Kerfisbundin mismunun á Íslandi staðfest

Í skýrslu International Humanist and Ethical Union (IHEU – Alþjóðasamtaka siðrænna húmanista), „Freedom of Thought Report 2015“ um mannréttindi sem birt var í dag, kemur fram að á Íslandi eigi sér stað „kerfisbundin mismunun“ þegar kemur að trúar- og lífsskoðunum.

Helsta ástæða þess er að hér sé ríkiskirkjufyrirkomulag. Jákvæð þróun hefur þó átt sér stað á undanförnum árum og ber helst að telja afnám guðlastsákvæðis úr lögum, breytingu á aðalnámsskrá grunnskóla og reglur um samskipti skóla og trúfélaga.

Sjá skýrslu

Þátttaka í borgaralegri fermingu slær öll met!

fermingarskjöl 2012Nú hafa 322 börn skráð sig í borgaralega fermingu Siðmenntar árið 2016. Aldrei fyrr hafa þau verið svo mörg en um er að ræða 8% barna sem eru á fermingaraldri. Stjórn Siðmenntar er afar ánægð með þátttökuna sem sýnir að það er mikilvægt að börn eigi valkosti m.a. þegar kemur að fermingarfræðslu.

Fermingarfræðslan hefst í fyrstu viku janúar en börnin sækja námskeið einu sinni í viku yfir 12 vikna tímabil. Einnig er boðið upp á helgarnámskeið fyrir börn utan af landi. Þá verða sérstök námskeið á Akureyri og í Árborg vegna mikillar þátttöku. Umsjón kennslunnar er í höndum Jóhanns Björnssonar en auk hans verða 8 kennarar á námskeiðum vetrarins.

Námskeiðin hafa hlotið afburða góða einkunn bæði barna og foreldra þeirra. Þar er mikil áhersla lögð á að þjálfa þátttakendur í að hugsa gagnrýnið og skapandi ásamt því að auka færni í að takast á við siðferðileg álitamál. Þátttakendur fá síðan tækifæri til þess að bregðast við og taka afstöðu til ýmissa mála á gagnrýninn hátt og af siðferðilegum heilindum. Þessi mál eru m.a.: hvernig er að vera unglingur í auglýsinga- og neyslusamfélagi, fordómar og fjölmenning, hamingjan og tilgangur lífsins, skaðsemi vímuefna, sjálfsmynd unglinga og samskipti kynjanna, sorg og áföll, samskipti unglinga og fullorðinna, hverju getur maður trúað?

Móðir eins fermingarbarns sem býr erlendis hefði þetta að segja um námskeiðið sem sonur hennar tók þátt í síðastliðinn vetur:

„Við höfðum heyrt um ferminguna frá vinum og kunningjum en vissum í sjálfu sér ekki hvað námskeiðið fól í sér. Það kom okkur skemmtilega á óvart þegar við sáum hvernig verkefnin voru sett upp fyrir krakka sem búa erlendis. Að skrifa bréf vikulega var vissulega stressandi fyrir strákinn og ekki síður fyrir fjölskylduna sem sat og skeggræddi verkefni vikunnar yfir matartímum, á hóteli, í bílnum og nánast hvar sem er. Vinir og vandamenn bættust inn í umræðuna og umræðurnar eignuðust sjálfstætt líf í hvert skipti sem við ræddum þetta við aðila utan fjölskyldunnar (vinnufélaga, vini, skólafélaga og ættingja).”

Hún bætti svo við að „við fjölskyldan erum ótrúlega ánægð með námskeiðið ykkar“.

Nánari upplýsingar um Siðmennt og borgaralega fermingu gefa:
Jóhann Björnsson, s: 8449211
Bjarni Jónsson, s: 8968101

Myndir frá borgaralegri fermingu 2015

Ríkið láti af trúfélagsskráningu og hætti að greiða „sóknargjöld“

logo-text-no-backSiðmennt hvetur þingmenn til þess að breyta lögum þannig að hið opinbera hætti  að skrá og halda utan um skráningu fólks í trú- og lífsskoðunarfélög. Að auki hvetur Siðmennt til þess að greiðslu„sóknargjalda” verði hætt.

Í árlegu bréfi til þingmanna, sem er dagsett 21. september 2015 og má finna hér í viðhengi* , gerir Siðmennt grein fyrir áherslum félagsins í trúfrelsismálum. Þar segir í 3. tölulið: “Ríkið hætti skráningu trúar- og lífsskoðana með því að skrá fólk hjá Þjóðskrá. Það er andstætt persónuvernd um upplýsingagjöf einstaklinga að þurfa að gefa upp lífsskoðanir sínar.“

Einnig segir í 5. tölulið: “Þeir sem skráðir eru utan trúar- og lífsskoðunarfélaga greiði ekki trúfélagaskatt (sóknargjald). Í 2. mgr. 64 stjórnarskrárinnar segir að þeir sem ekki eru skráðir í trúfélag skulu greiða sama skatt og aðrir (svokallað sóknargjald) en hann renni í ríkissjóð. Siðmennt telur að afnema eigi þessa kvöð svo þeir sem eru utan allra félaga greiði ekki skatt eingöngu fyrir það vera ekki í félagi – það er mismunun.”

Í tilkynningu frá Þjóðskrá 2. desember er fjallað um breytingar á trúfélagsaðild á árinu.** Frá upphafi ársins hefur skráðum félagsmönnum í Siðmennt fjölgað um 40% en þeir voru í upphafi árs 1.020 og en eru nú 1.427. Samtímis fækkar hratt í Þjóðkirkjunni. Á þessu tímabili skráðu sig yfir 3.100 manns í Trúfélagið Zuism en í byrjun árs voru félagsmenn aðeins fjórir. Ein af helstu kröfum Zúista er sú sama og Siðmennt hefur haldið á lofti: Að ríkið hætti afskiptum af skráningu fólks í trú- og lífsskoðunarfélög og hætti að greiða “sóknargjöldin”.

Hvetur því stjórn Siðmenntar Alþingismenn að vinna að breytingum á kerfinu. Það eru sjálfsögð réttindi að fólk sem er skráð utan trúfélaga greiði ekki trúfélagsskatt.

f.h. Siðmenntar

Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri

*http://sidmennt.is/wp-content/uploads/Br%C3%A9f-til-%C3%BEingmanna-sept-2015.pdf
**http://www.skra.is/um-okkur/frettir/frett/2015/12/02/Fjoldi-einstaklinga-eftir-tru-eda-lifsskodunarfelogum/

Fréttatilkynning á pdf formi

Lög um guðlast afnumin á Íslandi!

Dómkirkjan og AlþingiAlþingi Íslendinga samþykkti í dag að afnema guðlastákvæði úr hegningarlögum. Það var þingflokkur Pírata sem lagði fram tillögu þess efnis í janúar síðastliðinn og hlaut hún viðtækan stuðning allra flokka á þingi en málið var samþykkt samhljóða úr nefnd. Þar með hafa Íslendingar tekið mikilvægt skref í mannréttindamálum og skipað sér meðal þjóða sem virða tjáningarfrelsi.

Einnig var víðtækur stuðningur í umsögnum um frumvarpið og fyrir utan stuðning Siðmenntar var stuðningur í umsögnum aðila eins og Biskupsstofu, Prestafélags Íslands, Félags bókaútgefenda, PEN á Íslandi, IMMI – alþjóðlegrar stofnunar um upplýsinga- og tjáningarfrelsi og Vantrúar.

Með frumvarpinu er verið að bregðast við gagnrýni ýmissa alþjóðastofnanna s.s. Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), Evrópuráðsins og Feneyjarnefnd Evrópuráðsins sem sérstaklega ályktað um að þjóðir ættu að afnema ákvæði um guðlast úr lögum sínum.

Siðmennt hefur ávallt lagt áherslu á að afnema bæri guðlastákvæði úr hegningarlögum og hefur sent þingmönnum ábendingu um það í árlegu bréfi til þeirra þar sem settar eru fram ábendingar um mikilvæg málefni sem stuðla að auknum mannréttindum.

Í umsögn Siðmenntar til Alþingis um málið er m.a. vitnað í áðurnefnt bréf og segir:

„Oft eru ríki þar sem skortur er á lýðræði og frelsi gagnrýnd fyrir að refsa fólki fyrir guðlast og þá jafnvel með dauðadómi. Þegar þessi ríki eru gagnrýnd benda talsmenn þeirra oft, réttilega, á að sambærileg lög séu einnig í gildi í „vestrænum ” lýðræðisríkjum. Því eru það mikilvægt skilaboð til umheimsins að afnema lög um guðlast á Íslandi. Ríki sem beita slíkum lögum með alvarlegum afleiðingum eiga ekki að geta bent til að mynda á Ísland og sagt að svona sé þetta nú líka þar.“

Siðmennt fagnar því að þingmenn allra flokka hafi stuðlað að auknum mannréttindum. Á það skal bent að enn eru í lögum ákvæði gegn hatursáróðri svo rétturinn til að vinna gegn slíku er áfram tryggður.
Nánari upplýsingar veitir Bjarni Jónsson í síma 8968101.