Veraldleg gifting

Giftingar Siðmenntar eru ekki trúarathafnir, heldur húmanískar og veraldlegar. Parið sem gengur í hjónaband er í forgrunni og vilji þeirra til þess að staðfesta heit sín og ást, vináttu, traust og virðingu.

Fyrir hverja er veraldleg gifting?

Veraldleg gifting er fyrir öll þau pör sem aðhyllast veraldlegar eða húmanískar lífsskoðanir eða vilja ekki af einhverjum ástæðum hafa trúarlega athöfn. 

Siðmennt neitar engum um þessa þjónustu, hvort sem að fólk er trúað eða ekki, 

Parið þarf þó að uppfylla lagaleg skilyrði giftingar og gera sér grein fyrir því að athafnarstjórinn mun ekki flytja trúarlegt efni eða blessanir. Þá getur yfirbragð athafnarinnar ekki heldur verið trúarlegt, þ.e. trúarlegir sálmar eða ljóð verða ekki hluti af athöfninni. Á þessu geta verið einhverjar takmarkaðar undantekningar undir sérstökum kringumstæðum (t.d. ef trúaðir og húmanistar giftast). Athöfnin er því aðskilin frá trú og því ólíklegt að hún henti eða nægi trúuðu fólki.

Siðmennt gerir ekki upp á milli ástarsambanda og leiðir pör saman til giftingar óháð kynhneigð. Þannig verða samkynhneigð pör að hjónum með sömu stöðu og þau gagnkynhneigðu í augum húmanista. Ástin ræður.

Húmanísk gifting er að öllu leyti hin sama og veraldleg utan þess að hún felur í sér giftingu pars þar sem bæði eru húmanistar að lífsskoðun og óska e.t.v. eftir ríkari áherslu á umfjöllun um húmanisma eða húmanísk gildi við athöfnina.

Í veraldlegri giftingu er gerandinn parið sjálft en athafnarstjórinn leiðbeinir í athöfninni og flytur hugleiðingu tengda lífi parsins og hjónabandinu. 

Tónlist, söngur og ljóð eða önnur listræn tjáning eru ríkur þáttur af athöfninni sem ber jafnan ákaflega gleðilegt yfirbragð. Ættingjar og vinir og jafnvel brúðhjónin sjálf geta lagt sitt af mörkum til að gera athöfnina eftirminnilega.

Gifting hjá athafnarstjóra er löggjörningur, nema í einstaka tilvikum þar sem lagalegi hlutinn hefur þegar verið framkvæmdur af sýslumanni.

Uppbygging giftingaathafna

Stutt hugvekja um hjónabandið (aðfararorð heityrða)

Heityrði, uppsetningu hringa og kossinn.

Tvö vitni þurfa að vera viðstödd
(ekki endilega þeir sömu og skrifuðu undir svaramannavottorð)

Hvar fara veraldlegar giftingar fram?

Giftingar geta farið fram nánast hvar sem er. Siðmennt hefur gefið saman hjón í heimahúsum, við fossa og gil, á söndum og í birkirjóðrum, í sumarbústöðum og samkomusölum. Látlaus athöfn hefur nákvæmlega sama vægi og sú íburðarmikla, gleði og hamingja eru aðalatriði og möguleikarnir margir.

Dæmigerð athöfn af fullri lengd og tónlist

Innganga hjónaefna á vígslustað undir innspili.

Stutt inngangsorð athafnarstjóra. - Tónlist

Saga hjónaefna – athafnarstjóri rekur sögu sambands þeirra. Léttleiki.

Hugvekja – aðfararorð heityrða. Heityrðin og hringarnir. Hjónabandið innsiglað með kossi. - Tónlist.

Lokaorð og útganga hjóna af vígslustað undir útspili.

Lögformleg skilyrði hjónavígslu og könnun þeirra

Hjónaefni þurfa að hafa náð lögræðisaldri (18 ára), vera ógift(ur), eða löglega skilin(n) og ekki skyld í beinan legg.

Leggja þarf fram fyrir athafnarstjórann fæðingarvottorð beggja, vottorð um hjúskaparstöðu og ef við á, vottorð um lögskilnað frá fyrra hjónabandi. Þessi vottorð fá hjónaefni hjá Þjóðskrá og er mikilvægt að panta þau a.m.k. þremur vikum fyrir áætlaðan giftingardag. Hjúskaparstöðuvottorðið má ekki vera eldra en 8 vikna þegar það er borið fram til könnunar.

Ef að annað eða bæði hjónaefni eiga ekki lögheimili á Íslandi er farið með vottorðin til sýslumanns, sem í slíku tilviki sér um þessa könnun vígsluskilyrða. Í tilviki búsetu á Norðurlöndunum geta hjónaefni fengið sitt könnunarvottorð í því landi (t.d. Hindersprövning í Svíþjóð) og er það tekið gilt á Íslandi og þarf þá ekki að snúa sér sérstaklega til sýslumanns.

Kostnaður 

Siðmennt setur upp ákveðið gjald fyrir hverja athöfn og í því felst kaup athafnarstjórans og umsýsla lögformlegra pappíra. Gjald fyrir giftingarathöfn er kr. 65.000 frá og með 1. janúar 2021.

Greiða þarf akstursgjald ef athöfn er utan hefðbundins athafnarsvæðis og er viðmiðið ákvörðun fjármálaráðuneytisins hverju sinni. Akstursgjaldið er nú 110 krónur á hvern ekinn kílómetra.

Vinsamlegast athugið að biðgjald vegna athafna er 10.000 kr per klst. Með bið er átt við veruleg frávik frá dagskrá, svo sem seinkun sem varðar hálftíma eða meira. Nánari upplýsingar um verð og mögulegan aukakostnað má finna í gjaldskrá athafnaþjónustu.

Frekari upplýsingar fást um það með því að senda inn beiðni um giftingu eða með því að óska eftir því sérstaklega.

Afslættir

Félagsmenn Siðmenntar fá afslátt sem nemur kr. 20.000 á mann og samtals 40.000 kr. ef bæði hjónaefni eru skráð í félagið. Innifalið í kostnaði er viðtal við hjónaefnin, ráðgjöf um athöfnina, æfing ef þurfa þykir, ræðuskrif og annar undirbúningur.

Innheimta kostnaðar

Gjaldið er innheimt með kröfu í heimabanka beiðanda en einnig má greiða með millifærslu á reikning Siðmenntar (0549-26-6002, kt. 600290-1429), einni viku fyrir athöfnina.

Æskilegt er að beiðnir um athafnarstjórn á vegum félagsins berist a.m.k. einum mánuði fyrir áætlaðan brúðkaupsdag. Eftir því sem við á skal greiða ferðakostnað og gistingu/dagpeninga, fyrir athafnarstjóra. Reynt er að bóka ákveðinn athafnarstjóra en þó verður að setja fyrirvara ef athafnir eru bókaðar með löngum fyrirvara. Það skapast af því að athafnastjórar Siðmenntar eru allir við önnur störf og hafa ekki alltaf vinnuáætlun langt fram í tímann.

Beiðni um giftingu

(Click here if you want to request a wedding ceremony in English)

Athafnaþjónusta Siðmenntar býður upp á faglega þjónustu athafnarstjóra félagsins við tímamótaathafnir fjölskyldna. Virðulegar og persónulegar athafnir í jafnt gleði sem og sorg. Hér fyrir neðan er hægt að óska eftir giftingu hjá athafnaþjónustu Siðmenntar. Allar nauðsynlegar upplýsingar um veraldlegar giftingar Siðmenntar má finna hér: Veraldleg gifting.
 • Almennar upplýsingar

 • Rita skal fullt nafn eins og beiðandi vill að það sé skrifað í skjölum vegna giftingarinnar
 • Greiðsluseðill er sendur í heimabanka eftir þessari kennitölu.
 • Félagar fá afslátt af athafnargjaldinu. Hægt er að skrá sig í Siðmennt hjá Þjóðskrá á www.skra.is eða Borgartúni 21 (9-15:30).
 • Vinsamlegast skráið niður virkt tölvupóstfang.
 • Staður og tími

  Vinsamlegast skráið hér fyrirhugaða dagsetningu og staðsetningu athafnar.
 • Date Format: DD dot MM dot YYYY
  Ritháttur: 04.01.2015
 • Dæmi: 11:00
 • Aðeins er um áætlun að ræða, sem helst er ætlað til að athafnastjóri hafi hugmynd um umfang athafnar og fyrir söfnun tölfræðigagna. Stærð athafnar hefur ekki áhrif á verð og þjónustu félagsins. Ef þú ert ekki viss um endanlegan fjölda gesta, vinsamlegast veldu þann möguleika sem þér finnst líklegastur.
 • Date Format: DD dot MM dot YYYY
  Ritháttur 01.04.2015
 • Hér er til að mynda hægt að rita óskir um athafnarstjóra.