Ég heiti Auður Sturludóttir og býð mig fram í aðalstjórn.

Ég er með BA gráðu í frönskum fræðum og búin með hálft mastersnám. Námið er margslungið og það sem mér finnst skemmtilegast við námið er hugmyndasagan og heimspekin sem er mjög mikilvægur hluti af náminu. Það var líka þannig sem ég kom inn í stjórn Siðmenntar – þegar ég átti að vera að klára heimaverkefni dróst ég alltaf inn í spjall á Siðmenntarspjallinu um alls kyns mál, gjarnan tengd heimspeki og siðfræði. Það leið ekki á löngu áður en „komið var að máli við mig“ og ég beðin að gefa kost á mér og síðan í febrúar 2015 hef ég verið í stjórn, fyrst sem varamaður en í síðustu ár sem gjaldkeri og svo varaformaður.

Hagnýt reynsla

Ég hef mjög víðtæka reynslu af atvinnulífinu. Ég er afkastamikil í vinnu og hef mikinn áhuga á Siðmennt, en það er auðvitað lykilatriði að fólk hafi áhuga og tíma þegar það lofar sér í sjálfboðavinnu. Sú reynsla sem nýtist mér helst þegar kemur að stjórnarstörfum eru mín tvö síðustu störf: Núverandi starf mitt á ferðaskrifstofu þar sem ég skipulegg ferðir, viðburði og sé um fjármál í kringum erlenda ferðamannahópa – og svo starfið sem ég var í þar á undan, sem forstöðukona frístundaheimilis. Það var líka afar lærdómsríkt, ég lærði mjög mikið um stjórnun mannafla, skipulagningu verkefna og hugsjónastarf var þar mikið. Við innleiddum meðal annars fræðslu um barnasáttmála SÞ og hugmyndafræðin á bak við starfið með börnunum var útpæld og metnaðarfull. Þetta var samvinna stjórnendateymis hverfismiðstöðvarinnar sem ég var hluti af og ég er enn mjög stolt af aðkomu minni að uppbyggingu þess starfs.

Ástæðurnar fyrir því að ég vil bjóða fram krafta mína er að ég er mikil hugsjónamanneskja, hef virkilega gaman af lífinu og þykir vænt um fólk. Ég er svo þakklát fyrir Siðmennt, því fyrir konu sem ólst upp í trúleysi voru það fagnaðarfundir að finna þetta frábæra félag. Trúleysi er eitt en húmanismi er einmitt það sem gefur lífinu fyllingu, þetta er öflug hreyfing sem býr til umræðuvettvang um siðræn málefni og skapar ramma fyrir stóru stundirnar í lífinu. Það hefur líka verið einstaklega góð upplifun að kynnast alþjóðlegu samtökunum og vinum okkar á Norðurlöndunum.

Heiðarleiki

Mér finnst mikilvægt að hafa heiðarleika í fyrirrúmi hjá stjórn félags siðrænna húmanista. Traust milli stjórnarmeðlima er nauðsynlegt til að starfið gangi vel. Það þarf að vera hægt að gagnrýna aðra og treysta því að aðrir gagnrýni heiðarlega ef þeim þykir þess þurfa. Heiðarleiki næst best fram með því að fara í málefnið en ekki manninn, segja sína skoðun og rökstyðja án þess að að gera lítið úr öðrum. Fólk hefur alls kyns sýn á hlutina og hlýtur að vera ósammála um margt. En það getur enginn lært af öðrum nema heyra hans heiðarlegu skoðanir og fá rökstuðning fyrir þeim. Þess vegna er mikilvægt að geta talað hreint út, að geta treyst því að hinir munu hlusta og taka því sem um er rætt til athugunar, svara síðan með mótrökum eða fallast á gagnrýnina. Þess konar heiðarleiki í samskiptum er vænlegur til árangurs. Heiðarleikinn er líka mikilvægur út á við, félagsmenn þurfa að geta treyst því að stjórn tali hreint út, taki ákvarðanir með hagsmuni félagsins að leiðarljósi og svari öllum þeim spurningum sem upp kunna að koma.

Samvinna

Að vinna í stjórn snýst ekki um að koma sínu egói sem mest að, heldur að vinna með öðrum einstaklingum. Það er mikilvægt að kunna að hlusta, skilja mismunandi sjónarmið og vera tilbúinn að finna lausn sem hentar sem flestum en ekki endilega manni sjálfum. Að finna málamiðlanir er list, það krefst innsæis og félagslegs þroska. Það er líka list að kunna að dreifa verkefnum milli stjórnaraðila. Tíu hendur vinna meira en tvær, og það er jafnvel enn verðmætara ef fleiri en stjórnarmeðlimir eru til í samstarf. Það þarf að nýta alla þá krafta sem bjóðast í félagi eins og Siðmennt og það þarf að grípa tækifærin þegar fólk býður sig fram í sjálfboðavinnu. Mörgum finnst gott og gaman að gefa af sér ef málstaðurinn er góður. Það eflir samkenndina, eflir starf félagsins og skapar orku sem nýtist til góðs. Samvinnan með erlendu húmanistunum er líka mikilvæg og það er hægt að læra margt og koma mörgu góðu til leiðar með erlendu samstarfi.

Virðing

Ástæðan fyrir tilveru Siðmenntar er virðing og virðing er jafnframt eitt það mikilvægasta sem við þurfum að temja okkur í margbreytilegu samfélagi nútímans. Virðing fyrir fólki og heiminum sem við hrærumst í, fyrir jörðinni og öllum lífverum sem hana byggja. Líka virðing fyrir þeim sem við umgöngumst og erum jafnvel ósammála. Það er hægt að læra svo margt af þeim sem við erum ósammála, það er einmitt fólkið sem fær okkur til að hugsa og þurfa að rökstyðja okkar eigin sjónarmið. Siðmennt var stofnuð því hún krefst þess að allir njóti virðingar, hverrar trúar, kynhneigðar og þjóðernis sem þeir eru og hvar í flokki sem þeir standa. Það er mikilvægt að bera virðingu fyrir fólki og rétti þess til að hafa skoðun. En það þarf ekki að virða allar skoðanir. Það er hægt að gagnrýna skoðanir og gerðir fólks án þess að gera aðför að virðingu þess sem einstaklinga.

Með þessi sjónarmið að leiðarljósi og kraft minn, sem ég vil nýta til góðs, býð ég mig fram til starfa fyrir Siðmennt. Ég hef lært af fortíðinni og hef einsett mér að vera tilbúin í að vinna með hverjum þeim sem félagsmenn kjósa til að vera í forsvari fyrir félagið.