Ég er 41 árs er í sambúð og við eigum saman einn strák. Starfa sem teymisstjóri hjá heimaþjónustu Reykjavíkurborgar og er menntaður í verkefnastjórnun og uppeldis- og menntunarfræðum. Ég hef unnið við ýmislegt í gegnum tíðina, aðallega ummönnunarstörf í þágu fatlaðra. En hef starfað á leikskólum og í verkamannastörfum. Stofnaði eigið spila og bókaútgáfu sem hætti rekstri fyrir nokkrum árum.

Ég er faðir, lestrarhestur, hlutverkaspilari, borðspilari, draumóramaður, skúffuskáld, gervi-tækninörd, bíósení, heiðarlegur, ljúflingur, hryllilegur í málfræði, hundamaður en á kött (sem mér þykir vænt um, en ekki segja honum það). Mig dreymir um að vera góður í bandý, folfi og fara oftar á Hornsstrandir. Ég trúi á að heimuri fari batnandi með hverri mínútúnni og staðan sé björt framundan.

Ég er vanur félagsstörfum, starfaði hjá ungmennafélagi Rauða Krossins í mörg ár, hef tekið þátt í trúnaðarstörfum fyrir stéttarfélög, og er í stjórn Alumni félags.

Ég skráði mig í Siðmennt þegar það var skráð sem lífsskoðunarfélag, en hafði staðið utan trúfélaga frá því að ég var 18 ára. Ég hafði lítið sem ekkert tekið þátt í starfsemi Siðmenntar, bara hugsað hlýlega til félagsins þegar það kom upp í huganum.

Ég mætti á síðasta aðalfund vegna þess að vinur minn bað mig um það. Ég bauð mig fram í varastjórn félagsins á fundinum, aðallega til að fylgjast með því hvað myndi gerast næst. Ég vissi að eitthvað spennandi myndi gerast og ég varð ekki fyrir vonbrigðum.

Félagið stendur á krossgötum, félagsmönnum hefur fjölgað gríðarlega á síðustu árum og það eru vaxtarverkir í félaginu. Það er áhyggjuefni að öflugt fólk sem hefur starfað í félaginu í mörg ár sé búið að skrá sig úr því vegna persónulegra árekstra. Það er kannski ekki óeðlilegt en það er ekki góðsviti.

Ég mun leggja áherslu á eftirfarandi hluti.

  1. Stefnumótun – Það þarf að marka stefnu félagsins til næstu ára. Við þurfum að ákveða hvað skal gera varðandi sóknargjöldin. Hvernig á að nýta þessa velvild og þessa peninga sem streyma í félagið.
  2. Starf borgaralegar Fermingar – Það þarf að ákveða hvernig starfsemi BF verði háttað í framtíðinni. Hope og Þorsteinn eru búin að vinna grettistak síðustu ár en þetta er allt of mikið álag á þau. Það þarf að breyta þessum starfsaðferðum.
  3. Sóknargjöld – Siðmennt hefur það á stefnuskránni sinni að það verði lagt niður sóknargjaldakerfið. En hver eru næstu skref á þessu mikilvæga máli? Það þarf að ákveða það og stíga þau skref.
  4. Gegnsæi – ég mun leggja það til að allar fundargerðir, allir ársreikningar, verði opinberir á heimasíðu Siðmenntar. Það þarf að skoða sérstaklega trúnaðarmál en það er hægt að gera eitthvað kerfi í sambandi við það.
  5. Valddreifingu – Það er mikið af fólki í félaginu sem er tilbúið að leggja sitt af mörkum. Það þarf að dreifa valdinu og valdefla það fólk. Gefa fólki ábyrgð. Tími fámennar stjórnar sem tekur allar ákvarðanir, stórar sem smáar, er liðin.
  6. Launuð störf fyrir þágu Siðmenntar og stjórnarseta gengur einfaldlega ekki upp. Það þarf að breyta þessu. Ég veit ekki alveg hvað á að gera með athafnastjóra. Hef satt að segja ekki myndað mér skoðun á því.

Það þarf að huga að mörgu og við þurfum að vanda okkur. Að velja réttu fulltrúanna er nauðsynlegt. Nýtið réttinn til að kjósa og mætið á auka-aðalfundinn.