Fara á efnissvæði

Veraldleg gifting

Dagurinn sem markar upphaf að hjónabandi er oft einn eftirminnilegasti dagur í lífi einstaklings. Í athöfnum Siðmenntar er áhersla lög á að parið sem gengur í hjónaband sé í sviðsljósinu og eru athafnirnar sniðnar eftir óskum, þörfum og persónugerð hjónaefnanna. Giftingar Siðmenntar eru ekki trúarathafnir, heldur húmanískar og veraldlegar.

Gjald 2023 80.000 kr.
Afsláttur fyrir félaga í Siðmennt 20.000 kr á mann
Fyrir hverja er veraldleg gifting?

Veraldleg gifting er fyrir öll pör sem af einhverjum ástæðum vilja ekki hafa giftingarathöfnina trúarlega. Siðmennt neitar engum um þessa þjónustu, hvort sem að fólk er trúað eða ekki. Hver athöfn er útfærð eftir óskum parsins.

Siðmennt er húmanískt félag sem fagnar fjölbreytileika mannlífs. Öll pör hafa jafna stöðu í augum Siðmenntar óháð kyni, kyntjáningu, kynhneigð og kynþætti. Fókusinn er settur á ástina, og markmiðið ávallt að fagna henni með fallegri og persónulegri athöfn.

Uppbygging giftingaathafna

Í giftingum Siðmenntar eru brúðhjónin miðpunktur dagsins. Athafnarstjóri, sem parið hefur valið fyrirfram og unnið náið með, leiðbeinir í athöfninni og fer með hugvekju tengda lífi parsins og hjónabandinu. Hátíðleiki er ávallt í hávegum hafður. 

Tónlist, söngur, ljóð eða önnur listræn tjáning eru ríkur þáttur af athöfninni sem ber jafnan ákaflega gleðilegt yfirbragð. Ættingjar og vinir og jafnvel brúðhjónin sjálf geta lagt sitt af mörkum til að gera athöfnina eftirminnilega.

Síðan 2013 hafa allar giftingar á vegum Siðmenntar verið fullgildir löggjörningar, en þó er einnig í boði að halda táknræna athöfn eða endurnýjun heita.

Hvar fara veraldlegar giftingar fram?

Giftingar geta farið fram nánast hvar sem er. Siðmennt hefur gefið saman hjón í heimahúsum, við fossa og gil, á söndum og í birkirjóðrum, í sumarbústöðum og samkomusölum. Látlaus athöfn er jafn hátíðleg og sú íburðarmikla – gleði og hamingja eru aðalatriði.

Dæmigerð athöfn af fullri lengd og tónlist

  • Innganga hjónaefna á vígslustað undir innspili.
  • Stutt inngangsorð athafnarstjóra.
  • Saga hjónaefna – athafnarstjóri rekur sögu sambands þeirra.
  • Hugvekja – aðfararorð heityrða.
  • Heityrðin og hringarnir. Hjónabandið innsiglað með kossi.
  • Lokaorð og útganga hjóna af vígslustað undir útspili.

Kostnaður

Siðmennt setur upp ákveðið gjald fyrir hverja athöfn og í því felst kaup athafnarstjórans og umsýsla. Ferða-, gisti- og biðkostnað þarf að greiða ef með þarf. Akstursgjaldið er nú 184 krónur á hvern ekinn kílómetra. Bið- og göngugjald er 10.000 krónur á hverja klukkustund.

Reikningur er sendur í heimabanka fyrir umframkostnaði ef einhver er.

Þjónusta Siðmenntar
80.000 kr.
Afsláttur fyrir félaga í Siðmennt
20.000 kr. afslátt á hvorn einstakling

Innifalið í kostnaði er viðtal við hjónaefni, ráðgjöf, ræðuskrif og annar undirbúningur.

Skráning í Siðmennt

Lagaatriði

Til að hjónavígsla hafi lagalegt gildi þurfa hjónaefni að fá útgefið könnunarvottorð. Hjónaefni með lögheimili á Íslandi og íslenska kennitölu geta sótt rafrænt um vottorðið hér:
https://island.is/um-hjonaband
*Könnunarvottorð má ekki vera eldra en 30 daga á vígsludegi.

Ef sótt er um með eyðublaði, þá þarf jafnframt að leggja fram hjúskaparstöðuvottorð, fæðingarvottorð beggja hjónaefna og afrit af vegabréfi, ökuskírteini eða nafnskírteini.
*Hjúskaparstöðuvottorð má ekki vera eldra en 12 vikna á vígsludegi.