Ég var ánægður þegar frumherjarnir bjuggu til Siðmennt 1991 og gekk í félagið skömmu eftir stofnun. Borgaði alltaf félagsgjaldið en var að öðru leyti óvirkur þangað til fyrir sirka ári, veitti þó það lið sem ég gat, meðal annars á þingi. Þegar Siðmennt auglýsti eftir athafnastjórakandidötum í fyrra ákvað ég að standa við gamalt fyrirheit, skellti mér á námskeiðið (sem var ótrúlega gjöfult og skemmtilegt) og er nú orðinn formlegur og fullgildur athafnarstjóri eftir eina nafngjöf og tvær giftingar.

Um lífshlaup, störf og verk má sjá hér, hér og hér.

Eftir undanfarna atburði var niðurstaðan að gefa kost á sér í forystusveitina hjá Siðmennt, af því félaginu og málstaðnum gæti orðið að gagni ýmsir hæfileikar, reynsla og þekking sem ég bý yfir (þar á meðal frásneyðing lítillætis!) í félagstörfum, ráðagerðum, ýmsu kerfisstússi og svo kringum tungumál og menningarsögu. Held ég geti hjálpað talsvert til með því að vera nærstaddur – og þá passar vel að vera í varastjórn.

Við skiptum alltaf meira og meira máli í samfélaginu. Fór um daginn sem sjálfboðaliði í fermingarathöfn í Háskólabíói, fyrsta sinn í nokkur ár, og fannst þetta algjörlega magnað – við erum að starfa með næstum 13 af hundraði barna sem eru að stíga fyrstu fullorðinsskrefin, og ekki síður með foreldrum þeirra og fjölskyldum. Þetta er mikill árangur. Og ekki síður mikil ábyrgð.

Ég minni á einkunnarorð okkar um trúfrelsi, manngildi og mannréttindi. Ég vil að Siðmennt sé umburðarlyndur, hlýr og skemmtilegur félagsskapur sem þjónar sínu fólki og almenningi af trúnaði og með reisn.

Kosningaloforð: Koma vefsetrinu og öllum Siðmenntartextum á gott og eðlilegt íslenskt mál, og hjálpa félaginu í fjölmenningarframtíðinni.