroskaferli og eru oft eitthvað sem við þróum með okkur af sjálfsdáðum, en hverjum degi fylgja nýjar áskoranir og ný siðferðileg álitamál. Við ættum að hafa okkar siðferðilegu viðmið í stöðugri endurskoðun með það að markmiði að leita ávallt leiða til þess að bæta okkur sem manneskjur.
Hnattræn hugsun
,,Ég verð góður granni gagnvart fólkinu sem deilir jörðinni með mér og leggja mitt af mörkum til að gera jörðina að betri stað fyrir okkur öll.”
Við lifum í heimi sem er ríkur af menningarlegri, félagslegri og einstaklingsbundinni fjölbreytni — heimi þar sem við verðum sífellt meira háð hverju öðru. Það leiðir af sér að staðrænir atburðir eru líklegri til að hafa heildræn áhrif á heiminn. Alheimsvitund og hnattræn hugsun eykur þekkingu okkar á öðrum menningarheimum og kynnir okkur fyrir sjónarmiðum sem eru byggð á upplifunum sem eru fjarri okkar eigin. Sannkölluð hnattræn hugsun felur í sér eftirtekt á bæði sögulegum atburðum og þeim sem eiga sér stað núna, auk þess að viðurkenna áhrif okkar á þau samtengdu félagslegu, pólitísk og efnahagslegu kerfi sem við tengjumst og áhrif þessarra kerfa á okkur. Lokatakmark hnattrænnar hugsunar er alþjóðleg borgaraþátttaka, sem viðurkennir okkar persónulegu ábyrgð á því að hlúa að heilbrigðu og mannsæmandi lífi fyrir alla íbúa þessarar jarðar.
Auðmýkt
,,Ég er meðvituð/meðvitaður um styrkleika mína og veikleika, og kann að meta styrk- og veikleika annarra.”
Auðmýkt merkir að sýna hógværð gagnvart afrekum sínum, hæfileikum, gjöfum eða stöðu. Auðmýkt viðurkennir að öll erum við ófullkomin og þekking okkar og hæfni takmörkuð. Að sýna auðmýkt snýst ekki um að hafa lítið sjálfstraust eða gera lítið úr sjálfu sér. Kjarni auðmýktar er öflug sjálfsvitund, -meðvitund um styrkleika okkar og veikleika, galla og kosti. Auðmýkt felur í sér að setja stolt og sjálfhverfu til hliðar, vera þakklát fyrir það sem við höfum og kunna að meta annað fólk fyrir það sem það er. Með því að vera auðmjúk viðurkennum við virði okkar gagnvart öðrum, því í eðli sínu erum við hvorki betri né verri en nokkur annar.
Friður og félagslegt réttlæti
,,Ég mun hjálpa fólki að leysa vandamál og ágreining á þann hátt sem er sanngjarn gagnvart öllum.”
Sannur friður felur í sér ákafa skuldbindingu gagnvart félagslegu réttlæti og staðfestu gagnvart mannréttindum og persónulegu sjálfstæði allra. Ranglæti gagnvart einstaklingum eða hópum, á hvaða stigi sem það er, ber merki um að átök séu í gangi, jafnvel þó sá ágreiningur sé hvorki augljós né aðsteðjandi. Eina leiðin til að koma á friði er með því að vera stöðugt að bregðast við óréttlæti með lausnamiðuðum aðgerðum sem miða að því að græða sár og tryggja réttlátt og sanngjarnt samfélag í framhaldinu. Slík leið til að útkljá ágreining er þekkt sem uppbyggileg réttvísi. Til þess að ná fram réttlátu, friðsamlegu samfélagi, þurfum við öll að taka mark á ábendingum um óréttlæti og tryggja að þau sem verða fyrir mestum skaða vegna réttindabrota, muni ákvarða hvaða leiðir séu bestar til þessa að leysa vandamálin.
Ábyrgð
,,Ég mun vera góð manneskja—líka þegar enginn sér til—og taka ábyrgð á afleiðingum gjörða minna.”
Við tökum ákvarðanir á hverjum degi. Þessar ákvarðanir, stórar sem smáar, hafa allar afleiðingar, -fyrir okkur sjálf og heiminn í kringum okkur. Siðferðileg ábyrgð felur í sér að axla meðvitaða ábyrgð á gjörðum okkar og áformum, ásamt afleiðingum þeirra. Jafnvel þó að við lifum öll í samfélagi menningarlegra gilda, væntinga, óskrifaðra siðferðisreglna og félagslegra venja, þá berum við alltaf lokaábyrgð á því hvort við veljum rétt eða rangt. Að vera ábyrg manneskja felur í sér að vera ávallt meðvituð um að breyta rétt og taka afleiðingum gjörða okkar, hvort sem þær afleiðingar fela í sér lof eða last.
Þátttaka og hjálpsemi
,,Ég mun liðsinna samfélaginu mínu á þann hátt sem gerir mér kleift að kynnast fólkinu sem ég hjálpa.”
Þátttakan og hjálpsemi stendur fyrir að gefa samfélagslega jákvæðum aðgerðum gildi. Það stuðlar að því að hjálpa öðrum, auka samfélagsvitund, efla ábyrgðarkennd og hlúir að hinum loforðunum níu. Að stunda sjálfboðaliðastarf, taka þátt í félagslegum athöfnum og skipuheildum, og að rækta með sér hjálpsemi gagnast ekki aðeins þeim hjálparþurfi, heldur einnig hinum hjálpsama, sem eykur hæfni sína, öðlast reynslu og tekur framförum. Við verðum öll að átta okkur á því að við erum félagsverur og að leggja sitt af mörkum í þjónustu samfélagsins gagnast okkur öllum.