Ég býð mig fram sem aðalmaður í stjórn Siðmenntar á aukaaðalfundi félagsins 24. apríl nk. eins og fram kom á félagsfundinum miðvikudaginn 10. apríl s.l.

Ég hef verið félagi í Siðmennt í fjölda ára en aldrei boðið mig fram til trúnaðarstarfa fyrir félagið fyrr en nú. Ég var stofnfélagi í SARK (samtökum um aðskilnað ríkis og kirkju, stofnað 1994) og var í fyrstu stjórn þeirra samtaka. Hef ég starfað mikið að félagsmálum frá unglingsárum. Ég var í mörg ár í stjórn Hinsegin daga í Reykjavík og var í fyrstu stjórn þess ágæta félags, auk þess að hafa starfað mikið fyrir og með ýmsum samtökum samkynhneigðra á Íslandi og í alþjóðasamtökunum Interpride. Ég hef starfað í Samfylkingunni um árabil og sit fyrir hönd Samfylkingarinnar í Velferðarráði Kópavogs. Einnig hef ég verið í mannréttindanefnd Kópavogsbæjar og lagt þar áherslu á jöfn réttindi fólks með ólíkar trúarskoðanir og fólks af ólíkum uppruna. Ég var í nokkur ár formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi og var einnig varabæjarfulltrúi. Einnig sat ég í framkvæmdastjórn flokksins m.a. í forsætisráðherratíð Jóhönnu Sigurðardóttur.

Ég er 55 ára og bý í Kópavogi með konu minni Valgerði Þ.E. Guðjónsdóttur. Ég starfa sem innkaupastjóri fyrir Húsasmiðjuna og hef starfað á fyrirtækjamarkaði mest af starfsævinni hjá fyrirtækjum eins og N1, Hexa, Austurbakka og Gunnari Kvaran ehf. Ég var starfsmaður Leigjendasamtakanna ung að árum. Einnig tók ég þátt í að stofna útvarpsstöðina Rót á sínum tíma og starfaði þar við dagskrárgerð sem byggði á málfrelsi og virðingu fyrir ólíkum skoðunum fólks úr ýmsum áttum. Það var góður grunnur fyrir unga konu sem alin er upp á hefðbundu íslensku heimili en vildi víkka sjóndeildarhringinn.

Ég hef fylgst með Siðmennt í mörg ár og oftast fundist félagið standa sig vel í að opna umræðu um ýmis mál og standa vörð um réttindi þeirra sem ekki vilja tilheyra trúfélagi. Ég lít á sjálfa mig sem húmanista, í víðustu merkingu þess orðs, og tel að hugmyndafræði Siðmenntar slái ágætlega í takt við mín lífsviðhorf þó mér finnist stundum grunnt á ákveðnum hroka og klíkumyndun í þessu ágæta félagi. Þetta vil ég segja af hreinskilni því ég tel að hreinskilni sé grunnurinn að góðu samstarfi og samskiptum. Ég vil að Siðmennt verði breiðfylking húmanista og að þar verði víðsýni, umburðarlyndi og virðing fyrir ólíku fólki sett í öndvegi.

Sýnileiki er, að mínu áliti, besta leiðin til að fá fólk til að hlusta á ný viðhorf og velta upp grónum leikreglum sem byggja á hefðum og vana en kannski ekki skynsemi og mannúð. Siðmennt hefur tekist ágætlega að varða veginn í þessum efnum og ekki síst með virku og áberandi starfi í uppbyggingu á borgaralegum athöfnum. Þetta félag, eins og mörg önnur, er þó í hættu á að verða stýrt af fámennum hópi fólks sem situr sem fastast og gerir ekki ráð fyrir endurnýjun. Nýlegar deilur í félaginu leiða það ágætlega í ljós. Ég vil leggja mitt af mörkum til að styrkja og efla Siðmennt og stuðla að því að félagið þróist og dafni með lýðræðislegum og lifandi hætti.