Hæ ég heiti Kristinn Theodórsson og ég ætla að bjóða mig fram í aðalstjórn Siðmenntar á aukaaðalfundinum 24. apríl næstkomandi.

••• Hver er ég?

Ég er 42 ára Reykvíkingur og kvæntur 3ja barna faðir. En þegar ég komst fyrst í kynni við Siðmennt var ég 14 ára óframfærinn unglingur sem vildi ekki fermast í kirkju. Mér var bent á Siðmennt og árið 1991 var ég því í 3ja árganginum sem fermdist hjá félaginu. 15 krakka hópur þá ef ég man rétt.

Mörgum árum seinna var ég að blogga þessi ósköp um trúleysi og siðferði guðlausra þegar Svanur Sigurbjörnsson okkar hafði samband við mig og spurði hvort ég hefði áhuga á að ganga til liðs við Siðmennt sem athafnastjóri. Ég tók síðan að mér slatta af athöfnum á næstu árum, þótt ég sé hættur því í dag – og gekk svo seinna til liðs við stjórnina sem varamaður.

Síðustu 10 árin eða svo hef ég sem sagt verið viðloðandi stjórn félagsins, en alltaf sem varamaður með mismikla viðveru – nema núna á síðasta hálfa ár ca. þegar Jóhann hætti og ég var skyndilega kominn í aðalstjórn.

Það má því segja að ég hafi fengið langt og gott uppeldi í félaginu og sé loks tilbúinn að axla smávegis ábyrgð.

Ég vinn sem tæknimaður, en hvað menntun snertir steig ég vegna anna af lestinni þegar ég var hálfnaður með BA gráðu í heimspeki við HÍ fyrir nokkrum árum.

••• Hvað er ég að vilja upp á dekk?

Ég hef orðið dálitla reynslu af starfi Siðmenntar. Ég veit hvað við erum að bardúsa og hef fundað nógu mikið með húmanistum á Norðurlöndum til að þekkja helstu Danina, Norðmennina og Svíana og er í persónulegum samskiptum við þá suma. Það held ég að sé dýrmætt fyrir félagið, að það sé um kunningskap að ræða. Það tekur auk þess tíma að átta sig á norræna, evrópska og alþjóðlega starfinu og hvað er að gerast á hvaða sviði. Það er pólitík í svo mörgu í þessum heimi.

Árið 2023 stefna Danir að því að halda heimsþing alþjóðasamtakanna (HI). Siðmennt mun eiga fulltrúa í undirbúningsnefnd og í viðburðanefndum þar að lútandi. Ég og Siggeir framkvæmdastóri funduðum með þeim núna í byrjun mars og ég hefði gaman af að taka þátt í að móta það starf næstu árin. Það væri 4 ára verkefni og alls ekki ljóst að ég verði kosin í stjórn núna eða hin árin. En í ljósi þess að ég þekki aðeins til er a.m.k. á einhverri reynslu og töluverðum áhuga að byggja.

Samtökin okkar verða 30 ára gömul árið 2020 og það þarf nánast strax að huga að hvernig því verði fagnað og byrja þann undirbúning. Ofan á það bætast öll venjulegu verkefni Siðmenntar: viðurkenningar, viðburðir og annað. Það verður því nóg að gera næsta árið fyrir stjórnina og ég held að ég muni koma að nokkru gagni við það allt saman, þar sem ég þekki vel til og hef sýslað í ýmsu í gegnum tíðina.

••• Hvað með átökin síðustu vikur?

Mér finnst ýmislegt áhugavert hafa komið fram í þessum umræðum síðan aðalfundurinn okkar var haldinn, þótt ég sé ekki sammála öllu. Það er t.d. ljóst að launagreiðslur til stjórnarmeðlima eru mjög illa séðar og að mörgum þykir nóg um eyðslu félagsins síðustu ár.

Ég hef rætt við frændur okkar Dani um þetta mál og þeir segjast einmitt alls ekki kaupa neina vinnu af stjórnarmeðlimum, því það líti alltaf illa út, hversu varlega sem reynt er að fara. Ég held að það sé einfaldlega rétta viðhorfið til þeirra mála. En um leið skil ég vel að í litlu félagi hjá lítilli þjóð hafi málin samt farið í þann farveg. Nú er félagið hinsvegar ekki það lítið lengur og við verðum að fullorðnast. Verði ég í stjórn mun ég því beita mér fyrir því að eftir árið sem er að líða verði engir stjórnarmeðlimir á launum hjá félaginu.

Þó finnst mér athafnaþjónusta í góðu lagi. Það er þjónusta sem hver og einn veitir út á við og er greidd af kaupendum þjónustunnar, en ekki af Siðmennt (látum niðurgreiðslu sumra athafna liggja milli hluta). Auk þess er það starf svo stór hluti af hver við erum, að það er bara jákvætt að fólk í stjórn kunni að stýra athöfnum, halda ræður og geti jafnvel hlaupið undir bagga þegar með þarf.

Sú gagnrýni að félagið sé að eyða of miklum peningum finnst mér líka nokkuð sanngjörn og ég mun að sama skapi, ef ég verð í stjórn, tala fyrir því endurskoða ýmsan kostnað og hagræða. Þar hafa þegar komið fram nokkrar ágætar hugmyndir sem mér finnst í góðu lagi að skoða. Ekkert af þessu tagi á að vera viðkvæmt að ræða. Við verðum að vera hrein og bein í þessum efnum eins og öðrum.

••• Með öðrum orðum

Ég hef ekki setið í aðalstjórn í mörg ár, heldur aðeins í varastjórn. Mér þykir vænt um félagið og hef löngum spáð í og skrifað um trúleysi og siðferðileg mál. Ég hef því gaman af húmanisma og vil veg hans sem mestan. Mér líst vel á formannsframboð Ingu Auðbjargar og ég held að hress stjórn undir hennar forystu, verði hún kjörin, eigi eftir að gera góða hluti næsta ár. Ef félagsmönnum hugnast það, er ég tilbúinn að gera mitt besta til að svo verði.