Fara á efnissvæði

Amsterdam-yfirlýsingin 2022

Í Alþjóðasambandi húmanista (e. Humanist International) eru rúmlega 120 samtök og félög húmanista um allan heim. Skilgreining húmanisma, eða manngildisstefnu, og útfærð stefna er ekki nákvæmlega eins alls staðar en samtökin öll eiga sér sameiginlegan hugmyndagrunn og stefnumið.

Á fyrsta alþjóðaþingi húmanista í Amsterdam árið 1952 samþykktu stofnendur Alþjóðasambandsins yfirlýsingu um grundvallarstefnumið nútímalegs húmanisma.

Yfirlýsingin frá 1952 er barn síns tíma. Hún mótaðist meðal annars af ógnvænlegum stórveldaátökum kalda stríðsins, og í henni hvöttu þingfulltrúar til þess að þeim ósköpum linnti.

Eðli húmanismans er að stuðla að þróun en tortryggja kennisetningar – og á alþjóðaþingi í Hollandi árið 2002, í þetta skipti í bænum Noordwijkerhout, á hálfrar aldar afmæli sambandsins og yfirlýsingarinnar, var samþykkt endurskoðuð Amsterdam-yfirlýsing. Hún var síðan opinber stefnulýsing Alþjóðasambands húmanista í tuttugu ár.

Árið 2022, á 70 ára afmæli samtakanna, hafði yfirlýsingin enn verið endurskoðuð og bætt í samræmi við kröfur tímans, og var samþykkt á alþjóðaþingi í Glasgow. Hin nýja yfirlýsing er nú stefnulýsing Alþjóðasambandsins og lýsir grunnstefnumiðum húmanista.

Inngangur

Húmanísk viðhorf eru jafngömul siðmenningunni og hafa frá upphafi haft áhrif á flest samfélög manna um heimsbyggðina.

Nútímalegur húmanismi markast af þessari löngu sögu frjálsrar hugsunar og rökræðu um merkingu og siðferði, sem hefur veitt mörgum mestu hugsuðum og listamönnum mannkyns innblástur og ekki síður lagt grunn að þróun vísindanna.

Sem alþjóðleg hreyfing húmanista leggjum við okkur fram um að kynna öllu mannfólki þau grunnatriði húmanískrar lífsskoðunar sem saman eru komin í Amsterdam-yfirlýsingunni 2022.

Húmanistar leitast við að vera siðrænir

Við teljum að siðferði sé samgróið mannlegu hlutskipti, sprottið af þeim eiginleikum allrar lifandi veru að þjást og geta dafnað, grundvallað á kostum þess að veita hjálp í stað þess að valda skaða, virkjað með eigindum skynsemi og samkenndar, og án annarrar uppsprettu en í mannkyninu sjálfu.

Við viðurkennum verðmæti og sæmd hvers einstaklings. Við teljum að hver maður/manneskja hafi rétt til eins víðtæks frelsis og þróunar og samhæfst getur rétti annarra. Í þessu ljósi styðjum við frið, lýðræði, réttarríki og algild mannréttindi.

Við höfnum öllum tegundum rasisma og fordóma, og öllum þeim rangindum sem af þeim stafa. Við leitumst þvert á móti við að efla og styðja sameiginlegt mannlegt félag í allri sinni menningarlegu fjölbreytni og einstaklingsbundnu tilbrigðum.

Við teljum að frelsi einstaklings sé óaðskiljanlegt félagslegri ábyrgð. Frjáls maður/manneskja hefur skyldur við aðra, og við teljum okkur skuldbundin öllu mannkyni, þar á meðal kynslóðum framtíðarinnar, og raunar öllum skyni gæddum verum.

Við vitum að mannkynið er hluti af náttúrunni og viðurkennum ábyrgð okkar gagnvart þeim áhrifum sem við höfum á aðra þætti náttúrunnar.

Húmanistar leitast við að beita skynseminni

Við erum viss um að hægt er að leysa brýn vandamál heimsbyggðarinnar með mannlegri skynsemi og aðgerðum. Við tölum fyrir vísindalegri aðferð og óháðri rannsókn við þessi úrlausnarefni. Vísindin færa okkur verkfærin en mannleg gildi eiga að vísa okkur veg að markmiðunum. Við viljum nýta tækni og vísindi til að bæta velferð mannkynsins með formerkjum samkenndar, en ekki til eyðileggingar.

Húmanistar sækjast eftir lífsfyllingu

Við metum mikils allar uppsprettur ánægju og lífsfyllingar einstaklinga, að því tilskildu að aðrir skaðist ekki. Við teljum að alla ævi sé unnt að taka út persónulegan þroska með því að leggja rækt við siðræna og skapandi lífshætti.

Við fögnum þess vegna sköpunarmætti listarinnar og virðum umbreytingarafl bókmennta, tónlistar, sjónlista og sviðslista. Við dáumst að fegurð náttúrunnar og kunnum að meta undur hennar, mátt og tign. Við metum mikils atorkuna sem tengist íþróttum og útivist einstaklinga og hópa og ávinning í þroska og félagsskap sem þannig skapast. Við berum virðingu fyrir leitinni að þekkingu og þeirri auðmýkt, visku og skarpskyggni sem henni fylgir.

Húmanisminn – manngildisstefnan – getur svarað eftirsókn

í uppsprettu merkingar og tilgangs, og verið valkostur við kreddubundin trúarbrögð, andlýðræðislega þjóðernisstefnu, einangrunarsinnaða örhópa og sjálfhverfan níhilisma.

Við teljum að fulltingi við velferð mannkyns sé óháð stundlegum breytingum en gerum okkur á hinn bóginn ljóst að einstök viðhorf okkar byggjast ekki á opinberunum með eilíft gildi. Húmanistar vita að enginn er óskeikull eða alvitur. Þekkingar á heiminum og á málefnum mannkyns verður einungis aflað með sífelldu ferli rannsóknar, ígrundunar og endurskoðunar.

Af þessum ástæðum teljum við sjálfsagt að viðhorf okkar séu rædd og gagnrýnd, og við sækjumst ekki eftir því að þröngva þeim upp á gjörvallt mannkyn. Við óskum þvert á móti eftir frjálsum skoðanaskiptum og viljum vinna með fólki með ýmisleg trúar- og lífsviðhorf − ef það deilir með okkur helstu gildum – til þess að bæta heiminn.

Við erum sannfærð um að mannkynið getur ráðið fram úr þeim vanda sem á okkur brennur, og að því sé, með aðferðum óháðrar rannsóknar, vísinda, samkenndar og ímyndunarafls, kleift að stuðla að friði á jörðu og hamingju í mannheimum.

Við hvetjum alla sem deila þessari sannfæringu til að koma til liðs við okkur um þetta heillandi verkefni.

 

Þýð. Mörður Árnason

Sjá Amsterdam-yfirlýsinguna á ýmsum erlendum málum (fyrri yfirlýsingar á sama vefsetri).

Sjá Amsterdam-yfirlýsinguna frá 2002.