Ég heiti Sveinn Atli Gunnarsson og ég býð mig fram til aðalstjórnar Siðmenntar. Ég er algjör trúleysingi og mikill húmanisti. Sennilega myndi ég flokka mig sem tilheyra hópi sterkra trúleysingja, en þó með varfærna virðingu fyrir þeim sem velja að trúa á hið yfirnáttúrulega, þó ég telji ekki að það sé nauðsynlegt að hafa blinda virðingu fyrir sjáflum trúarbrögðunum. En auðvitað erum við öll fólk sem þurfum að lifa í sátt og samlyndi og ég tel að í flestu fólki séu góðar manneskjur, sem að mestu leiti hafa heilbrigð viðhorf til tilverunnar.

Annars er ég fjölskyldumaður og konan mín og ég störfum saman í eigin atvinnurekstri og eigum 2 unglingsstúlkur saman. Við rekum hestaleigu og við höfum m.a. verið í fararbroddi fyrir því að berjast gegn því að sú starfsstétt nýti félagsleg undirboð (sem er launaþjófnaður) og aðra svarta starfssemi í rekstrinum og það er af nógu að taka á þeim vígstöðvum og ekki endilega alltaf skilningur á því meðal okkar helstu samkeppnisaðila.

Í gegnum tíðina hef ég ávallt verið talsmaður vísinda og þekkingar, m.a. í gegnum áhugamál mitt, loftslagsvísindi, þar sem ég hef (ásamt félaga mínum) ritstýrt loftslagsvefnum loftslag.is frá 2009. Í gegnum starf mitt þar hef ég tengst fólki úr öllum áttum og átt langar rökræður um loftslagsmál.

Núna sit ég m.a. í stjórn Náttúruverndarsamtaka Íslands og hef komið að félagsmálum á margan hátt áður.

Síðustu misserin hef ég kynnt mér enn meira húmanisma og trúleysi, hef m.a. verið í sambandi við fólk sem vill ræða þau mál á samfélagsmiðlum og hefur það opnað hug minn enn meira gagnvart gagni húmanisma og trúleysis í viðfangsefnum okkar í heiminum. Það er í mínum huga besta nálgun okkar allra að nálgast málefni með húmanisma, þekkingu og vísindi að leiðarljósi. Í mínum huga er aðskilnaður ríkis og kirkju nauðsynlegt skref í nútíma þjóðfélagi og ég tel í raun að trúarbrögð eigi að vera eins og hvert annað félagsstarf sem fólk stundar ef það vill og það á ekki að blanda ríkisstofnunum í það á beinan hátt.

Ég hef óbilandi áhuga á málefninu og mig langar til að taka þátt af fullum krafti. Ég brenn fyrir flest málefni húmanisma og tel að við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að gera þjóðfélagið enn húmanískara. Hingað til hef ég ekki haft mikla tengingu við fólk í innsta hring Siðmenntar eða tengst stjórnarstörfum félagsins, en ég sé það frekar sem ákveðin plúss þar sem ég get komið inn með ferskar hliðar á málin og þekki ekki beint til hefða eða eldri bresta félagsins. Starf mitt sem sjálfstæður atvinnurekandi er líka hjálplegt í því að sjá lausnir og taka á málum á málefnalegan hátt.

Stefnumótun félagsins til framtíðar ætti að vera eitt helsta mál nýrrar stjórnar og ég tel að fyrri reynsla mín og menntun geti komið sér vel í því. Það þarf þó alltaf að stíga varlega til jarðar með allar breytingar og gera það í heilbrigðum skrefum og reyna að hafa sem flesta vel upplýsta um stefnuna til framtíðar.