Trúfrelsisstefna Siðmenntar

Enginn má neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna… – 64. gr. Stjórnarskrár Íslands

Congress shall make no law respecting an establishment of religion, or prohibiting the free exercise thereof… – The bill of rights, 1st amendment

Stjórn Siðmenntar telur að markmið stjórnvalda eigi að vera að tryggja frelsi einstaklinga og vernda rétt þeirra til að lifa samkvæmt þeim lífsskoðunum sem þeir sjálfir kjósa. Stjórnvöld eiga að vera hlutlaus, óháð trúarbrögðum og eiga ekki að hygla ákveðnum lífsskoðunum umfram önnur. Þess vegna verður að aðskilja ríki og kirkju. Aðskilnaður ríkis og kirkju felur m.a. í sér að jafna lagalega, fjárhagslega og félagslega stöðu þeirra hópa sem aðhyllast ólíkar lífsskoðanir. Öðruvísi verður trúfrelsi, og þar með frelsi einstaklingsins, ekki tryggt.

– – – – – – – – –

1. Jafna þarf lagalega og fjárhagslega réttarstöðu lífsskoðunarfélaga

Í neðangreindri umfjöllun er talað um lífsskoðunarfélög sem þau félög sem hafa á stefnu sinni ákveðna siðferðislega sannfæringu, taka afstöðu til eðli þekkingar og heimsmyndarinnar, ásamt því að bjóða uppá félagslegar athafnir fjölskyldna. Lífsskoðunarfélög geta innihaldið trúarlega stefnu, þ.e. trúfélög eða ekki, t.d. húmanískt félag eins og Siðmennt.

Lögbundin mismunun

Í 62. gr. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands frá 1944 nr. 33 17. júní, stendur:“Hin evangelíska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.“

Þessi málsgrein er bersýnilega í mótsögn við 1. málsgrein 65. greinar sömu stjórnarskrár þar sem segir að:

„Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“

Önnur greinin verður augljóslega að víkja.

Fjárhagsleg mismunun
Til þess að fullnægja jafnréttiskröfum verða yfirvöld annað hvort að hætta að styrkja og styðja öll lífsskoðunarfélög á Íslandi eða sjá til þess að öll lífsskoðunarfélög fái sama stuðning.

Þetta væri t.d. hægt með því að fella niður allan þann stuðning sem Þjóðkirkjan fær umfram sóknargjöld og hækka svo sóknargjöldin í samræmi við tekjutap Þjóðkirkjunnar. Með þessari aðgerð myndu þá sóknargjöld allra trúfélaga hækka hlutfallslega jafnt og þannig væri jafnrétti betur tryggt.

Tekið skal fram að þær aukatekjur sem Þjóðkirkjan fær umfram aðra söfnuði, þ.e. fyrir utan sóknargjöld, (um 2 milljarðar á ári) eru réttlættar með yfirtöku ríkisins á kirkjujörðum. Þessi réttlæting dugar þó skammt af nokkrum ástæðum.

Ljóst er að tekjur af kirkjujörðum á Íslandi stæðu tæplega undir þeim fjárframlögum sem nú eiga að renna sem gjald til kirkjunnar vegna yfirtöku kirkjujarða. Þetta hefur þó hvergi verið reiknað til fullnustu og við vitum því ekki hvaða tölur lágu til grundvallar ,,skaðabótum“ ríkisins vegna yfirtöku kirkjujarða sem samið var um sem prestlaun 1997. Ljóst er því að sá samningur sem ríkið gerði við Þjóðkirkjuna um yfirtöku kirkjujarða á sér vægast sagt veikar forsendur.

Samkvæmt brauðamatinu 1854 skiptust tekjur presta fyrir landið allt þannig: Tekjur af prestsetrum 18%. Aðrar eignatekjur kirkjunnar (Kirkjujarðir, hlunnindi, útkirkjur) 34%. Ýmis sóknargjöld (tíund, dagsverk, aukaverk , offrur o.fl.) 36%. Greiðslur fyrir prestverk 12%. (Heimild: Grein eftir Gísla Gunnarsson í ritinu Íslenska Söguþingið 30.maí -1. júní 2002, Ráðstefnurit II, „Fjárhagslegar forsendur kirkjustarfs frá 16. öld til 1874″, töflur 11 og 12, bls. 173, 175).

Ljóst er því að þær kirkjueignir sem verið var ,,að bæta kirkjunni“ með 2 milljörðum í árlegum greiðslum samkvæmt samkomulaginu 1997 veittu kirkjunni aðeins 34% af tekjum hennar áður fyrr, raunar er hæpið að telja hér útkirkjur með. Þar sem þar var mest um að ræða tekjur af svonefndum einkakirkjum sem voru í eign einstaklinga. Mundi það minnka kirkjueignirnar sem ríkið yfirtók í 26% af heildartekjum presta 1854, 23% af kirkjujörðum og 3% af ýmsum ,,hlunnindum“. Athyglisvert er hve lítill munur var á tekjum af prestsetrum annars vegar og kirkjujörðum hins vegar (18% og 23%), einkum þegar haft er í huga hve þunglega kirkjuþing tekur nú í tilboð ríkisins um að þjóðkirkjan yfirtaki nú prestsetrin með 150 milljón króna meðgjöf! Hvað segði kirkjuþing ef kirkjunni væri boðið að yfirtaka allar sínar kirkjujarðir, eða andvirði þeirra sem seldar hafa verið með eingreiðslu, og sleppti í staðinn tveggja milljarða árlega framlaginu frá ríkinu?

Einnig ber hér að hafa í huga að á fyrri tímum gegndi kirkjan ýmsum hlutverkum sem nú eru í höndum annarra aðila, t.d. í mennta- og félagsmálum. Eiga þá mennta- og félagsstofnanir þessa lands ekki að fá líka hlut í þessum margumræddu kirkjueignum?

Afnema þarf lög um guðlast
Í 125. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 segir:

„Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 3 mánuðum].1) Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.“

Ofangreind lög geta varla samrýmst tjáningarfrelsi því er skilgreint er í Stjórnarskrá Íslands enda er það meðal mikilvægustu réttinda manna að geta tjáð sig óhikað um samfélagið sem þeir búa í.

2. Nánar um fjárhagslega mismunun

Ríkið (skattgreiðendur allir) greiðir fyrir menntun og undirbúning klerkastéttar eins trúfélags, Þjóðkirkjunnar (sjá: 2. gr. laga nr. 41 1999 um Háskóla Íslands). Til að gæta jafnræðis verður annað hvort á að leggja guðfræðideild HÍ niður eða gera öllum lífsskoðunarfélögum jafnt undir höfði. Það er líklegast verið að bera í bakkafullan lækinn með því að gagnrýna þau milljarða fjárútlát sem fóru í Kristnitökuhátíð. Engu að síður er óréttlátt að allir skattgreiðendur þurfi að greiða fyrir hátíðarhöld þar sem verið er að fagna forréttindum eins trúarhóps. Sama má segja um 60 milljón króna riti um sögu kristni á Íslandi. Því miður má taka fjölmörg önnur dæmi af fjárhagslegri mismunun trúfélaga og óviðeigandi afskipta ríkisvaldsins af lífsskoðunum almennings. Til að mynda hlýtur að teljast óeðlilegt að veraldleg yfirvöld styrki trúboðssamtök á borð við KFUM/K um margar milljónir á ári (7 milljónir árið 2000). Samkvæmt lögum og markmiðum KFUM/K er tilgangur félagsins að stunda trúboð:„Meginmarkmið KFUM og KFUK er að ungt fólk kynnist Jesú Kristi og gangi til þjónustu við hann.“ Hvernig trúboð eins trúarsafnaðar á kostnað alls almennings í landinu samrýmist ákvæðum um trúfrelsi og jafnræðisreglu Stjórnarskrárinnar er erfitt að skilja.

3. Um félagslegt jafnrétti

Hlutdræg kristinfræðsla og stundum trúboð er stundað í opinberum skólum. Í námskrá grunnskóla frá 1999 stendur m.a. að: Kristilegt siðgæði á að móta starfshætti skólans ásamt umburðarlyndi og lýðræðislegu samstarfi. Þó að þetta eigi við um skólastarfið almennt hlýtur kennsla í kristnum fræðum að sinna þessum þætti sérstaklega og vinna markvisst að því að stuðla að siðgæðisþroska nemendanna í glímu við siðferðileg álitamál. Gengið er út frá því að það sé gert í ljósi kristilegrar siðfræði. Trúarleg innræting eða ,,siðferðiskennsla“ tengd ákveðnum trúarbrögðum ætti aldrei að eiga sér stað í opinberum skólum eins og dæmin sanna því miður að nú er gert. Hér er gefið í skyn að umburðarlyndi, lýðræði og siðferði séu sérstaklega kristileg fyrirbæri. Það er auðvitað ekki rétt. Erfitt getur verið fyrir þá sem ekki eru kristnir (trúlausir eða annarrar trúar) að hlusta á og sætta sig við slíkan boðskap í ríkisreknum skólum. Í sömu námsskrá kemur fram að nemendur eigi að gera sér “ …grein fyrir því hvaða þýðingu krossdauði Jesú og upprisutrúin hefur fyrir kristna einstaklinga andspænis dauðanum og þá von sem henni tengist.“ Á að kenna þetta í skólum? Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir trúlausa og þá sem eru annarar trúar? Samkvæmt námsskrá er tilgangur kristinfræðslunnar:

„[efla] trúarlegan… þroska [nemenda]“

Í námsskrá grunnskólans kemur fram að kenna eigi börnum bænir og sálma auk þess sem því er haldið blákalt fram að ýmsar goðsögur kristinnar trúar, þ.m.t. að meyfæðing og upprisa Jesú, séu sagnfræðilegar staðreyndir. Sagt er að Kristin trú eigi sér rætur í sögulegum atburðum, allt frá tímum Gamla testamentisins, sem nái hámarki í lífi og starfi, dauða og upprisu Jesú Krists. Þennan einhliða boðskap eiga öll börn á grunnskólaaldri að hlýða á nema að foreldrar og forráðamenn óski sérstaklega eftir því að börnum þeirra sé hlíft. Þessu veigra forráðamenn sér eðlilega við að gera því þá lenda börn þeirra jafnvel í því að þurfa að hanga ein fram á gangi meðan kristinfræðslan á sér stað og þurfa að svara spurningum um hvers vegna þau eru svona ólík öðrum. Mörg dæmi eru um að heilu skóladögunum sé eytt í að kenna börnum að semja og fara með kristnar bænir og stundum kemur fyrir að farið er með börn í messur á skólatíma og þá jafnvel án leyfis foreldra.
Jafnframt kemur fyrir að fermingarfræðslunni svokölluðu sé komið fyrir inni í miðri stundaskrá nemenda þannig að ferming lítur út fyrir að vera hluti af eðlilegu skólastarfi. Til að mynda eru farnar dagsferðir með krakkana á skólatíma fyrir fermingarfræðslu. Þetta er bæði óréttlátt og líklegast brot á grunnskólalögum sem kveða á um fjölda kennsludaga.

Ríkisútvarpið, útvarp kristinna landsmanna?
Í 3. gr. laga um Ríkisútvarpið frá árinu 2000 nr. 122 30. júní segir m.a.:

„Ríkisútvarpið skal halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Það skal gæta fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð.“

Eðlilegt er að fjölmiðill í eigu almennings gæti fyllsta hlutleysis. Þetta á ekki síst við þegar fjallað er um trúarbrögð. Því er ekki viðeigandi að á dagskrá ríkisfjölmiðils sé predikun eða annar einhliða trúaráróður. Því er mælst til að allt trúboð verði tekið af dagskrá ríkisfjölmiðla. Sérstaklega eru gerðar athugasemdir við trúarboðskap í ýmsum barnaþáttum á vegum Ríkisútvarpsins. Trúaruppeldi á alfarið að vera á ábyrgð foreldra en ekki ríkisins.

Fyrrum menntamálaráðherra þjóðarinnar sagði í ræðu árið 1995 að:

„Hlutur [Ríkisútvarpsins] í þágu kirkjunnar hefur jafnan verið mikill.“

Þetta er rétt, en er um leið afar óviðeigandi og í andstöðu við lög um Ríkisútvarpið.

Alþingi allra Íslendinga hefst með messu og bænagjörð
Það er ekki hlutverk alþingismanna að hlusta á predikanir um gildi kristninnar og fara með bænir. Alþingi á að vera veraldleg stofnun en ekki kirkjuleg. Þeim sem ekki tilheyra kristnum trúarbrögðum líður stundum eins og annars flokks þegnum. Er þetta ein ástæðan. Það er nánast gefið í skyn að þingmenn geti ekki verið annarrar trúar eða fylgjendur veraldlegrar sannfæringar.

Almenningi er bannað samkvæmt lögum að vinna á helgidögum kristinna
Vegna óeðlilegra tengsla ríkis og kirkju eru atvinnulífinu settar skorður af trúarlegum ástæðum. Einu sinni máttu menn ekki vinna á sunnudögum og enn mega menn ekki vinna á hinum ýmsu hátíðisdögum kristninnar. Hvenær fólk vinnur eða tekur sitt frí ætti að vera samningsatriði milli launþega og atvinnuveitenda, ekki launþega og kirkjuyfirvalda.

Í Bandaríkjunum var hin svokallaða sunnudagslöggjöf, sem bannaði mönnum að vinna á sunnudögum, felld úr gildi vegna þrýstings þeirra sem ekki voru kristnir, einna helst gyðinga. Bókstafstrúaðir gyðingar gátu ekki, trúar sinnar vegna, unnið á laugardögum (sem er helgidagur þeirra) og var bannað af ríkinu að vinna á sunnudögum (helgidegi kristinna). Gyðingar og aðrir þeir sem héldu laugardaginn heilagan voru því neyddir til að taka sér frí í tvo daga í staðinn fyrir einn. Þetta þýddi augljóslega mikið óréttlátt fjárhagslegt tap sem menn gátu ekki sætt sig við til lengdar. Sama gildir um íslensk lög sem banna mönnum að vinna á jólum og páskum. Hvers vegna ætti þeim sem ekki taka helgidaga kristinna alvarlega að vera bannað samkvæmt lögum að vinna fyrir sér og veita þjónustu á þessum dögum? Sérhver maður hlýtur að sjá óréttlætið í slíku fyrirkomulagi.

Börn eru skráð sjálfkrafa í trúfélag móður
Ríkið á ekki að hafa milligöngu í því að skrá ómálga börn í lífsskoðanafélög frekar en önnur félög. Foreldrar ættu sjálfir að sjá um skrá börn sín í trúfélög ef þeim finnst eðlilegt að börn séu yfirleitt skráð í slík félög. Siðmennt telur að það sé ákvörðun sjálfráða einstaklinga að skrá sig í lífsskoðunarfélag rétt eins og stjórnmálasamtök og því á það að vera hverjum einstaklingi um 16 ára aldur eða eldri í sjálfsvald sett hvar eða hvort viðkomandi skrái sig í lífsskoðunarfélag.

Ólíklegt er að það tíðkist að ung börn séu skráð í félagasamtök sem þau þurfa síðar að greiða gjöld til nema þau skrái sig sérstaklega úr samtökunum (sem þau sjálf skráðu sig aldrei í). Gæti þetta fyrirkomulag t.d. átt við um stjórnmálaflokka? Þætti það viðeigandi?

Grafreitir eru undir stjórn kirkjunnar
Í fjölmenningarlegu samfélagi er eðlilegt að grafreitir séu undir stjórn sveitarfélaga en ekki eins ákveðins trúsafnaðar.

4. Um mismunun vegna ólíkra lífsskoðana

Eins og fram hefur komið er fólki mismunað talsvert eftir því hvaða trú eða sannfæringu það aðhyllist. Því fólki sem stendur utan allra trúarbragða er þó mismunað enn frekar. Ríkisvaldið styrkir öll skráð trúarbrögð með innheimtu sóknargjalda í gegnum skattfé fyrir viðkomandi trúfélag. Önnur lífsskoðunarfélög og trúfélög sem ekki hafa fengist opinberlega skráð fá enga slíka styrki eða þjónustu.

Sóknargjöld
Ríkið sér af einhverjum ástæðum um að innheimta sóknargjöld fyrir trúfélög. Hver einasti þegn landsins er rukkaður um 7200 krónur á ári (2005) sem renna beint í þá sókn eða það trúfélag sem viðkomandi er skráður í. Ef viðkomandi einstaklingur er ekki í skráðu trúfélagi eða er trúlaus ber honum samt að borga 7200 krónur sem þá renna til Háskóla Íslands. Þeim sem standa utan trúfélaga er þannig refsað fyrir það því þeim er gert að borga aukalega um 64 milljónir á ári til Háskólamenntunar (61 milljón árið 2000 samkvæmt ríkisreikningi). Gagnrýna má ýmislegt í því fyrirkomulagi sem er á svokölluðum sóknargjöldum. Alvarlegast er þó að lífsskoðunarfélögum er gróflega mismunað eftir því hvort meðlimir þeirra trúa á yfirnáttúruleg fyrirbrigði eða ekki. Þetta getur einfaldlega ekki staðist jafnræðisreglu Stjórnarskrárinnar. Annað af tvennu þarf að gera: Annars vegar að leggja niður sóknargjöld með öllu og leyfa trúarlegum og veraldlegum lífsskoðunarfélögum að fjármagna starfsemi sína óháð yfirvöldum. Hins vegar að viðurkenna önnur lífsskoðunarfélög en þau sem krefjast átrúnaðar á yfirnáttúrulegar verur og veita þeim sama lagalaga rétt og trúarleg lífsskoðunarfélög hafa. Þannig gætu þeir sem eru í lífsskoðunarfélögum sem aðhyllast ekki trú á æðri mátt látið sóknargjöld sín renna til þess félags. Einnig þarf að gefa fólki þann valkost að fá sóknargjöld sín endurgreidd ef það vill ekki tilheyra neinum lífsskoðunarfélögum.

Sjá nánar: Baráttan fyrir jöfnum rétti lífsskoðunarfélaga

Prestar og sálfræðingar
Þeir sem standa utan trúfélaga verða af ýmiskonar þjónustu sem má skilgreina sem almenna félagslega grunnþjónustu. Meðlimir Þjóðkirkjunnar fá ókeypis sálgæslu á spítölum, félagsheimilum og í kirkjum landsins. Á meðan kostar það mörg þúsund krónur að fara til sálfræðings. Að vísu stendur öllum þjónusta presta til boða en augljóslega hafa t.d. trúleysingar lítið að gera með að leita huggunar hjá presti í veikindum eða á dánarbeði.

Önnur aðstaða
Trúleysingjar og aðrir þeir sem standa utan trúfélaga hafa jafn mikla þörf fyrir að halda upp á sömu tímamót og aðrir. Giftingar, nafngiftir, greftranir og manndómsvígslur eru athafnir sem hafa líklegast alltaf fylgt manninum. Þó þessar athafnir séu yfirleitt tengdar við trúarbrögð þá eru þær ekki upprunnar þaðan.

• Ríkið sér um að útvega hinum ýmsu söfnuðum húsnæði og aðra aðstöðu, m.a. til þess að framkvæma þessar athafnir. Þjóðkirkjusöfnuðir fá t.a.m. gefins land frá ríkinu undir allar sínar kirkjur og prestsetur auk þess sem öll gatnagerð og viðhald er greitt af almannafé. Þessi stuðningur ríkisvaldsins er beinlínis lögbundinn (sjá: 5. gr. laga nr. 35 1970 um Kristnisjóð). Yfirvöld hafa enn fremur greitt kostnað af byggingarframkvæmdum og gefið eftir fasteignagjöld þó á þeim hvíli engin lagaskylda til þess.

• Þeir sem standa utan trúfélaga en vilja taka þátt í þessum athöfnum, annað hvort sem einstaklingar eða með hjálp lífsskoðanafélaga fá enga slíka aðstoð frá ríkinu. Fólk utan trúfélaga má nýta sér aðstöðu Þjóðkirkjunnar en eins og eðlilegt er þykir mörgum það óþægilegt og jafnvel óviðeigandi.


Sjá nánar:
• Aðalnámsskrá grunnskóla 1999
• Fjárhagslegar forsendur kirkjustarfs frá 16. öld til 1874 – Gísli Gunnarsson.
• Greinar á www.sidmennt.is um ríki og trú
• Grundvöllur fjármála Þjóðkirkjunnar
• Kirkjan, trúfrelsið og jafnrétti trúfélaga – Steingrímur Gautur Kristjánsson
• Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands

Niðurstaða Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna
Í lok ársins 2005 samþykkti Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna einróma ályktun vegna máls foreldra og barna þeirra í Noregi. Foreldrarnir höfðu krafist þess að yfirvöld menntamála þar í landi virtu hinn veraldlega grunn sem fylgja á í skólastarfi.

Niðurstaða Evrópudómstólsins um trúboð í opinberum skólum
Lesa dóm Evrópudómstólsins.

Nánari upplýsingar um stefnu Siðmenntar má fá með fyrirspurn til félagsins.  Netfangið er sidmennt@sidmennt.is